Leuenberg samkomulagið

 Texti Leuenberg samkomulagsins frá 1973

1. Hinar lúthersku og reformertu og hinar sameinuðu þýsku kirkjur[1] sem vaxið hafa af þeirra sameiginlega meiði, sem og þeim skyldar og tengdar eldri siðbótarkirkjur Waldensa og Bæheimsbræðra, leggja fram á grundvelli þess trúfræðilega samtals sem þær hafa átt sín á milli sinn sameiginlega skilning fagnaðarerindisins eins og gerð verður grein fyrir hér að neðan.
Þetta gerir þeim kleift að skilgreina og raungera kirknasamfélag sín á milli. Í þakklæti fyrir að þær hafa færst nær hver annarri, játa þær um leið að glíman um sannleikann og eininguna í kirkjunni var og er bundin sekt og þjáningu.

2. Kirkjan á engan grundvöll annan en þann sem lagður er í Jesú Kristi, sem með því að veita henni hjálpræði sitt safnar henni saman og sendir hana út með boðun og  sakramentum hennar. 
Samkvæmt skilningi siðbótarinnar er því sameiginlegur skilningur á hinni réttu kenningu fagnaðarerindisins og réttri meðhöndlun sakramentanna nauðsynlegur og fullnægjandi til hinnar sönnu einingar kirkjunnar.  
Aðildarkirkjurnar grundvalla á viðmiðum siðbótarinnar sinn skilning á kirknasamfélagi því sem kynnt verður hér að neðan.

 Leiðin til samfélags 

3. Vegna verulega mismunandi nálgunar í guðfræðilegri hugsun og kirkjusiðum, sáu siðbótarfeðurnir sér ekki fært að koma í veg fyrir aðskilnað þeirra á milli, vegna trúar þeirra og samvisku og þrátt fyrir allt það sem sameinaði. Með þessu samkomulagi (konkordíu) viðurkenna kirkjurnar sem taka þátt í því að sambandið þeirra á milli hefur breyst síðan á siðbótartímanum.

1. Sameiginleg viðhorf í aðdraganda siðbótarinnar

4. Hin sögulega fjarlægð sýnir í dag mjög greinilega það sem var sameiginlegt í vitnisburði þeirra, þrátt fyrir ólíkar áherslur kirkna siðbótarinnar: Þær gengu út frá nýrri reynslu af fagnaðarerindinu, sem frelsar og sannfærir.
Með því að fylkja sér undir sannleikann eins og hann birtist þeim, lentu siðbótarmennirnir sameiginlega í andstöðu við kirkjulegar hefðir síns tíma. Þeir játuðu einum rómi að líf og kenning skuli miðast við upprunalegan og hreinan vitnisburð fagnaðarerindisins í heilagri Ritningu.
Einum rómi báru þeir vitni um frjálsa og skilyrðislausa náð Guðs í lífi, dauða og upprisu Jesú Krists hverjum þeim til handa sem trúir þessu fyrirheiti.
Einróma játuðu þeir að starfsemi og fyrirkomulag  kirkjunnar skuli einungis metið út frá því hlutverki að miðla þessum vitnisburði til heimsins og að orð Drottins sé æðra  öllu skipulagi manna innan hins kristna safnaðar.

Með því samþykkja þeir sameiginlega með gjörvallri kristninni það sem játað er í hinum fornkirkjulegu játningum um þríeinan Guð og um guðlegt og mannlegt eðli Jesú Krists og játa það að nýju.

2. Breyttar forsendur í aðstæðum kirkjunnar í samtímanum

5. Fjögurhundruð ára saga hefur leitt siðbótarkirkjurnar til nýrra og áþekkra lausna í hugsun þeirra og lífi sem glíma guðfræðinnar við spurningar samtímans, þróun í biblíurannsóknum, endurnýjunarhreyfingar innan kirknanna og hinn enduruppgötvaði sjónhringur samkirkjulegs samtals hefur leitt af sér. En við það urðu einnig til nýjar áherslur sem ganga þvert á kirkjur. 
Samhliða varð ítrekað til bróðurlegt samfélag, einkum á sameiginlegum þrautatímum. Vegna alls þessa fann kirkjan sig knúna, sérstaklega vegna vakningahreyfinga á 19.öld, til þess að færa vitnisburð ritningarinnar og játningar siðbótarinnar í nýjan búning sem hæfði samtímanum. Þannig lærðu kirkjurnar sem nú eiga samtal sín á milli að skilja á milli grundvallarvitnisburðar játninga siðbótarinnar og hinna sögulega skilyrtu hugmynda hvers tíma. Vegna þess að játningarnar eru vitnisburður um fagnaðarerindið sem lifandi Orð Guðs í Jesú Kristi, þá hindra þær ekki ábyrgan vitnisburð um Orðið heldur opna því leið og hvetja til þess að sú leið sé farin í frelsi trúarinnar.

