Kirkjusöngur við aldahvörf [1]
erindi á ráðstefnu Kjalarnesprófastdæmis
I.
Kirkjusöngur við aldahvörf geymir í sér m.a. eftrfarandi spurningar: Hver er staðan? Hvernig er ástand kirkjusöngs nú? Hver eru megin vandamálin? Hver er rót þeirra og forsenda? Hverjar eru lausnirnar? Hver er framtíðarsýnin?
Ég vel nokkrar spurningar, fullyrðingar og álitamál af handahófi:
Ég kem ekki til kirkju vegna þess að það er svo leiðinlegt þar. Sérstaklega er tónlistin leiðinleg og þunglamaleg og jarðarfararleg.
– Er þessi fullyrðing réttmæt? Ef hún er það, hvernig ætlum við að bregðast við henni?
Ef þetta var messa, hvernig eru þá jarðarfarirnar? Það er enn verið vitna í það þegar dr. Björn Björnsson fór fyrir einhverjum árum með breskum vini sínum til messu í Dómkirkjunni, og sá ku hafa tjáð sig um messuna með þessu hætti.
Eru þetta upplýsingar um söngmáta, eða upplýsingar um hugmyndir tiltekins breta, eða jafnvel bara upplýsingar um Björn Björnsson ? Hver eru, og / eða hver ættu að vera viðbrögðin?
Söngvar úr sálmabók og söngarfi kirkjunnar eru á hröðu undanhaldi í athöfnum kirkjunnar, einkum við hjónavígslu og útför.
Er þetta rétt ? Ef svo er, teljum við þetta þá bara eðilega þróun eða er þetta eitthvað sem kirkjan vill sporna við ?
Ef við svörum því játandi, má spyrja næst: Hvernig spornar kirkjan við þessari þróun – og hversvegna?
Er samhengi á milli vaxandi kostnaðar við þessar tilgreindu athafnir og fjarlægðar þeirra frá starfi safnaðanna og opinberu lífi kirkjunnar að öðru leyti. ?
Er kannski bara verið að kaupa einn pakka með brúðkaupi og annan með jarðarför.? Ef það er raunin - er það þá ekki einmitt það sem er til sölu? Og hver er þá seljandinn? Er það ekki einmitt sú sama kirkja sem á að vita betur um eðli og innihald þjónustu sinnar?
Er kannski svarið alltaf hið sama:
Skortur á þekkingu á því fyrir hvað kirkjan stendur.? Skortur á skilningi á trúarlegum forsendum kirkjuathafna. Skortur á trú ? Skortur á forsendum trúarinnar jafnt hjá veitendum sem þiggjendum?
Alex Wright, 35 ára gamall breti tók við í maí 2000 sem framkvæmdastjóri SCM Press, sem eins og margir vita er ein af virtustu útgáfum á trúarlegu efni á Bretlandseyjum. Hann heldur því fram að mest af því sem gefið er út af trúarlegu efni í Bretlandi sé miklu fremur samtal guðfræðinga innbyrðis heldur en tilraunir til að ná til hins ófaglærða lesendahóps. Hann ætlar sér að reyna að finna höfunda sem gætu, vegna hinna yngri í lesandahópnum til þess að, eins og hann segir: who for younger readers put back the "cool" into religious books. Og svo segir hann: "You have to face up to the fact that if you're on a train or a bus and you're under 30, to be seen reading a religious book is cultural death."
Fólk getur auðvitað velt því fyrir sér hvað þetta innskot hefur að gera í umfjöllum um kirkjusöng við aldahvörf. Ég ætla ekkert að svara því. Það er óþarfi.
II.
Nú er ekki til nein skráð eða skipulögð stefna Þjóðkirkjunnar í málefnum kirkjutónlistarinnar. Það hefur heldur ekki verið venja að skrá eða setja fram stefnu í þesskonar málefnum til þessa. Það kann að hafa verið óþarfi, en er það ekki lengur. Auðvitað hefur verið til stefna í þessum málum sem lesa má af gerðum hlutum, án þess að skráð væri, og svo er einnig nú.
Meginstefna kirkjusöngsmála í þjóðkirkjunni virðist vera sú :
-að gera söfnuðinn að lifandi þátttakendum í söng messunnar ( en ekki endilega við aðrar helgiathafnir)
-að gera stuðning fagfólks við helgihaldið eins vel úr garði og mögulegt er.
Hvernig virkar það ?
Söngmál þéttbýlisins, einkum á suðvesturhorninu virðast vera í nokkuð góðu lagi. Miklum fjármunum er varið til söngstarfsemi kirkjunnar. Í mörgum tilfellum eru söngmál og kirkjutónlistarmál stærsti pósturinn í starfsemi safnaðar og ekki hægt að segja annað en að þar séu söngmál í góðu lagi. Fjöldi fastráðinna organista hefur vaxið jafnt og þétt á undanförnum tveim áratugum. Menntun organista er meiri en áður var, en ekki er sjálfgefið að samhengi sé á milli menntunar og reynslu og launa, sem þó hlýtur að vera grunvallaratriði. Hlutverk kirkjukóranna sem leiðandi afls í söngmálum safnaða hefur breyst verulega í Reykjavíkur- og Kjalarness-prófastdæmum.
Víða á landsbyggðinni er þessu hinsvegar þannig farið að söngmál safnaða eru í miklum ólestri. Það er ekki síst vegna þess að :
-það vantar fleira hæft fólk til að starfa að söngmálum í kirkjunni,
-það vantar betra skipulag á sumarþjónustuna m.a. vegna þess að víða eru tengsl á milli organistaþjónustu í kirkjunni og tónlistarfræðslu í skólum og tónlistarskólastjórinn á heima í fjarlægum útlöndum og dvelur auðvitað þar í sínu sumarfríi,
-söngmálin eru víða svo þungur baggi á sjóðum kirknanna að ekki er hægt að halda uppi æskilegri þjónustu af fjárhagsástæðum
Það er auðvitað engin dyggð að leita uppi flókin svör við mjög skýrum og afdráttarlausum spurningum. Það er hinsvegar engin trygging fyrir því að afdráttarlaus svör við afdráttarlausum spurningum séu til, - eða að spyrjandinn vilji heyra þau.
