Messuskýringar fyrir nemendur

Messan samkvæmt handbók kirkjunnar frá 1981 með skýringum og leiðbeiningum.

Texti fyrir prestnema 

 Fyrir messu skrýðist prestur yfir hempu sína,  rykklíni og stólu í lit kirkjuársins  (eða  í stað hempu og rykkilíns, ölbu og stólu) og að síðustu skrýðist hann hökli.
Prestur gefur sér góðan tíma til undirbúnings og fer yfir  messuna með meðhjálpara organista og lesurum og eða öðru aðstoðarfólki. Að endingu hefur hann bænagjörð til undirbúnings. (Sjá fylgiskjal).
Að  lokinni bænagjörðinni eru efni og áhöld kvöldmáltíðarinnar borin inn,og sett á altarið, (eða þar sem svo hagar til á hliðarborð í kór kirkjunnar)  en prestur fer til taka á móti kirkjugestum , þar sem það er venja, eða mögulegt.
Þegar hringt er inn gengur prestur til altarisins, eða prestur og aðstoðarfólk ganga saman inn undir orgelforspili. Söfnuður rís úr sætum og tekur þannig þátt í inngöngunni.
Prestur gengur rakleitt að altarinu, nemur staðar í tröppum, eða fyrir framan gráður og lýtur höfði eða signir sig, eða hvort tveggja.
Ekki er nauðsynlegt að prestur hefji guðsþjónustuna með útskýringum eða ávörpum, en þegar þess gerist þörf snýr prestur sér að söfnuði og tilkynnir það sem þarf og endar orð sín á því að segja eitthvað á þessa leið:  Við hefjum  þessa guðsþjónustu í nafni Guðs, föður og sonar og heilags anda.  Við þessi orð signir hann sjálfan sig en ekki söfnuðinn. 
Síðan heldur messuupphaf áfram eins og venja er og prestur snýr sér að altari.  
Ekki er nokkur þörf á því að segja eitthvað á þessa leið: við skulum nú minnast skírnarinnar og signa okkur.  Ástæðan er sú að þetta er ekki skírnarminning. 
Þetta er messuupphaf. Með signingunni er verið að árétta að allt það sem gerist á þessari samkomu safnaðarins er falið í vald hins þríeina Guðs.
Þegar ekki er þörf á tilkynningum hefst messan eins og hér segir:

Messuupphaf
Prestur snýr að altari. 

Upphafsbæn 
Presturinn
Í nafni Guðs + föður og sonar og heilags anda. (P.  snertir enni við föður, brjóst við son, vinstri öxl við heilags og hægri við anda).
Svar: 
Amen. 
Presturinn Hjálp vor kemur frá Drottni. 
Svar: Skapara himins og jarðar. 
Þegar knéfall er við altarið, fer vel á því að prestur krjúpi undir meðhjálparabæninni.
Meðhjálpari les og söfnuður tekur undir:
Drottinn, ég er kominn í þitt heilaga hús til að lofa þig og ákalla og til að heyra, hvað þú, Guð faðir, skapari minn, þú, Drottinn Jesús, frelsari minn, þú, heilagi andi, huggari minn, vilt við mig tala í þínu orði. Drottinn, heyr þú lofgjörð mína og bæn og opna þú með þínum heilaga anda hjarta mitt fyrir sakir Jesú Krists, að ég fyrir þitt orð iðrist synda minna, trúi á Jesú í lífi og dauða og taki framförum í kristilegu hugarfari og líferni. Bænheyr það, ó Guð, fyrir Jesú Krist. Amen. 

 Prestur rís upp af knéfallinu og tónar miskunnarbæn. (Vel fer samt  á því að forsöngvari leiði miskunnarbænina  en ekki prestur). Prestur snýr að altari.
Prestur lætur hendur hvíla á altari meðan hann tónar miskunnarbæn, eða hlýðir á hana. Allar handalyftingar á þessum stað eru truflandi og eiga helst ekki að vera.

Miskunnarbæn (Kyrie)
F          Drottinn, miskunna þú oss
S          Drottinn, miskunna þú oss
F          Kristur miskunna þú oss
S          Kristur miskunna þú oss
F          Drottinn miskunna þú oss.
S          Drottinn, miskunna þú oss

 Prestur snýr enn að altari og tónar upphaf dýrðarsöngs. 
Hann hefur hendur lausar  á altarisborði. Leyfilegt er að lyfta höndum við dýrðarsöng, en miklu betra er að láta það vera.  Best er að prestur lyfti ekki höndum nema til bæna, við heilsan og við blessun. 