II. Sameiginlegur skilningur trúarinnar

 6. Hér að neðan lýsa kirkjurnar sem þátt tóku sameiginlegum skilningi sínum á fagnaðarerindinu í þeim mæli sem það er nauðsynlegt til grundvöllunar kirknasamfélags.

1. Réttlætingarboðskapurinn sem boðskapur um hina frjásu náð Guðs

 7. Fagnaðarerindið er boðskapur Jesú Krists um hjálpræði heimsins til uppfyllingar fyrirheitinu sem gefið var lýð hins Gamla testamentis.

 8. a) Hinn rétta skilning fagnaðarerindisins birtu siðbótarfeðurnir með kenningunni um réttlætinguna.

 9. b) Þessi boðskapur vitnar um að Jesús Kristur varð maður með því að Guð tengdist mönnunum; sem hinn krossfesti og upprisni, er tók á sig dóm Guðs og staðfesti þannig elsku Guðs til syndara og hinn komandi, dómari og frelsari, sem leiðir heiminn til fullkomnunar.

10. c) Guð kallar með orði sínu í heilögum anda alla til afturhvarfs og til trúar og kunngjörir syndaranum sem trúir réttlætingu hans í Jesú Kristi. Hver sá sem treystir fagnaðarerindinu er vegna Krists réttlættur fyrir Guði og frjáls frá áklögun lögmálsins. Hann lifir í daglegu afturhvarfi og endurnýjun ásamt söfnuðinum í lofgjörð til Guðs og í þjónustu við aðra í fullvissu um að Guð muni fullkomna ríki sitt. Þannig skapar Guð nýtt líf og sáir í heiminum miðjum sáðkorni nýrrar mennsku.

11. d) Þessi boðskapur gerir hin kristnu frjáls til ábyrgrar þjónustu í heiminum og tilbúin til þess að líða fyrir hana. Þau eru sannfærð um að hinn krefjandi og gefandi vilji Guðs teygi sig um allan heim. Þau beita sér því fyrir réttlæti á jörðu og fyrir friði milli einstaklinga og þjóða. Það veldur því að þeim er nauðsynlegt að leita með öðrum að skynsamlegum og efnislega réttum viðmiðum og taka þátt í því að beita þeim. Þetta gera þau í trausti þess að Guð hafi heiminn í hendi sér og þau séu ábyrg gagnvart honum.

 12. e) Með þessum skilningi fagnaðarerindisins stöndum við á grundvelli hinna fornkirkjulegu játninga og gerum að okkar sameiginlega sannfæringu siðbótarjátninganna um að einungis hjálpræðisverk Jesú Krists sem miðja heilagrar ritningar og réttlætingarboðskapurinn sem boðskapur um frjálsa náð Guð, séu viðmið allrar boðunar kirkjunnar. 

2. Boðun, skírn og kvöldmáltíð

13. Orð postulanna og spámannanna í Heilagri ritningu hins Gamla og Nýja testamentis bera grundvallandi vitni um fagnaðarerindið. Það er hlutverk kirkjunnar að vinna að framgangi þessa fagnaðarerindis með munnlegu orði predikunarinnar í vitnisburði sínum gangvart einstaklingum og í skírn og kvöldmáltíð. Í boðuninni, skírn og kvöldmáltíð er Jesús Kristur nærverandi í heilögum anda. Með því eignast einstaklingar hlutdeild í réttlætingunni í Kristi og þannig safnar Drottinn kirkju sinni saman. Hann starfar í fjölbreytilegum embættum og (margskonar) þjónustu sem og í vitnisburði allra þeirra sem söfnuði hans  tilheyra. 

14. a) Skírt er með vatni í nafni föðurins, sonarins og hins heilaga anda. Í skírninni tekur Jesús Kristur manneskju sem vegna syndarinnar og dauðans er fallin, inn í hjálpræðissamfélag sitt á óafturkræfan hátt svo að hún verði ný sköpun. Hann kallar hana í krafti Heilags anda inn í söfnuð sinn til lífs í trú til daglegs afturhvarfs og eftirfylgdar.