Það má vel vera að einhverjum finnist ég gera svarið eða svörin dálitið snúin. Ég vonast þó til að ná landi farsællega með óbrotið skip áður en lýkur.
Til þess þarf ég að fjölga spurningum, eða búa til tengi - spurningar. Hin fyrsta er þessi: Hvert er hlutverk tónlistarinnar í messunni eða helgihaldinu?Ég hef reyndar oft og iðulega svarað þessu bæði í ræði og riti, m.a. á öðrum stað[2] með eftirfarandi hætti.:
- Lýður Guðs á jörð kemur saman til þess að heyra orð Guðs. Það er eðli hans og grundvöllur. Án þess er engin kirkja. Orð Guðs kallar saman söfnuðinn, kirkjuna. Kirkjan er söfnuður einstakinga sem eru kallaðir til að vera heyrendur orðsins og gjörendur. Gjörendur orðsins eru þau sem fara út og þjóna náunganum, og boða orðið með lífi sínu og trú, en það eru einnig þau sem bregðast við orðinu á staðnum þar sem það er kunngjört, með lofgjörð og þakkargjörð og tilbeiðslu. Að syngja messu er því í vissum skilningi að vera gjörandi orðsins.
Það sem einkennir allt helgihald kirkjunnar er samtal - er orð og andsvar. Eitt af megineinkennum andsvars messunnar er að það er tónað, - þ.e. flutt fram með tóni eða með tónum - orð með tóni og tónar án orða.
Að vegsama, að ákalla, að lofa og að biðja Guð í tónum og með tónum í söfnuðinum, það er tónlist safnaðarins, og þar með grunnur kirkjutónlistarinnar.
Nú er það kunnugt að þegar margir svara í einu er besta leiðin til þess að allir svari samtímis að svarið sé sungið. Það er ein forsenda tónlistarinnar í messunni, en ekki hin eina: Söfnuðurinn tekur á móti óverðskuldaðri náð Guðs. Hann þakkar þá gjöf í sameiginlegri bæn og tilbeiðslu. Hið sameiginlega svar safnaðarins við ávarpi Guðs tekur á sig listrænt form til þess að tjá enn betur og vera enn frekar samboðin mikilvægi svarsins og dýpt tilbeiðslunnar.
Í predikun Martins Luthers um hina tíu líkþráu segir hann : "... Þetta er hin rétta guðsþjónusta: að snúa til baka og lofa Guð með hárri raustu (Lúk. 17.15). Það er hið stærsta og besta verk sem unnið verður á himni og á jörðu og það eina sem vér getum borið fram fyrir Guð. Að snúa til baka, það er: að vér berum náð og gáfur Guðs sem vér höfum þegið, aftur heim til hans. “
Í Hebreabréfinu 13.15, stendur: “Fyrir hann skulum vér því án afláts bera fram lofgjörðarfórn fyrir Guð, ávöxt vara er játa nafn hans”. Þetta kallar Otto Brodde (Musikalische Liturgik) stofnskrá tónlistarinnar í söfnuðinum. Hann bendir á að setja má “vegsama” í stað “játa”: “Svo skulum vér því alla tíð bera lofgjörðarfórnina fram fyrir Guð: það er ávöxt tungu og vara sem vegsama Guð”. -
Við komum sem sagt til kirkju og syngjum. Með vissum hætti er það kóræfing fyrir himnaríki. Allavega eru hugmyndirnar um dvölina þar, eins og henni er lýst í Opinberunarbókinni, fullar af söng. Við syngjum messu.
Það er strangt til tekið hægt að syngja messuna alla, frá upphafi til enda, meira að segja predikunina líka, sérstaklega ef hún er í bundnu máli (eins og dæmi eru til um).
Venjan er nú samt sú að lesa messuupphafið, lestrana og predikunina og almennu bænina, en syngja annað. Hinir sungnu liðir eru fyrst og fremst hinir fimm föstu liðir, miskunnarbæn, dýrðarsöngur, trúarjátning, heilagur, og lamb Guðs, með þeirri undantekningu þó að hjá okkur er trúarjátningin yfirleitt lesin. Þessir föstu liðir, sem mynda uppistöðu messunnar líkt og þegar mynd er ofin, eru sungnir með því tónlagi sem viðtekin venja safnaðarins býður, eða að sungin er messa tiltekins tónskálds.
Aðrir tónlistarliðir messunnar, eru í flestum tilfellum fimm til sjö sálmar úr sálmabók, orgelforspil og eftirspil, og ef vill tónlist undir útdeilingu og / eða sérstakt stólvers sem flutt er annaðhvort eftir lestur texta og / eða bænar á undan predikun. (Stólvers eftir predikun kemur í stað sálms eftir predikun og bætir engu við sungið ferli messunnar).
Að öllu jöfnu er flutningur tónlistar í messunni í höndum organista og kórs, forsöngvara og safnaðar, einsöngvara og einleikara, að ógleymdum prestinum. Skapast hafa ákveðnar venjur í verkaskiptingu og hlutverkaskiptingu þessara aðila.
Eiginlegir ,,staðir” tónlistarinnar í messunni aðrir en hinir föstu liðir og hinn eiginlegi tónsöngur eru þá þessir: Við messuupphaf, milli lestra, fyrir og eftir predikun, fyrir og eftir kvöldmáltíð, undir útdeilingu, og í messulok. Þetta eru náttúrulega allt saman sjálfsagðir hlutir fyrir ykkur sem á hlýðið en ég þarf að hafa þetta með vegna samhengisins. Hvað sungið er og hvernig ræðst af samhengi samkomunnar.
Messuupphafið undirstrikar stefnumót manns og Guðs. Söfnuðurinn gengur til fundar við hinn upprisna Drottinn sem kemur á móti honum og mætir honum í ferli kristinnar guðsþjónustu. Sjálfur Jesús Kristur kemur til þessa stefnumóts. Hefðbundið orgelforspil getur undirbúið þetta stefnumót og undirstrikað það, en er þó hvorki sjálfsagður né nauðsynlegur þáttur í því. Það getur reyndar haft þveröfug áhrif. Organistinn ,,gefur tóninn”, í bókstaflegum skilningi með orgelforspili sínu. ,,Vald” organistans til þess að hafa áhrif á umrætt stefnumót er mjög mikið og reyndar meira en mörgum organistanum virðist vera ljóst. Oft fer hann vel með þetta vald, vitandi eða óvitandi, en orgelforspil sem er valið að geðþótta eða eftir hugarástandi organistans, eða ef til vill af vanhæfni hans getur leitt til þess að glaður kirkjugestur, fullur þakklætis til Drottins, sem er kominn til kirkju til að fagna hinum lifandi og upprisna Drottni sé óvart eða viljandi leiddur inn í dapra sorgarathöfn eða síðustu jarðarför ef miða á við boðskapinn sem heyrist syngja í orgelinu.
