Um sálma

Það hefur verið mikilvægur hluti af starfsævi minni að þýða og semja sálma. En ég geri ekkert tilkall til þess að vera kallaður sálmaskáld. Frammi fyrir hinum raunverulegu sálmaskáldum stenst ég engan samanburð. Ég er meira eins og handverksmaður á þessum vettvangi og er glaður yfir því að fá að vera þar.

Sálmar aðgreina sig frá öðrum ljóðum fyrst og fremst með því að þeir eru tjáning trúarlegs veruleika. Hin trúarlega forsenda sálmsins er grundvöllur hans.

Margir sálmar í sönghefð kirkjunnar hafa ekki fengið háa einkunn bókmenntafræðinga. Aðrir eru listaverk að allra dómi. 
Hin trúarlega forsenda þarf auðvitað ekki að hindra hið listræna form en það virðist þó hafa gerst. Einkum var það áberandi á fystu árum hins nýja siðar í helgihaldi kirkjunnnar um miðja 16.öld. Þar réði stundum mestu þörfin fyrir að koma hinum nýja boðskap til skila, á kostnað hins ljóðræna. 
Stundum hefur þessi þörf líka ráðið ferð á síðari tímum og getið af sér samanbarin og tyrfin ljóð. Kannski ekki síst vegna þess eru sálmar stundum taldir heldur slök ljóð í bókmenntalegum skilningi.

Það þarf að gera miklar kröfur til þeirra söngljóða sem kirkjan syngur í helgihaldi sínu. Það sem borið er fram fyrir Guð og söfnuðinn á samkomum safnaðarins á allt að vera vandað og vel undirbúið. En það á fyrst og fremst að hæfa þeim stað sem það er flutt á og tilefninu. Staðurinn er hið heilaga rými sem frátekið er fyrir Guð og guðsþjónustuna. Tilefnið er samkoma safnaðar í Jesú nafni.

Fyrir áratug eða svo kom það í minnhlut að taka saman  tillögu að  kirkjutónlistarstefnu Þjóðkirkjunnar, en það hafði ekki verið gert fyrr. Þar segir ma.:

Textar við tónlist kirkjunnar þurfa að vera í samhljóðan við kenningu kirkjunnar. Grundvöllur þeirra er boðskapur Heilagrar ritningar eins og hann er tjáður í nafni Jesú Krists. Þeir byggja á liturgiskum uppsprettum sem þjónað hafa kynslóðunum til þess að mega horfa fram til hins verðandi, bæði á jörðu og á himni.

Ég hef í hyggju að nota þennan vettvang til þess að birta smám saman sálma sem ég hef þýtt og samið á langri ævi. Hvorki höfundurinn né sálmarnir sjálfir gera  tilkall til þess að þeir séu taldir bókmenntaverk. En þeir vilja bera honum vitni sem í náð sinni snertir einstaklinga með þeim hætti að þeir geta fellt orð og hugsun saman þannig að syngja má honum til dýrðar.