15. b) Kvöldmáltíðin. Í kvöldmáltíðinni gefur hinn upprisni Jesús Kristur sjálfan sig í líkama sínum og blóði sem hann úthellir fyrir alla með orði fyrirheitis síns í og með brauði og víni. Með því veitir hann okkur fyrirgefningu syndanna og frelsar okkur til nýs lífs í trú. Hann lætur okkur reyna á nýjan leik að við erum limir á líkama hans og styrkir okkur til þjónustu við aðra.

16. Þegar við höldum kvöldmáltíð boðum við dauða Krists. Fyrir hann hefur Guð friðþægt heiminn við sig. Við játum að hinn upprisni Drottinn er nærverandi á meðal okkar. Í gleði yfir því að Drottinn er kominn til okkar bíðum við síðari komu hans í dýrð.  

III. Samkomulag andspænis kenningarágreiningi siðbótartímans

 17. Hin ólíku sjónarmið sem allt frá siðbótartímanum gerðu kirknasamfélag lúterskra og reformertra kirkna ómögulegt og leiddu til gagnkvæmra fordæminga, vörðuðu fyrst og fremst kenninguna um kvöldmáltíðina, kristsfræðina og fyrirhugunarkenninguna. Við tökum ákvarðanir siðbótarfeðranna alvarlega, en getum í dag sameiginlega sagt eftirfarandi:

1. Kvöldmáltíðin

18. Í kvöldmáltíðinni gefur hinn upprisni Jesús Kristur sjálfan sig, sem hann gaf öllum í fórnfæringu líkama síns og  blóðs, í orði fyrirheitis síns, með brauði og víni. Þannig gefur hann sjálfan sig án nokkurs fyrirvara öllum sem meðtaka brauð og vín: Trúin meðtekur máltíðina til hjálpræðis, vantrúin til dóms.

19. Samfélagið við Jesú Krist í líkama hans og blóði getum við ekki skilið frá því að neyta brauðs og víns. Vangaveltur um það hvernig Kristur er nálægur við altarisborðið og skilja á milli nálægðar hans í líkama og blóði annarsvegar og neyslu brauðs og víns hinsvegar geta valdið því að merking kvöldmáltíðarinnar verði óskýr.

20. Þegar þetta er sameiginlegur skilningur kirkna eiga fordæmingar siðbótarjátninganna ekki við og samrýmast ekki stöðu kenningarinnar meðal þeirra nú.

2. Kristsfræðin 

21. Í hinum sanna manni Jesú Kristi gaf hinn eilífi sonur Guðs, og þar með Guð sjálfur, sjálfan sig til hjálpræðis týndu mannkyni. Í orði fyrirheitisins og í sakramentinu gerir heilagur andi, og þar með Guð sjálfur, Jesús sem hinn krossfesta og upprisna okkur nálægan hér og nú.

 22. Í trúnni á að Guð gaf sig sjálfan í syni sínum sjáum við að við höfum það hlutverk andspænis hinni sögulegu bindingu viðtekinna hugmynda að við þurfum að draga fram að nýju  það sem hin reformerta hefð leggur áherslu á um ósnertanleika guðsdóms og mennsku Jesú og áherslu  hinnar lútersku hefðar á fullkomna einingu hans í einni persónu.

23. Í þessu ljósi getum við ekki fylgt eftir hinum fyrri fordæmingum.

3. Fyrirhugunin

24. Í fagnaðarerindinu er fyrirheit um að Guð taki að sér synduga manneskju skilyrðislaust. Hver sá sem treystir því getur verið sannfærður um hjálpræðið og útvalningu Guðs. Um útvalninguna er því aðeins hægt að fjalla út frá kölluninni til hjálpræðis í Kristi.

25. Það er reynsla trúarinnar að ekki taka allir við boðskapnum um hjálpræðið, en trúin virðir leyndardóminn um það hvernig Guð starfar. Trúin játar í senn alvöru ákvörðunar manna, sem og hjálpræðisvilja Guðs gagnvart öllum heimi. Vitnisburðurinn um Krist í ritningunum bannar okkur að skilgreina eilífa ráðsályktun Guðs eins og í henni fælist afgerandi höfnun einstaklinga eða þjóða.

 26. Þegar þetta er sameiginlegur skilningur kirkna eiga fordæmingar siðbótarjátninganna ekki við og samrýmast ekki stöðu kenningarinnar meðal þeirra nú.