Þegar orgelforspili og messuupphafi lýkur er sunginn inngöngusálmur úr sálmabók eða úr ritningunni, með þeim hætti sem organistinn eða forsöngvarinn (kantórinn) hefur í samvinnu við prestinn undirbúið. Afar nauðsynlegt er að organistinn geri sér góða grein fyrir því hvaða tilgangi forspil hans og hljóðfærisins í upphafi messu á að þjóna í samhengi framvindu messunnar.
Staðurinn milli lestra lexíu (úr Gamla Testamentinu) og pistils (úr bréfum Nýja testamentisins, Postulasögunni eða Opinberunarbókinni) er eðlilegur staður fyrir það sem áður hét Gradúale, eða söngur í tröppunum. Þetta er góður staður fyrir æfðan söng einsöngvara, liturgísks kórs og eða hljóðfæraleikara.
Hér má auðvitað rekja ekki lengra, - en að þessu sinni verður það ekki gert. Hér mætti tala um stólvers – sem er kapítuli út af fyrir sig, en látið nægja að nefna tónlistina við kvöldmáltíðina sem hefur það hlutverk að þjóna boðskap kvöldmáltíðarinnar - fagn-aðarerindinu um Jesú Krist og nærveru hans í þessum leyndardómi.
Aldrei verður of oft undirstrikað að þessi hluti messunnar er helgasti leyndardómur hennar.
Nokkuð ber á því að leikin sé undir útdeilingu tónlist af aðskiljanlegum uppruna, - jafnvel fullkomlega veraldleg dansmússík fyrir ýmiss hljóðfæri. Vissulega er verið að bera fram máltíð Drottins – en þetta er auðvitað ekki þar með staður fyrir dinner-músík. Það er óhæfa. Tónlist á þessum stað er ekki til að fylla í eyður, ekki til að skapa stemmingu eða til að skemmta þeim sem ekki fara til altaris meðan hinir ganga innar. Best er því að syngja á þessum stað sálma sem sérstaklega eru ætlaðir til söngs við altarisgöngu eins og sálminn ,,Jesús Kristur lífsins ljómi”, (Sb 237) og aðra þá sálma sem getið er í leiðbeiningum í Sálmabókinni (bls. 851-855).
Þegar útdeilingu er lokið þá má sleppa sálmi eftir bergingu, en ef sunginn er sálmur er æskilegast að það sé með þeim hætti að söfnuðurinn geti allur tekið undir. Hið sama gildir um lokasálm messunnar. Hann er í eðli sínu sameiginleg lofgjörð alls safnaðarins.
Messunni lýkur samkvæmt hefð á eftirspili. Organistanum er þá nauðsynlegt að hafa tvennt í huga. Annað er spurningin: Eftirspil við hvað? Hitt er sú staðreynd að guðsþjónustan, hvort sem hún er messa eða ekki, hún endar í rauninni alls ekki. Hún er eilíf þjónusta Guðs og manns, en breytist við kirkjudyr í þjónustuna við náungann og við heiminn og finnur þessvegna aftur til kirkju næst þegar klukkan kallar.
Hér hefur verið gengið út frá því að tónsöngur hinna föstu liða sé sunginn samkvæmt venju safnaðarins. Þegar kostur er á er þó sjálfsagt að flytja þessa þætti í þeim búningi sem tónskáld hafa búið þeim. Messur meistaranna eru líka messusöngur.
Það er eðli safnaðarins að koma saman í nafni Jesú Krists. Það að söfnuður kemur saman í nafni Jesú Krists, það er guðsþjónusta. Þegar kvölmáltíðarsakramenntið er borið fram á þessari samkomu, þá er messa. Það mætti því segja sem svo að hlutverk safnaðarins sé að vera kirkjan, sem heyrir orð Guðs og lofar Guð og ákallar hann. Guð er Guð reglunnar, sá sem kemur reglu á óregluna. Guðsþjónustan er reglubundin þjónusta. Til þess að samkoman fari skipulega fram og samkvæmt settri reglu, þá skiptir söfnuðurinn með sér verkum og felur sérstök verkefni og embætti ákveðnum einstaklingum, sem leiða helgihaldið og stjórna því og annast einstaka liði í umboði safnaðarins. Þar er fyrst að nefna prestinn, síðan forsöngvarann, meðhjálparann og djáknann, kórinn og hljóðfæraleikarana og fleiri og fleiri ef þarf.
Með öðrum orðum: Til þess að orð Guðs sé kunngjört og útlagt í söfnuðinum og að sakramentin séu framborin er stofnsett predikunarembætti. Að svara orðinu í lofgjörð og söng og bænargjörð er embætti safnaðarins. Til þess að leiða söfnuðinn þegar hann svarar er stofnsett forsöngvaraembætti: Embætti kirkjutónlistarinnar. Þetta embætti kemur reglu á þjónustu safnaðarins þegar hann ákallar og vegsamar Guð í tónum og með tónum. Sá, eða sú sem hefur þetta embætti á hendi stýrir því sem söfnuðurinn sjálfur getur annast, en til sérstakra verkefna kallar söfnuðurinn einstaklinga til starfa: kórsöngvara, einsöngvara, orgelleikara og aðra hljóðfæraleikara. Þar hefur hver sitt sérsvið sem þó geta skarast. Kórinn getur annast hlutverk forsöngvara í söfnuðinum auk sérstakra kórverkefna, einsöngvarinn getur bæði verið forsöngvari og leitt hina sungnu bæn, og einleikarinn og aðrir hljóðfæraleikarar geta ásamt orgelinu annast hina orð-lausu tilbeiðslu, auk þess að styðja orð-bundna tilbeiðslu safnaðarins.