Dýrðarsöngur (Gloria ) 
P: Dýrð sé Guði í upphæðum. 
Svar: Og friður á jörðu og velþóknun yfir mönnunum. 

 Þig lofar, faðir, líf og önd,
þín líkn oss alla styður.
Þú réttir þína helgu hönd
af himni til vor niður.
Og föðurelska , þóknan þín,
í þínum syni til vor skín,
þitt frelsi, náð og friður.  Sigurbjörn Einarsson

 Að loknum dýrðarsöng snýr prestur sér að söfnuði. Hann snýr sér til hægri, hálfan hring.Þegar hann snýr til baka snýr hann til vinstri hálfan hring. [1] Aðgæta þarf að prestur tónar ekkert og mælir ekkert meðan hann er á hreyfingu, eða í snúningi við altarið. Prestur leggur saman hendur þegar hann snýr sér að söfnuði. Best er að hendur séu í þeirri hæð sem prestur heldur á bók.

Þegar prestur hefur snúið sér að söfnuði tónar hann eða talar: Drottinn sé með yður.
Hér má prestur aðgreina hendur um leið og hann tónar. Hann leggur þær saman aftur við svarið: og með þínum anda. Síðan tónar hann:  Látum oss biðja, og snýr sér síðan að altari.

Kollekta
P:  Drottinn sé með yður. 
Svar: Og með þínum anda.  
P: Látum oss biðja.
Hér fylgir kollektan samkvæmt handbók og viðeigandi degi
Svar: 
 Amen.                                                                                                  
Prestur snýr sér til safnaðar  og kynnir og les lexíu og pistil,  eða felur það öðrum.  Einnig þegar lesari les lestrana snýr prestur sér að söfnuði meðan lesið er.  Eftir síðara svarið:  Dýrð sé þér Drottinn, snýr prestur að altari.
Ef sungið er á milli lestra (Graduale-vers) snýr prestur að altari meðan sungið er, og snýr sér svo að söfnuði þegar pistill er kynntur.

 ÞJÓNUSTA ORÐSINS

 Lexía: 
Lexían endar : 
Þannig hljóðar hið heilaga orð. 
Svar: 
Guði sé þakkargjörð. 

 Pistill
Lesari: Pistilinn skrifar postulinn Páll:
Þannig hljóðar hið heilaga orð. 
 Svar: 
 Dýrð sé þér Drottinn. 

 Sálmur, - lofgjörðarvers    Prestur snýr að altari

Guðspjall
Prestur snýr að söfnuði og tónar eða les:
P: Guðspjallið skrifar guðspjallamaðurinn Lúkas
Svar: 
Guði sé lof og dýrð fyrir sinn gleðilegan boðskap.
Þannig hljóðar hið heilaga guðspjall. 
Svar: Lof sé þér, Kristur. 
Prestur stendur áfram og horfir til safnaðar að loknum lestri guðspjalls til þess að  kynna játningu trúarinnar. Það gerir hann  til dæmis með því að segja : Játum trúna. 
Síðan snýr hann sér að altari og leiðir lestur játningarinnar.
    
 Trúarjátning  

P:         Ég trúi á Guð, föður almáttugan, skapara himins og jarðar. 
Ég trúi á Jesú Krist, hans einkason, Drottin vorn, sem getinn er af heilögum anda, fæddur af Maríu mey, píndur á dögum Pontíusar Pílatusar, krossfestur, dáinn og grafinn, steig niður til heljar, reis á þriðja degi aftur upp frá dauðum, steig upp til himna, situr við hægri hönd Guðs föður almáttugs og mun þaðan koma að dæma lifendur og dauða. Ég trúi á heilagan anda, heilaga, almenna kirkju, samfélag heilagra, fyrirgefningu syndanna, upprisu mannsins og eilíft líf. Amen.

Sálmur
P
restur stendur áfram og snýr að altari meðan sálmurinn er sunginn. Þegar skrúðhús er í kirkjunni gengur prestur þangað og leggur af hökulinn áður en hann stígur í stól. Sé ekki skrúðhús stendur prestur við altari og bíður þess að meðhjálpari aðstoði hann við að afskrýðast hökli.  Í síðasta versi sálmsins gengur prestur í stól. 

Prédikun                                            
Prédikun endar á orðunum:  
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. 
Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.  
 Þá er postulleg blessun:
Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé með yður öllum. Amen. 

 Nú gengur prestur aftur til skrúðhúss og skrúðist hökli ef altarisganga fer fram. Sé ekki altarisganga  þarf hann ekki að skrýðast hökli heldur lýkur messunni  skrýddur rykkilíni og stólu.
Sé ekki skrúðhús gengur prestur að altari og meðhjálpari aðstoðar hann þar við að skrýðast hökli ef það á við. 

