Sálmurinn: Heyr faðir þjóða.

Heyr, faðir þjóða! 

Sálmurinn „Heyr faðir þjóða“, byggir á sálminum  „Dear Lord and Father of Mankind“ , eftir kvekaraskáldið John Greenleaf Whittier, (1807-1892) en er hluti af miklu lengra kvæði. Þetta er ekki vönduð þýðing sálmsins, heldur einungis reynt að nálgast megin áherslur furmtextans.  Nákvæmlega í miðju þessarar íslensku gerðar sálmsins (4.versi) er vísað til þess er Guð gekk framhjá Elía í hellinum 1. Kon. 19. 11- 12. en það er einnig í frumgerðinni og gefur sálminum öllum skýrt einkenni. Lagið er eftir breska tónskáldið  Sir Charles Hubert Hastings Parry  (1848 - 1918). Það má t.d. finna  í sálmabókinni: Ancient&Modern Hymns and Songs for Refreshing Worship, London 2013, Nr 621.
Sálmurinn með því lagi er í Sálmabókinni 2022 nr. 734.

Þessi islenskun  textans er gerð að beiðni séra Bjarna Þórs Bjarnasonar  og tileinkuð Seltjarnaneskirkju á 25 ára vígsluafmæli kirkjunnar þann 18. febrúar 2014.

 

Heyr, faðir þjóða, faðir minn,
æ, fyrirgef þú mér.
Lát börn þín heyra boðskap þinn,
og bera ljós þitt út sem inn
/:/og ætíð þjóna þér. /:/

 

Þú Guð sem veitir veröld líf
og verndar sérhvern mann.
Til iðrunar með auðmýkt hríf
ef angist vex og harðnar kíf:
/:/ Við lofum lausnarann. /:/

 

Send anda þinnar eilífðar
til okkar sérhvert sinn
er safnast viljum saman þar
sem sungið lof þitt ávalt var
/:/við friðar faðminn þinn. /:/

 

Í straumi tímans stóðst þú vörð.
og  styrkir okkur nú.
Við skruggur elds er skelfur jörð
og skefur stormur mel og börð,
/:/í blíðum blæ ert þú. /:/

 

Ó, legg í heimi helga ró
í hjarta sérhvers manns.
Æ gef þeim líf og frið og fró,
þá fyrir krossinn hans sem dó
/:/í fórn Guðs,frelsarans. /:/

 

Því hvert eitt sinn er höldum við
á Herrans Jesú fund.
Hann krýpur þar við þína hlið
í þögn og kærleik með sinn frið,
/:/sem áttu alla stund. /:/

 

Lát falla yfir bú og byggð
þinn blíða, djúpa frið.
Lát gróa sár og huggast hryggð
í hverjum manni eflast tryggð.
/:/ Gef náð við himins hlið. /:/