Þannig gerist tónlistin í messunni í söfnuðinum, en aldrei nema að litlum hluta fyrir söfnuðinn. Helgihald sem er verk fárra listamanna getur orðið að uppfærslu þeirra einna og er ævinlega ófullkomið og falskt. Hinn hreini tónn helgihaldsins er í eðli sínu óhreinn af því að hann er fluttur með óhreinum vörum syndaranna. Guð einn getur stillt þann hljóm í kærleika sínum, sem réttlætir syndaranna. Þá tónlist heyra þau, flytja þau, semja þau sem snortin eru af elsku Guðs. Og það er kirkjutónlist.
III.
Hér skal nú fara nokkrum orðum um það hver kirkjan er og hvernig lífi (guðsþjónustulífi) hún lifir. Ég byrja á tveim tilvitnunum. Önnur er tilvitnun í bænabókina i sálmabókinni, líkast til eru þetta orð Sigurbjarnar biskups, hin er tilvitnun í Dagblaðið mánudaginn 13.nóv. 00. Báðar fjalla um sunnudaginn:
Drottinn. þú hefur gefið mér þennan dag að ég megi fagna og gleðjast í þér, Guð hjálpræðis míns. Þú hefur helgað hann, að ég megi hvílast frá störfum mínum, endurnæra anda minn og helgast í orði þínu. Hjálpa mér til þess að halda hann heilagan.
Tilvitnun líkur – næsta byrjar:
Sunnudagar hafa mér alltaf þótt leiðinlegir dagar. Þá er eins og einhver drungi taki sér bólfestu í sálinni og göfugar hugsanir láta mann öldungis í friði. Sunnudagar eru dagar svefnrofans, (sennilega á hér að standa svefndrungans) móksins og doðans.
(Þórunn Hrefna Sigurjónsdóttir í Dagblaðinu 13.11.00).
Ég hef á öðrum stað [3] fjallað um kirkjuna sem aðferð þeirra sem játa trú á Jesú Krist til þess að lifa. Ég ætla að leyfa mér að rifja upp hluta af því sem þar er sagt:
Kirkjan, stofnuð og leidd af Jesú Kristi, er lífsform þeirra sem honum tilheyra. Hún er aðferð þeirra við að lifa. Lífsformið sem er kirkja, getur vel heitið "guðsþjónustulíf",
Þar sem þessu lífi er lifað, þar er kirkjan. Þar sem þessu lífi er lifað þar er kirkjan öll, hvar sem er á jörðu og á himni, óháð fjölda þeirra sem sitja á kirkjubekkjum hverju sinni, með því að nærvera hennar á einum stað er ávalt tengd henni allri. Kirkjan er líkami Krists á jörðu.
Kirkjan lifir, af því að Drottinn Jesús Kristur lifir. Kirkjan sem við tilheyrum er kirkja hans og lifir - ekki af því að hún er ,,þjóðkirkja á Íslandi og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda”[4] - heldur af því að Drottinn hennar kallar hana saman og gefur henni líf. Guðsþjónustulíf.
Þetta líf og þessi þjónusta rúmast ekki innan þeirrar merkingar orðisins guðsþjónusta, sem venjulegast er notuð á íslenskri tungu. Á bak við orðið guðsþjónusta felast þrjú hugtök: marturia, liturgia og diakonia. Þessi hugtök má þýða svo: marturía er boðunarþjónusta, liturgia er helgiþjónusta og diakonía er safnaðarþjónusta. Tengsl þessara þriggja systra eru hinsvegar svo náin að skilin milli þeirra hverfa á tíðum algjörlega. Það er jú boðunarþjónusta einnig að sinna líknarþjónustu í söfnuðinum, jafnvel þótt þar falli ekkert "boðandi" orð, og djákninn sem leiðir safnaðarþjónustuna á líka sitt sæti í helgiþjónustunni, - ekki sem liturg heldur diakon, o.s.frv.
Aðeins með útskýringu fær þjónustan sem við er átt yfirbragð og lit. Eða hver veit eftir íslenskunni hvað átt er við í Hebreabréfinu 1.14, þar sem stendur um þjónustu englanna: "Eru þeir ekki allir þjónustubundnir andar, útsendir í þeirra þarfir sem hjálpræðið eiga að erfa",nema það sjáist að bak við stendur "leitourgika pnevmata eis diakonein..." þ.e. þau sem sinna hinni liturgisku þjónustu eru send til hinnar diakonisku þjónustu ...
Þennan þrefalda grunn guðsþjónustunnar þurfum við að hafa í huga áður en lengra er haldið, - í fyrsta lagi.
Í öðru lagi þurfum við að hafa í huga að þegar við segjum, oft með nokkru stolti við útlendinga að um 90 % hinnar íslensku þjóðar tilheyri þjóðkirkjunni, þ.e. næstum allir, kirkjusókn yfir árið sé hinsvegar innan við 10 % - ef til vill innan við 5% , og liðug 90 % sæki þessvegna ekki kirkju, - tölfræðilega séð, verður það sem áður hét - næstum allir - ekki að stærra hugtaki en - næstum enginn -.
Þetta er óskaplega óþægileg staðreynd, ekki síst í því samhengi sem við erum hér. Eina huggunin er - að það er auðvitað ekkert að marka svona tölur. Þó að hin trúföstu í hópi kirkjugöngufólks séu þekkt stærð, þá er það jú auðvitað ekki alltaf sama fólkið sem mætir, og inni í þessum tölum eru ekki þau sem mæta við fjölsóttustu guðsþjónustur kirkjunnar, nefnilega jarðarfarirnar.
Þessvegna er svo sem hægt að segja í spaugi við þau sem kvarta undan þunglamalegum jarðarfararsálmum sem einkenni messuna:
- Ég veit ekki hvað þú ert að kvarta- samkvæmt markaðskönnun kemur einmitt í ljós að þær samkomur eru eftirsóttastar þar sem einmitt jarðarfararsálmar eru sungnir.-
IV.