 4. Afleiðingar og  niðurstöður

 27. Þar sem þessar ákvarðanir verða samþykktar, samrýmast fordæmingar siðbótar játninganna um kvöldmáltíð, kristsfræði og fyrirhugun ekki lengur hinni kenningarlegu stöðu. Með því er ekki sagt að fordæmingar feðranna séu óskýrar , heldur að þær eru ekki lengur nein hindrun fyrir kirknasambandi / samfélagi.

28. Í kirkjum okkar er  að finna verulegan mismun í skipan guðsþjónustunnar, í aðferðum  trúariðkunarinnar og í kirkjusiðum. Þessi mismunur er í söfnuðunum  oft  mun frekar afgerandi til aðgreiningar en mismunur í kenningarlegum efnum. Þrátt fyrir það sjáum við ekki á grundvelli Nýja Testamentisins og út frá viðmiðum siðbótarinnar  um kirknasamband  felast í þessum mismun  nokkuð það sem aðskilur kirkjurnar. 

IV. Yfirlýsing um tilurð Kirknasamfélagsins  

 29. Kirknasamfélag að skilningi þessa samkomulags merkir að kirkjur á mismunandi játningagrunni samþykkja samfélag sín á milli um orð og sakramenti á grunni samhljóma skilnings á fagnaðarerindinu og vilja leggja sig fram um samhljóm í vitnisburði og þjónustu þeirra við heiminn.

1. Yfirlýsing um kirknasamband

30. Með samþykki þessa samkomulags lýsa kirkjurnar því yfir í samhengi við bindandi játningar þeirra eða með tilliti til hefða þeirra:

31. a) að þær eru sammála um þann skilning á fagnaðarerindinu sem fram kemur í lið II og III. 

32. b) að þær fordæmingar kenningarinnar sem Játningaritin innihalda eru eins og fram kemur í lið III ekki í samræmi við núverandi kenningu þessara kirkna.

33. c) að þær veita hver annarri samfélag um predikun og kvöldmáltíð. Það felur í sér gagnkvæma viðurkenningu hinnar vígðu þjónustu og mögleikann til sameiginlegrar altarisþjónustu.

34. Með þessum ákvörðunum er kirknasamfélag kunngjört. Ástæður aðskilnaðar  þessa samfélags frá 16.öld eru þar með felldar úr gildi. Kirkjurnar sem taka þátt í þessu verki eru sannfærðar um að þær séu hluttakendur í hinni einu kirkju Jesú Krists og að Drottinn frelsi þær og skuldbindi til sameiginlegrar þjónustu. 

2. Tilurð kirknasamfélagsins

 35. Kirknasamfélagið raungerist í lífi kirkna og safnaða. Í trú á sameinandi kraft Heilags anda bera þær fram vitnisburð sinn og þjónustu í sameiningu og leggja sig fram um styrkingu og dýpkun þess samfélags sem nú er orðið til.

36. a)  Boðun og þjónusta. Trúverðugleiki boðunar kirknanna í heiminum vex ef þær bera vitni um fagnaðarerindið í eindrægni. Fagnaðarerindið frelsar og skuldbindur kirkjurnar til sameiginlegrar þjónustu. Sem kærleiksþjónusta snýr hún að öllum sem eru í neyð og leitar leiða til að leita að orsökum neyðarinnar. Þörfin fyrir réttlæti og frið í heiminum kallar eftir því að kirkjurnar sameinist í ábyrgð sinni í vaxandi mæli.

37. b) Framhald hinnar guðfræðilegu vinnu. Þetta samkomulag breytir engu um skuldbindandi gildi játninga kirknanna sem aðild eiga að því. Það er ekki skilningur samkomulagsins að hér sé um nýja játningu að ræða, heldur byggir það í kjarna sínum á þeirri einingu sem áunnist hefur og gerir kirknasamband milli kirkna sem hafa mismunandi játningar mögulegt. Í samstarfi sínu um boðun og þjónustu lúta aðildarkirkjurnar þeirri leiðsögn sem í samkomulagi þeirra felst og bindast fastmælum um áframhaldandi samtal um kenningarleg málefni sín á milli.

38. Hinn sameiginlegi skilningur á fagnaðarerindinu sem kirknasambandið byggir á verður að dýpka enn frekar, prófast á grundvelli vitnisburðar heilagrar ritningar og stöðugt túlkast í samhengi samtímans. 

