Kristján Valur Ingólfsson, er fæddur á Grenivík við Eyjafjörð í Laufásprestakalli 28. október 1947. Skírður í Grenivíkurkirkju á Trinitatissunnudegi 23. maí 1948 af séra Þorvarði Þormar sóknarpresti í Laufási. Fermdur í Grenivíkurkirkju af sr. Sigurði Hauki Guðjónssyni sóknarpresti á Hálsi í Fnjóskadal á sjómannadaginn 2. sd. eftir þrenningarhátíð 4.júní 1961.
Í Barnaskólanum á Grenivík 1957-1961. Nam í heimaskóla sr. Sigurðar Guðmundssonar sóknarprests á Grenjaðarstað námsefni fyrsta bekkjar gagnfræðaskóla 1961- 1962. Nemandi í Heraðsskólanum að Laugum í Reykjadal 1962-1964. Landspróf 1964. Nemandi í Menntaskólanum að Laugarvatni 1964-1968 Stúdent frá Menntaskólanum að Laugarvatni 1968. Nám við Guðfræðdeild Háskóla Íslands 1968-1974. Cand.theol 28. september 1974. Framhaldsnám í praktískri guðfræði við Ruprecht-Karls-Universität Heidelberg 1978–1985 með aðaláherslu á lítúrgíu og díakoníu, undir leiðsögn prófessoranna dr.Paul Philippi (praktísk guðfræði) og dr. Albrecht Peters (systematísk guðfræði) og aftur 1997 undir leiðsögn próf. dr. Adolf Martin Ritter (historísk guðfræði).
Vígður til prestsþjónustu í Raufarhafnarprestakalli í Dómkirkjunni í Reykjavík 29.september 1974 af sr Sigurbirni Einarssyni, biskupi Íslands, ásamt sr. Auði Eir Vilhjálmsdóttur til Staðarprestakalls í Súgandafirði og sr. Jóni Þorsteinssyni til Setbergsprestakalls í Grundarfirði.
Valinn vígslubiskup Skálholtsumdæmis 3.september 2011. Vígður biskupsvígslu í Skálholtsdómkirkju 18.september 2011.
Prestur í Raufarhafnarprestakalli 1974-1978, með aukaþjónustu í Sauðanesprestakalli 1975 - 1977. Prestur í Ísafjarðarprestakalli 1985-1986. Prestur í Grenjaðarstaðarprestakalli 1986-1992. Rektor í Skálholti 1992-1999. Stundakennari við guðfræðideild Háskóla Íslands 1993- 1994 og 1999-2000. Annaðist vikulanga þjálfun og kennslu prestsefna í starfsþjálfun í Skálholti í 1993-1999. Lektor í praktískri guðfræði við guðfræðideild 2000 - 2008. Stundakennari nokkur misseri til 2020. Verkefnisstjóri helgihalds og kirkjutónlistar á Biskupsstofu 2000 – 2011. Prestur á Þingvöllum 2004 - 2018. Aukaþjónusta við Sólheimakirkju frá hausti 2019 til vors 2020. Vígslubiskup í Skálholti frá 2011 til 2018. Leystur frá embætti í árslok 2017 vegna aldurs en sinnti skyldum vígslubiskups þar til nýr vígslubiskup, séra Kristján Björnsson, var vígður á Skálholtshátíð 2018.
Búsettur að Saurbæ á Hvalfjarðarströnd frá miðju sumri 2020.
Kona Margrét Bóasdóttir (12. júní 1971) MBA, söngkona, söngkennari og kórstjóri. Söngmálastjóri Þjóðkirkjunnar . Börn: Bóas, fatahönnuður. Framhaldsnám í vöruhönnun í Berlín (2019- 2022). Benedikt tenórsöngvari kvæntur Angelu Árnadóttur. Börn þeirra Árni, Margrét Iðunn og Andrés.
Í Handbókarnefnd Þjóðkirkjunnar 1979 - 1981. Í Helgisiðanefnd frá 1991. Formaður Helgisiðanefndar frá 1997.