Grundvöll guðsþjónustulífs þeirrar kirkju sem nú er þjóðkirkja Íslands er að finna í kirkjuorðunni frá 1537, samþykktri hér í Skálholtsbiskupsdæmi 1541. Þar segir svo í þeirri þýðingu sem eignuð er Gizuri biskupi:
"Engin helgihöld meðtökum vér, sem áður er sagt nema venjulega drottinsdaga , að fólkið hvílist af sínu erfiði einu sinni í viku, heyri Guðs orð, meðtaki sakramentum og almennilega hver með öðrum biðji fyrir öllum nauðsynlegum hlutum og gjöri þakkir Guði, fyrir sínar velgjörðir".[5]
Við þennan grundvöll guðsþjónustulífs þjóðkirkjunnar hefur síðan engu verið bætt, enda þarf þess ekki meðan andleg og veraldleg yfirvöld þessarar kirkju muna þessi orð, eða vita hvar þau standa og kunna að lesa þau.
Það hafa að vísu verið lög í þessu landi sem gerðu guðsþjónustuhald skyldugt á kirkjunum eftir vissum reglum, til þess að gefa söfnuðunum kost á að sækja kirkju.
Lög eru hinsvegar engin um skylduga þátttöku safnaðanna í því helgihaldi sem fram fer á kirkjunum.
Allar aðrar reglur um helgihald hins kristna safnaðar innan þjóðkirkju Íslands er að finna í helgisiðabókum hennar og varða fyrst og fremst aðferð og uppsetningu þess. (ritualið). Þetta er ekkert sérislenskt atriði. Jafnvel í nýjum bókum, erlendum, má lesa útlistun á uppsetningu handverksins, þ.e. ritualsins slitið fullkomlega úr tengslum við "liturgíuna" í heild sinni og aðra þætti hins sama máls, nefnilega "marturíuna" og "diakoníuna".
Hættan sem í þessu er fólgin er sú að menn einblíni um of á ritualið eitt og uppgötvi það, sem öllum má augljóst vera, að í því, einu og einstöku, er ekkert hjálpræði fólgið, og hafna því þessvegna og koma þar með í veg fyrir að það geti verið sá farvegur hjálpræðisins sem því var ætlað að vera.
Eins og nú hefur verið ítrekað bent á, verður ekki skilið á milli tilvistar kirkjunnar og guðsþjónustu hennar. Sé nokkursstaðar til kristinn söfnuður, þá kemur hann saman til guðsþjónustu, samanber 7. grein Augsborgarjátningarinnar.
Það er svo aftur augljóst hverjum þeim sem vill, að þessi fullyrðing stendur í nokkuð hróplegu ósamræmi við ríkjandi ástand innan kirkjunnar á Íslandi, og ekki aðeins þar heldur hvar sem er á vesturlöndum. Söfnuðurinn er til, en liðug 90 % hans sækja að öllu jöfnu ekki guðsþjónustur.
Þrátt fyrir það telur stærstur hluti hans sig vera kristinn á sinn eigin persónulega hátt og lifa kristnu lífi, sem reyndar komi ekki öðrum við, ekki heldur öðrum kristnum mönnum. Persónulegt lifandi samband við Guð sé einstakligsbundið og ekki samfélagsleg athöfn.
Hér skal engri af þessum fullyrðingum mótmælt beinlínis, - við leyfum þeim öllum að standa eins og þær eru, einnig þótt við kunnum að vera á annarri skoðun.
Það sækja ekki margir kirkju á Íslandi, ef miðað er við tölu þeirra sem gætu sótt hana, og ættu að gera það sér og öðrum til trúarstyrkingar.
Þetta, að ekki sækja margir kirkju, er nánast það eina sem við vitum um kirkjusókn á Íslandi. En að auki vitum við að hér er ekki um neitt séríslenskt fyrirbæri að ræða, og ekki er það heldur bundið við hina evangelisk-lúthersku kirkjudeild.
Ég er ekki frá því að ástæður þjóðkirkjufólks á Íslandi fyrir því að sækja ekki kirkju, geti verið nokkuð svipaðar og þær sem fólk í systurkirkjunum ber á borð, enda þótt guðsþjónustutíminn sé að venju nokkru síðar hér en þar. Hitt er svo annað mál, að þótt vissulega væri gagnlegt og eftirsóknarvert að kunna skil á þessum ástæðum, er ekki þar með sagt að með þeim hætti væri hægt að ná sambandi við þennan hluta safnaðarins.
Ég efa það stórlega að við getum í því samhengi skellt skuldinni á tónlistarvalið eitt.
Sú þversögn er hinsvegar mjög áleitin, að kannski vænti sá hluti kirkjunnar, sem ekki sækir guðsþjónustur hennar, þrátt fyrir allt mikils af kirkjulegri leiðsögn þeirra sem valin eru til að leiða hana, og að kannski sé það sá hluti sem bíður sérstaklega eftir messuboði. Við kunnum bara ekki að biðja um að læra að orða það boð.
V.
Fyrir 30 árum þingaði Heimsráð kirkna í Uppsala.
Þetta þing ályktaði m.a um guðsþjónustuna. Miðjuorð þeirrar ályktunar er kreppa. Það er sagt að kreppuástand ríki varðandi guðsþjónustuna, en að baki því sé útbreidd kreppa trúarinnar. Með öðrum orðum, kreppa guðsþjónustunnar sé ekki fyrst og fremst kreppuástand í Guðs-skilningnum og Guðs- dýrkuninni, heldur í traustinu á hina starfandi nálægð Guðs yfirleitt.
Í kjölfar þessarar ályktanar voru gerðar frekari kannanir og skrifaðar bækur, sem hér skulu ekki tilgreindar.
Ef marka má ýmsar skýrslur sem gerðar hafa verið á þessu 30 ára bili er þetta krepputímabil ekki liðið enn.
Samkvæmt könnunum sem gerðar hafa verið síðan má oft sjá þá niðurstöðu að guðsþjónustan sé talin óþörf og fjarlæg lífinu og daglegu brauðstriti. Með vissum hætti má einnig draga þessa ályktun af þeirri könnun sem prófessorarnir Pétur Pétursson og Björn Björnsson gerðu fyrir fáeinum árum.
Þetta er engin sérskoðun þeirra sem eru utan kirkju heldur var þetta einnig svar frá stórum hópi kristinna manna.
Í gamalli könnun þýskri kemur fram, að hin aðspurðu telji samt að það vanti stað og stund og samfund (samfélag) til að – eins og þau segja- hverfa til með dagleg vandamál sín, án þess að sá samfundur verði við það hversdagslegur, - þar sem tekið er á móti manni og við manni eins og maður er, og samt sé manni treyst til að verða betri en maður er, - og þar sem maður getur látið í ljós gleði sína og hamingju án aðhláturs eða spotts, þar sem maður fær hjálp til að lifa góða daga og vonda sem er líka hjálp til að deyja-.