Stólvers eða sálmur 
Þegar sálminum lýkur snýr prestur sér að söfnuði og kynnir að nú verði beðin almenn kirkjubæn.  Hann gerir það með því að segja t.d.:  Biðjum saman í Jesú nafni. 
Síðan snýr hann sér að altari og leiðir bænina.

 Almenn kirkjubæn 
Prestur:  Biðjum saman í Jesú nafni: 
Hvert bænarefni endar:  Fyrir Jesú Krist Drottin vorn.
Söfnuður svarar:
S Drottinn, heyr vora bæn.
Eigi ekki að fara fram altarisganga enda almenna bænin á Faðir vor. Síðan fylgir blessun, lokasálmur og lokabæn og eftirspil.
Þegar altarisganga fer fram gildir eftirfarandi:
Að lokinni almennri kirkjubæn snýr prestur sér að söfnuði og leiðir játninguna. Eftir ávarpið: Játum syndir vorar ... snýr hann sér að altari og les játninguna með söfnuði.

Játning og friðarkveðja 
P: Játum syndir vorar og lifum í kærleika og sátt við alla menn. 
Allir:  Ég játa fyrir þér, almáttugi Guð, skapari minn og lausnari, að ég hef margvíslega syndgað í hugsunum, orðum og gjörðum. Fyrirgef mér sakir miskunnar þinnar og leið mig til eilífs lífs til dýrðar nafni þínu. 

 Eftir stutta þögn snýr prestur sér að söfnuði og mælir:
P: Almáttugur Guð fyrirgefi yður allar syndir, styrki yður og leiði til eilífs lífs fyrir Jesú Krist, Drottin vorn. 
Svar:  Amen. 
 Prestur snýr enn að söfnuði. Í beinu framhaldi mælir hann eða tónar:

 P:  Friður Drottins sé með yður. 
Svar: 
 Og með þínum anda.                                                                

 Sálmur 
Prestur snýr að altari og tilreiðir brauð og vín, meðan sálmurinn er sunginn.
Prestur færir hin helgu ker (kaleik og patínu) til hliðar á altarinu.  Prestur  tekur korporalshús (kristslíkamahús) ofan af kaleik (og kaleiksklæði)  sækir kristslíkamadúkinn í kristslíkamahúsið og breiðir á altarið, fyrir miðju. Þá tekur hann kaleiksklæðið (velum) af kaleik og leggur til hliðar. Þá setur hann kaleikinn á kristslíkamadúkinn miðjan, tekur spjaldið (palla) ofan af kaleik og patínu og leggur til hliðar, en patínuna tekur hann ofan af kaleiknum og leggur á kristslíkamadúkinn beint fyrir framan kaleikinn, nær sér. 
Þá setur prestur brauð á patínu og hellir víni og vatni í kaleikinn.  
Þegar sálmurinn er sunginn til enda snýr prestur sér til safnaðar og tónar:
 Drottinn sé með yður. Þegar svarað hefur verið: og með þínum anda, snýr prestur sér að altari og tónar framhaldið:
   

 Upphaf þakkargjörðarinnar
P: Drottinn sé með yður. 
Svar: Og með þínum anda. 

Presturinn (snýr sér að altarinu): 
Lyftum hjörtum vorum til himins. 
Svar: Vér hefjum þau til Drottins. 

Presturinn
Látum oss þakka Drottni Guði vorum. 
Svar: Það er maklegt og réttvíst.

 Presturinn: 
Sannlega er það maklegt og réttvíst, skyldugt og mjög hjálpsamlegt, að vér alla daga og á öllum stöðum lofum þig og þökkum þér, þú heilagi Drottinn, almáttugi faðir og eilífi Guð fyrir Jesú Krist Drottin vorn.  
Því að dögun endurlausnar vorrar er komin, er allir hlutir verða nýir, þá hann kemur í veldi dýrðar sinnar. 
Þess vegna með englunum og höfuðenglunum, með tignunum og drottinvöldunum, sömuleiðis ásamt öllum himneskum hirðsveitum lofum vér þitt heilaga nafn óaflátanlega segjandi: 

meðan sunginn er heilagur ... snýr prestur að altari, með hendur á altari.                                                                                                   

Heilagur, heilagur, heilagur ert þú Drottinn, Guð allsherjar. Himnarnir og jörðin eru full af dýrð þinni. Hósíanna í upphæðum. Blessaður sé sá sem kemur í nafni Drottins. Hósíanna í upphæðum.

