Sálmurinn: Heyr faðir þjóða.

Heyr, faðir þjóða! 

Sálmurinn „Heyr faðir þjóða“, byggir á sálminum  „Dear Lord and Father of Mankind“ , eftir kvekaraskáldið John Greenleaf Whittier, (1807-1892) en er hluti af miklu lengra kvæði. Þetta er ekki vönduð þýðing sálmsins, heldur einungis reynt að nálgast megin áherslur furmtextans.  Nákvæmlega í miðju þessarar íslensku gerðar sálmsins (4.versi) er vísað til þess er Guð gekk framhjá Elía í hellinum 1. Kon. 19. 11- 12. en það er einnig í frumgerðinni og gefur sálminum öllum skýrt einkenni. Lagið er eftir breska tónskáldið  Sir Charles Hubert Hastings Parry  (1848 - 1918). Það má t.d. finna  í sálmabókinni: Ancient&Modern Hymns and Songs for Refreshing Worship, London 2013, Nr 621.
Sálmurinn með því lagi er í Sálmabókinni 2022 nr. 734.

Þessi islenskun  textans er gerð að beiðni séra Bjarna Þórs Bjarnasonar  og tileinkuð Seltjarnaneskirkju á 25 ára vígsluafmæli kirkjunnar þann 18. febrúar 2014.

 

Heyr, faðir þjóða, faðir minn,
æ, fyrirgef þú mér.
Lát börn þín heyra boðskap þinn,
og bera ljós þitt út sem inn
/:/og ætíð þjóna þér. /:/

 

Þú Guð sem veitir veröld líf
og verndar sérhvern mann.
Til iðrunar með auðmýkt hríf
ef angist vex og harðnar kíf:
/:/ Við lofum lausnarann. /:/

 

Send anda þinnar eilífðar
til okkar sérhvert sinn
er safnast viljum saman þar
sem sungið lof þitt ávalt var
/:/við friðar faðminn þinn. /:/

 

Í straumi tímans stóðst þú vörð.
og  styrkir okkur nú.
Við skruggur elds er skelfur jörð
og skefur stormur mel og börð,
/:/í blíðum blæ ert þú. /:/

 

Ó, legg í heimi helga ró
í hjarta sérhvers manns.
Æ gef þeim líf og frið og fró,
þá fyrir krossinn hans sem dó
/:/í fórn Guðs,frelsarans. /:/

 

Því hvert eitt sinn er höldum við
á Herrans Jesú fund.
Hann krýpur þar við þína hlið
í þögn og kærleik með sinn frið,
/:/sem áttu alla stund. /:/

 

Lát falla yfir bú og byggð
þinn blíða, djúpa frið.
Lát gróa sár og huggast hryggð
í hverjum manni eflast tryggð.
/:/ Gef náð við himins hlið. /:/                 

Um sálma

Það hefur verið mikilvægur hluti af starfsævi minni að þýða og semja sálma. En ég geri ekkert tilkall til þess að vera kallaður sálmaskáld. Frammi fyrir hinum raunverulegu sálmaskáldum stenst ég engan samanburð. Ég er meira eins og handverksmaður á þessum vettvangi og er glaður yfir því að fá að vera þar.

Sálmar aðgreina sig frá öðrum ljóðum fyrst og fremst með því að þeir eru tjáning trúarlegs veruleika. Hin trúarlega forsenda sálmsins er grundvöllur hans.

Read more

Skriftaspegill

Fyrir þúsund árum var ákveðið í vesturkirkjunni að hver kristinn maður skyldi ganga til skrifta í það minnsta einu sinni á ári, á föstunni, og vera síðan til altaris á páskum. Skriftirnar fylgja ákveðinni aðferð sem innifelur játningu syndanna og aflausn, eða fyrirgefningu. Til þess að undirbúa sig fyrir skriftir voru samdar leiðbeiningar fyrir skriftabörn. Þær voru oft kallaðar skriftaspegill.

Read more