Þetta er góð lexía. Það má jafnvel nefna dæmi um helgihald hérlendis þar sem þetta er reynt.
Lesa má um hliðstæð viðbrögð í textum frá heimsráði kirkna í Genf. Þar er líka talað um að sumir aðspurðir séu ánægðir með guðsþjónustuformið, enda hafi það verið óbreytt um aldir, meðan aðrir standa hjálparvana gagnvart því og finna í því enga hjálp.
Og spurningin: "Hversvegna þurfum við yfirleitt guðsþjónustu ?"., er sífellt að stinga upp kollinum. Við lesum um liturgiska endurnýjun á vesturlöndum, sem hófst á síðustu öld og hélt áfram á þessari og náði vissu hámarki eftir síðasta stríð, og var að miklu leyti lituð af reynslu þess tíma. Ávöxt hennar er að finna í niðurstöðum Vatikan II þingsins og í fjölmörgum handbókum mótmælendakirknanna, meðal annars í okkar eigin Handbók frá 1981.
En meira að segja áður en öll þessi afkvæmi í formi handbóka voru fædd var komin fram óánægja með þessa gerð hinnar liturgisku endurnýjunar. Og þeim röddum fjölgaði sem vildu ekki endurvakin liturgisk form 16. aldar, sem meira að segja seildust allt aftur til tímabils 3. til 6. aldar, heldur ný form, mótuð af samtímanum og fyrir samtímann. Þessar óskir voru hljóðlátar á Íslandi, - helst gætti þeirra og gætir í óskum um nýja tónlist í guðsþjónustunni. En á sama tíma varð vart vaxandi einangrunar guðsþjónustunnar í lífi safnaðarins. Þær breytingar sem gerðar voru, ekki síður meðal rómversku kirkjunnar, -sem var í öllum atriðum róttækari en meðal mótmælenda -, sýndust í það minnsta ekki tefja fjöldann sem streymdi í burtu frá guðsþjónustunni.
Sú þróun sem byrjaði á nítjándu öldinni, þegar iðnaðarverkamenn hættu fyrstir að sækja kirkju og hinn almenni borgarbúi bættist svo við, hélt áfram hraðar og hraðar, - háskólamenntaðir hættu að koma, síðar unglingar og ungt fólk, karlkyns bændur , karlar í þorpum og konur í borgum, og nú er eini hópurinn sem helst nokkuð stöðugur, - þau sem eru yfir sextugt. Ég tek fram að þetta er byggt á almennum upplýsingum lúthersku kirkjunnar og ekki tengt Íslandi neitt frekar. Ég tek líka fram, að þessi óbifanlegi hópur liðlega sextugra er samsettur af fólki sem eitt sinn var ekki aðeins ungt, heldur líka í vissu hlutfalli iðnaðarmenn og háskólafólk.
Gagnrýni guðfræðinga á þessa guðsþjónustu sem ekki var sótt varð háværari. Peter Cornehl próf. fyrir prakt. guðfræði í Hamburg gagnrýndi á sínum tíma Handbók Luthersku kirkjunnar þannig: "Þetta er skjalfesting hræðslunnar við almennt og opinbert umhverfi, krampakend tilraun til að halda lífinu í kristilegri sér-veröld, með kristilegu sér-tungumáli og kristilegu sér- rituali." [6] Það eru þrjátíu ár síðan hann skrifaði þetta.
Albrecht Peters í Heidelberg samsinnti þessu á sínum tíma,[7] en benti á, að við skyldum ekki aðeins vekja athygli á því að samfélagið - hið óskilgreinda samfélag - hafi yfirgefið guðsþjónustuna, heldur einnig við sjálf sem hluti þess.
Við lifum dag frá degi án Guðs, án raunverulegs sambands við hann. Orðið "guðsþjónusta" táknar í hugum okkar þessa einu klukkustund á viku, - enn á tíma sem minnir á gegningar og þarfir sauðfés og nautpenings, en ekki endilega þarfir safnaðarins - eða þá að við höfum einhversstaðar lært að allt líf kristins manns eigi að vera guðsþjónusta.
Það sem tengir daglegt líf við þessa einangruðu stund sunnudagsins er týnt. Albrecht Peters spyr: ,,Hvaða þýðingu ætti svosem kirkjan að hafa í lífi okkar ef við nálgumst hana aldrei alla vikuna?Hvernig getum við verið undirbúin til að hlýða á ritningarlesturinn í guðsþjónustunni, ef við opnum aldrei Biblíuna sjálf? .[8]
Og : Hvernig eigum vér að syngja söngva Drottins í ókunnu landi? Hvernig getum við ætlast til þess að fólk sem aldrei hefur hlustað á annað en síbyljuna heyri sálminn í kirkjunni og taki undir hann. ?
Svar: Með því að treysta á verk heilags anda.
Almenna kirkjubænin innifelur allan heiminn, alla kristnina og eigin söfnuð, allar þjóðir og ríki, hverja manneskju hvert svo sem starf hennar er, hver sem neyð hennar er, hver sem gleði hennar er. En hún verður að bókstöfunum einum nema söfnuðurinn læri að stafa í henni alla hina dagana. Og sálmurinn í kirkjunni fær upphafinn og framandi tón nema hann sé blístraður í vinnunni.
Og skyldi ekki leiðin að borði Guðs verða að krákustíg sem enginn ratar ef allir hætta að þakka fyrir gjafir Drottins sem hann ber þeim á borð í hverri máltíð. Ein klukkustund í viku hverri getur ekki innifalið allt það sem vanrækt var hinar stundirnar 167 í viku hverri.
VI
Það er greinileg gjá á milli guðsþjónustunnar og hins daglega lífs. Yfir þessa gjá finna 90 % hinna skírðu enga brú. Enda er óvíst hvort við höfum reist hana.
Svo lengi sem gjáin er óbrúuð er ekkert guðsþjónustulíf.