 Þakkarbæn  
Prestur les:
Vér lofum og tilbiðjum, Guð vor og faðir, sem hefur skapað oss til þinnar myndar og sjálfur endurleyst oss fyrir son þinn, Jesú Krist, sem þú sendir í heiminn til að gjöra oss synduga menn sáluhólpna. Vor vegna gjörðist hann fátækur, að vér auðguðumst af fátækt hans. Vor vegna gekk hann í dauðann að vér mættum lifa. Lofaður sért þú, sem hefur hátt upp hafið hann og gefið honum nafnið, sem hverju nafni er æðra. Send oss heilagan anda, að gjafir þínar, sem vér neytum, verði oss brauð lífsins og bikar blessunarinnar samkvæmt boði sonar þíns, 
sem á þeirri nóttu er hann var svikinn, 
tók brauðið, (hér tekur prestur patínuna sér í hönd)
gjörði þér þakkir og braut það og gaf sínum lærisveinum og sagði: Takið og etið, þetta er líkami minn, (hér gerir pretur krossmark með hægri hönd yfir brauðinu)
[2] sem fyrir yður er gefinn. Gjörið þetta í mína minningu. (hér lyftir prestur patínunni með brauðinu með báðum höndum í augnhæð, og leggur hana síðan  á altarið)
Sömuleiðis eftir kvöldmáltíðina tók hann kaleikinn, (hér tekur prestur kaleikinn í hægri hönd- en færir hann síðan yfir í vinstri) gjörði þér þakkir, gaf þeim hann og sagði: Drekkið allir hér af, þetta er kaleikur hins nýja sáttmála í mínu blóði,(hér gerir prestur krossmark með hægri hönd yfir haleiknum)
[3]  sem fyrir yður er úthellt til fyrirgefningar syndanna. Gjörið þetta svo oft sem þér drekkið, í mína minningu.(Hér lyftir prestur kaleiknum með báðum hönd í augnhæð þannig að hann heldur hægri hönd um kaleikinn sjálfan en vinstri hönd um stéttina. Síðan leggur hann kaleikinn á altarið, dokar við og biður áfram).
Prestur  leggur saman hendur og biður:
Í samhljóðan við þetta boð Drottins vors komum vér fram fyrir þig, heilagi faðir, með þakkargjörð og minnumst fyrir augliti þínu holdtekju sonar þíns, pínu hans og dauða, upprisu hans og uppstigningar og væntum endurkomu hans í dýrð að dæma lifendur og dauða. Prestur aðgreinir hendur og biður:
Vér biðjum þig: Gef oss heilagan anda, afmá syndir vorar og sameina oss sem lifandi limi á líkama Krists, vors upprisna Drottins og frelsara.  (Prestur tekur eina oblátu í hægri hönd milli þumalfingurs og vísifingurs, en kaleikinn í vinstri hönd og lyftir í augnhæð þannig að oblátan er yfir kaleik miðjum og segir/ syngur):
Fyrir hann, með honum og í honum sé þér almáttugi faðir, í einingu heilags anda, heiður og dýrð í heilagri kirkju þinni um aldir alda. 

Svar:  Amen.             
P: Biðjum saman bæn Drottins: (Prestur snýr að altari)
Allir: 
Faðir vor, þú sem ert á himnum. Helgist þitt nafn, til komi þitt ríki, verði þinn vilji svo á jörðu sem á himni. Gef oss í dag vort daglegt brauð. Og fyrirgef oss vorar skuldir svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum. Eigi leið þú oss í freistni, heldur frelsa oss frá illu. Því að þitt er ríkið, mátturinn og dýrðin að eilífu. Amen. 

(Prestur snýr að altari)           
Allir: 
Ó, þú Guðs lamb, sem burt ber heimsins syndir, miskunna þú oss. Ó, þú Guðs lamb, sem burt ber heimsins syndir, miskunna þú oss. Ó, þú Guðs lamb, sem burt ber heimsins syndir, gef oss þinn frið. 
Altarisgestir ganga innar. 
(Prestur snýr að söfnuði og mælir):
P:  Brauðið, sem vér brjótum, er samfélag um líkama Krists, og sá bikar blessunarinnar, sem vér blessum, er samfélag um blóð Krists. 
 (Prestur byrjar útdeilingu frá vinstri hlið séð frá altari og þegar öllum hefur verið útdeilt brauði útdeilir hann víni,  eða hefur til þess aðstoð. Á meðan er sunginn sálmur.