Það er ekki útilokað að könnun myndi leiða í ljós að hluti þeirra sem sækja kirkju finnist að þau, sem persónur þessara daga, eigi ekki heima í guðsþjónustunni. Þau bera virðingu fyrir því sem þar fer fram og þykir vænt um það, en eiga samt í erfiðleikum með að taka undir. Sitt eigið líf, sín eigin vandamál finna þau ekki eða sjaldan í sálmum, bænum og formi guðsþjónustunnar, jafnvel ekki heldur í predikuninni.
Öll þessi skrautlega fjölbreytni lífsins og spurningar þess um frið á milli manna og þjóða, þróunarhjálp, vísindi og rannsóknir, geimferðir og stríð, hungur og menntunarskort, umhverfisrannsóknir og mengun, þjóðhagsspár og gengi, kynferðismál og fjölskyldustærð, taugaveiklun, krabbamein og eyðni, umferðarmál og umferðarslys, kvennaathvarf, Kyotobókun, VSÍ og ASÍ laun og launamisrétti, elli og hrörnun, fóstureyðingar, kynslóðabilið, kennaraverkföll og fleira og fleira, - er ekki orðað í guðsþjónustunni, að áliti margra þeirra. – og það eru engir sálmar um það – segja þau.
Væri þetta rétt, yrði með þessu móti veröldin innan kirkjuveggjana, þeirri sem við lifum í framandi, og jafnvel einskonar and- veröld.
Hin afmarkaða guðsþjónusta safnaðarins á vissum stað og vissri stundu, er á jörðu. Allt sem er á jörðu á þar heima sem hlutdeild í tilbeiðslunni. Allt sem er, lýtur Drottni: "Kristur, miskunna þú oss". Í því einu felst aðgreiningin milli þess sem er "útifyrir" og "innifyrir" í hinum eina heimi sem Jesús Kristur hefur þegar sigrað.
Þegar fámenni í kirkjugöngum hefur verið skýrt með því að heimarnir séu tveir, innan kirkju og utan, (gjarna með einföldunarorðunum leiðinlegt og skemmtilegt), hefur oft verið reynt að samræma heimana tvo.
Tilraunir til að samræmingar af því tagi hafa oftast reynst gagnslausar, ef ekki beinlínis skaðlegar. Tilraunir til að höfða til safnaðarins með einhverju því sem hægt er að njóta á mun fullkomnari hátt annarsstaðar en í kirkju hafa jafnvel orðið aðhlátursefni þeirra sem höfða átti til.
Messan getur verið listaverk, og það er hægt að færa hana upp til ánægju fyrir gesti sem koma til að dást að minnismerki um horfið tímabil menningarsögunnar. En slík messa er ekki endilega safnaðarguðsþjónusta. Flestar tilraunir til slíkrar uppfærslu eru bara kjánalegar, - undir öðrum kringumstæðum er hægt að heyra vandaðari tónlistarflutning og janvel andríkari ræðumenn. Það er næsta vonlítið að uppfærsluformið megni að kalla nokkurn til trúar fyrir eigin ágæti flytjenda. Í venjulegri sóknarkirkju er enginn sá er að henni starfar fær um uppfærslu af því tagi, við erum of góðu vön annarsstaðar frá. Hinvegar fjölgar þeim sem telja að meginhlutverk samkomuhalds í kirkjum sé einmitt að bjóða vandaða tónleika og sleppa ,,öllu kjaftæði”.
Guðsþjónusta safnaðarins er ekki minnismerki um fyrri tíma stórkirkju. Þó er í hverri guðsþjónustu saga hennar virk eins og saga kristninnar. En hún gerist "hér og nú",og byggir á lifandi þátttöku safnaðarins sem beygir sig og vill láta uppbyggjast frammi fyrir hinum lifandi Drottni.
Kirkjan er á hreyfingu. Henni er safnað saman (til guðsþjónustu) og hún er send út (til safnaðarþjónustu). Einn lítill hluti hinnar einu kirkju Krists á jörðu er þjóðkirkja Íslands, þar sem einungis fáir sækja sameiginlegar guðsþjónustur safnaðarins.
Tilvist guðsþjónustunnar, þegar hún er samfundur aðeins örfárra úr hópi safnaðarmanna, dregur upp mynd af hreyfingarlausri (statiskri) kirkju sem annaðhvort er föst í heiminum og finnur ekki leiðina til uppruna síns, eða hún er föst við uppruna sinn en vogar sér ekki með fagnaðarerindið inn í heiminn.
Hreyfingarlaus kirkja er í fjötrum. Þeir fjötrar benda til innra máttleysis, en segja ekkert um hin ytri skilyrði.
Guðsþjónustan er samfélag kristninnar á himni og jörðu við Krist Jesúm og guðsþjónustulífið er ávöxtur þess. Ytri skilyrði og kringumstæður kirkjunnar á hverjum stað megna, sem betur fer, ekki að breyta þar neinu um, né heldur sálmavalið.
VII.
Var þá svarið að reyna að greina vandann og gera svo ekki neitt. Nei.
Það er margt fólk sem segir að kirkjan sé nátttröll sem syngi bara sínar nátttröllsvísur og enginn nenni þessvegna á samkomur hennar.
Það er til starfsfólk í kirkjunni sem telur að til þess að ná til fleiri en þegar er gert þurfi að nota ný meðöl, ekki síst aðra tónlist.
Við eigum að hlusta á þessar raddir og bregðast við þeim. Ekki með því að hleypa upp í loft því sem þegar er vel gert og hefur sýnt sig aðvera mikilsvirði fyrir stóran – stærstan hóp þeirra sem þegar sækja kirkja. En við þurfum í auknum mæli að skapa nýar tegundir samfunda fyrir þau sem við annars náum ekki til,- en það eitt að leyfa þeim að hlusta á eða syngja skemmtileg lög, það er ekki nóg. Forsendan er trúboð og iðkun trúarinnar. Það er þar sem skilur á milli þess samkomuhalds sem kirkjan stendur fyrir og aðrir.
Hið sama gildir um annað samkomuhald en messuna. Hjónavígslur og útfarir kirkjunnar eru ekki skemmtisamkomur, eða óskalagaþættir. Kjarni þeirra er hin kristna forsenda hjúskaparstofnunar í kirkju (hitt er jú boragaralegt) eða hin kristna von um upprisu og eilíft líf. Það sem við syngjum og leikum þjónar þessu. Það sem stríðir gegn þessum kjarna á þar ekki heima.