Sálmur undir útdeilingu.
Sé útdeilt þannig að kropið er við altarið í afmörkuðum hópum sendir prestur hvern hóp burt með orðunum: Farið í friði Drottins
Þegar öllum hefur verið útdeilt snýr prestur að söfnuð. Hann heldur á kaleik í hægri hendi  og mælir:
  P: Jesús Kristur, hinn krossfesti og upprisni Drottinn vor og frelsari, varðveiti oss í samfélagi við sig í lifandi trú til eilífs lífs. Hans náð og friður sé með oss. Amen. 
(Prestur gjörir krossmark með kaleiknum. )
Prestur snýr sér að altari.
(Sálmur)
Þegar sunginn er  sálmur eftir altarisgöngu (sem oft er gert en má sleppa) gengur prestur frá efnum og áhöldum meðan sálmurinn er sunginn.  Hann setur þerru milli kaleiks og patínu, kaleiksspjaldið (palla) ofan á patínu og færir kaleik til hliðar út af korporalsdúknum, sem hann brýtur saman og leggur inn í korpóralshúsið. Þá breiðir hann kaleiksklæðið (velum)  yfir kaleik og patínu og leggur korporalshúsið (bursa) ofan á þannig að opnun þess vísi frá söfnuði.
Þegar sálmur endar tónar prestur tónbænina:
Látum oss þakka og biðja:
Vér þökkum þér himneski faðir, ...  einn sannur Guð um aldir alda. 
Svar:  Amen. 
Prestur snýr sér að söfnuði og tónar:

 Blessun 
Söfnuður standi 
P:
 Þökkum Drottni og vegsömum hann.
Svar: 
Drottni sé vegsemd og þakkargjörð. 
(Prestur lyftir höndum. Fingurgómar séu um það bil í augnhæð. (Prestur sem blessar minnist þess að blessunin er hliðstæð því að prestur leggi hendur yfir söfnuðinn.)
P:
  Drottinn blessi þig og varðveiti þig. Drottinn láti sínu ásjónu lýsa yfir þig og sé þér náðugur. Drottinn upplyfti sínu augliti yfir þig og gefi þér frið. 
(Við svar safnaðar gerir prestur  krossmark með hægri hendi. Hann leggur vinstri hönd að brjósti en slær krosstáknið með þeirri hægri þannig að efri mörk kross séu um það bil í augnhæð fyrir miðju, síðan beint niður fyrir brjósthæð , aftur upp undir hökuhæð, út til hægri, út til vinstri og að miðju. Á meðan er sungið amen, þrem sinnum.

Svar:  Amen , Amen, Amen.

 (Prestur snýr  að altari meðan lokasálmur er sunginn og lokabæn er lesin.
Þegar svo hagar til má prestur bera efni og áhöld sakramentisins til skrúðhúss undir lokasálmi.
 
Sálmur  
Vel fer á því að meðhjálpari leiði lokabæn safnaðarins. Prestur getur kropið undir bæninni.

Meðhjálparabæn

 Orgeleftirspil 
Undir eftirspili gengur prestur til útgöngudyra. Þegar hann gengur frá altari má hann fyrst  krjúpa og signa sig, og snúa sér síðan að söfnuði.
Ef prestur kýs má hann standa við altari þar til að loknu eftirspili og ganga þá fyrst til dyra.

 

[1] Samkvæmt Handbók 1981 má prestur snúa sér heilan hring, sem þýðir að þegar prestur snýr sér frá söfnuði skuli hann snúa sér frá söfnuði til hægri að altari. Þetta er einstakt í kristninni. Engin önnur kirkja kennir þessa aðferð. En úr því að Handbókin heimilar það, þá verður að gera ráð fyrir því að það sé látið óátalið. Sá sem þessar leiðbeiningar ritar telur samt að hér sé um misskilning að ræða og að betra væri að þjóðkirkjan dansaði ekki sólódans í þessum efnum frekar en öðrum.
Þegar tveir prestar þjóna við altari eða prestur og djákni þá snúa þeir hvor á móti öðrum þegar þeir snúa sér að söfnuði. Þá snýr sá sem stendur vinstra megin ( séð frá söfnuði) eða norðan megin, sér til hægri hálfan hring eins og fyrr er greint, en sá sem stendur hægra megin snýr sér til vinstri, á móti snúningi þess sem er hægra megin, og að sínum aðstoðarmanni. Þegar þeir snúa til baka, snýr sá sem er hægra megin sér til baka með venjulegum hætti, inn til vinstri, en hinn snýr sér inn til hægri.
[2] Heimilt er að gera krossmarkið við orðin :  gjörði þakkir.
[3] Heimilt er að gera krossmarkið við orðin: gjörði þakkir.