Kirkjan kemur saman og syngur. Ef hún hefur ekki efni á því að ráða organista þá velur hún sér forsöngvara, og ef hún getur ekki borgað honum heldur þá syngur hún bara með sínu nefi eða alls ekki - en hún hættir ekki að koma seman. Hún getur það ekki. Ekki meðan hún enn er kirkja.
Í vikunni eftir kristniboðsdaginn er ekki hægt að enda þetta langa mál öðru vísi en með því að lesa upphafið á sálminum nr. 305. O, Drottinn, ég vil aðeins eitt. Að efla ríki þitt.
Og það þýðir? Að halda fast við það sem við höfum fengið í arf vegna þess að það gefur grunninn. En hver sá sem stendur á góðum grunni getur leyft sér að halla sér til ýmissa átta, og hlusta og læra og mæta þeim sem leita Krists á tungu þeirra, á tungu hans.
Og spurningarnar í upphafi:
Hver er staðan? Hvernig er ástand kirkjusöngs nú? Hver eru megin vandamálin? Hver er rót þeirra og forsenda? Hverjar eru lausnirnar? Hver er framtíðarsýnin?
Staðan er sú að fyrir tveim árum kom sálmabókin út í bráðabirgðaendurskoðun með mörgum nýjum sálmum, sem eru gjarna sungnir. Í haust kom út ný Barnasálmabók sömuleiðis með mörgum nýjum sálmum. Í haust kom einnig út ný fjögra radda kóralbók með aðventu og jólalögum.
Ástand kirkjusöngs er þetta: Meginstefnan er :
- að gera söfnuðinn að lifandi þátttakendum í söngnum
- að gera stuðning fagfólks við helgihaldið eins vel úr garði og mögulegt er.
Sumsstaðar gengur betur en annarsstaðar að fá söfnuðinn til að syngja með. Það gengur best þar sem hann er sérstaklega hvattur til þess. Það virkar. Það virkar bæði í messunni og við athafnir eins og jarðarfarir. Þetta ýtir ekki kórastarfinu til hliðar, síður en svo það gerir einmitt enn meiri kröfur til þess, bæði til almenns forsöngs og sérstaklega æfðra verka til upplyftingar hugans.
Ég kem ekki til kirkju vegna þess að það er svo leiðinlegt þar. Sérstaklega er tónlistin leiðinleg og þunglamaleg og jarðarfararleg.
– Er þessi forsenda staðreynd. Ef hún er sönn, hvað gerum við þá?
Ég fullyrði að þau kvarti mest sem sjaldnast koma til kirkju. Auðvitað höfum við miklar skyldur við þau. Við skulum þá líka beina þeim þangað þar sem boðið er upp á ýmisskonar frávik frá megin stefnunni, t.d. þar sem eru Taize stundir, Tómasarmessur, æðruleysismessur, jazzmessur , þjóðlagamessur, dægurlagamessur og poppmessur og sjá hvort það dugar. Ef ekki, þá er vandinn augljóslega annar en tónlistarlegur. En það er rangt að við höfum engin úrræði.
Hinsvegar eigum við að hlusta vandlega á þau sem tilheyra hinum trúfasta hóp ef þau gera athugasemdir og setja spurningarmerki, vegna þess að við erum öll á hreyfingu, líka í tónlistarlegu tilliti. En við viljum engar kollsteypur eða byltingar, þær éta börnin sín og skemmta skrattanum mest. Í þessu felst líka stefnumörkun.
Söngvar úr sálmabók og söngarfi kirkjunnar eru á hröðu undanhaldi í athöfnum kirkjunnar, einkum hjónavígslu og útför.
Er þetta rétt ? Já, - eiginlega - ekki kanski á hröðu, - en á undanhaldi.
Er þetta bara eðileg þróun eða er þetta eitthvað sem kirkjan vill sporna gegn ?
Það er eðlileg þróun að því leyti að sífellt fækkar þeim sem þekkja hinn kirkjulega söngarf, eða finna sig í honum. Þeirra athafnir afhelgast. Þær munu væntanlega um síðir hverfa alveg frá kirkjunni. Kirkjan spyrnir við fótum á grundvelli trúarinnar og á grundvelli þess kjarna sem hún sér í þessum athöfnum. Tónlistin á að þjóna honum og vera honum samboðin og staðnum þar sem hún er flutt.
Er samhengi á milli vaxandi kostnaðar við athafnir þessar og fjarlægðarinnar frá starfi safnaðarins og hinu opinbera lífi kirkjunnar að öðru leyti. Já, - samanber svarið á undan. Er kannski bara verið að kaupa einn pakka með brúðkaupi og annan með jarðarför.?
Ef svarið er já, - er það ekki einmitt það sem er til sölu? Jú.
Á það að vera þannig?
Nei.
[1] Greinar sem birst hafa um sama efni eða skyld efni frá minni hendi eru þessar: Bis orat qui cantat. Kirkjuritið 48.árg. 4.h. 1982, 323-328. Sálmur. Svar manns við ávarpi Guðs. Kirkjuritið 52.árg. 1986. 63 – 68. Sálmar og sálmaþörf kirkjunnar. Studia Theologica Islandia 2 / Ritröð guðfræðistofnunar/ 1988, 97-106.Hvað mun syngja englaraustin blíða? Kirkjuritið 58.árg. 1.h. 1992, 16-22 Saltarinn og helgihaldið, Studia Theologica Islandia 14/ Ritröð guðfræðistofnunar / 2000.
[2] Kirkjuritið 58.árg. 1.h. 1992, 16-22
[3] Kirkjuritið 55.árg. (1989) 3.-4. h. 27-35
[4] Sjá Stjórnarskrá Íslands, 63.gr.
[5] Íslenskt fornbréfasafn 10.bindi bls. 137.
[6] Peter Cornehl: "Öffentlicher Gottesdienst", í "Gottesdienst und Öffentlichkeit", Zur Theorie und Didaktik neuer Kommunikation, (Konkretionen Bd.VIII), Hamburg 1970,.178
[7] Albrecht Peters:"Krise des Gottesdienstes - Krise des Gottesglaubens", í "Rechenschaft des Glaubens", Aufsätze, Göttingen 1984. 180 - 208.
[8] Sjá nánar A.Peters, sama rit, 186.