39. Það er hlutverk kirknanna að vinna áfram að skoðun kenningarlegra ágreiningsefna sem enn eru til staðar, þótt þau valdi ekki aðskilnaði milli þeirra.
Þar á meðal eru:

·      túlkunarfræðilegar spurningar varðandi skilninginn á ritningunni, játningunum og kirkjunni
·      tengsl lögmáls og fagnaðarerindis
·      skírnaratferlið
·      embætti og vígsla
·      tveggja ríkja kenningin og kenningin um konungdóm Krists
·      kirkja og samfélag.

Um leið verður að takast á við ný vandamál sem snerta boðun og þjónustu, regluverk og iðkun.

 40. Á grundvelli sameiginlegrar arfleifðar sinnar verða siðbótarkirkjurnar að glíma við  tilhneigingar til guðfræðilegrar spennu milli andstæðra skoðana sem vart verður við í nútímanum. Þau vandamál sem fylgja í kjölfarið ganga sumpart lengra en kenningarmismunur sá sem andstæðar fylkingar lúterskra og reformerta byggðu á.

 41. Það verður hlutverk hinnar sameiginlegu guðfræðivinnu að bera vitni um sannleika fagnaðarerindisins andspænis mistúlkunum og greina sig frá þeim.

 42. c) Skipulagslegar afleiðingar. Með yfirlýsingunni um kirknasamfélag er ekki gengið framhjá kirkjuréttarlegum reglum milli kirkna eða innan þeirra vébanda. Þrátt fyrir það þurfa kirkjurnar að taka tillit til þessa samkomulags þegar slíkar reglur eru annars vegar.

 43. Eingöngu gildir að yfirlýsingin um samfélag um boðun orðsins og kvöldmáltíðarsamfélagið og gagnkvæm viðurkenning á embætti og vígslu hefur engin áhrif á ákvarðanir kirknanna um ráðningu presta, framkvæmd hinnar prestslegu þjónustu eða skipulag safnaðarlífsins.

 44. Spurningunni um sameiningu einstakra kirkja sem þátt hafa tekið verður ekki svarað nema út frá þeim aðstæðum sem þessar kirkjur búa við. Þegar leita skal svars við þessari spurningu þarf að taka tillit til eftirfarandi sjónarmiða.

45. Einingarband sem áhrif hefði á hinn lifandi fjölbreytileika í aðferðum boðunarinnar, guðsþjónustulífsins, kirkjuskipanarinnar og í starfsemi díakoníunnar eða í samfélagslegum verkefnum væri andstætt eðli þessarar yfirlýsingar um kirknasamband. Aftur á móti getur sameining í tilteknum aðstæðum þjónustu kirkjunnar vegna efnislegrar tengingar milli þjónustu og regluverks legið nærri. Verði til skipulagslegar afleiðingar sem byggja á yfirlýsingunni um kirknasamfélag, má það ekki hafa áhrif á valfrelsi minnihlutakirkna.

46. d)  Samkirkjuleg sjónrmið. Með því að þátttökukirkjurnar lýsa yfir kirknasamfélagi sín á milli og raungera það, byggja þær á skuldbindingu um að þjóna samkirkjulegu samfélagi allra kristinna kirkna.

47.  Þær skilja slíkt kirknasamfélag innan Evrópu sem spor í þá átt. Jafnframt vænta þær þess að með því að hafa yfirunnið  aðskilnað sín á milli muni það hafa áhrif á þær kirkjur í Evrópu og í öðrum heimsálfum sem eru þeim játningarlega tengdar og eru tilbúnar til að skoða með þeim möguleikann á frekara kirknasamfélagi.

48. Þessi von gildir einnig um tengslin milli Lútherska heimssambandsins og Reformerta heimssambandsins. 

49. Enn fremur vænta þær þess að þetta kirknasamfélag verði ný hvatning til samfunda og samvinnu við söfnuði annarra kirkjudeilda. Þær lýsa því yfir að þær eru tilbúnar til að yfirfæra hið kenningarlega samtal yfir á þann víða sjóndeildarhring.

-.-.-.-.-.-.-.-.-.-.-.-

Þessi íslenska þýðing Leuenbergsamkomulagsins  er gerð samkvæmt hinum þýska, enska og franska frumtexta samkomulagsins snemma árs 2019.

Frumþýðinguna gerði Kristján Valur Ingólfsson. 
Þau sem komu að endanlegri þýðingu auk hans: 
Arnfríður Guðmundsdóttir
Dalla Þórðardóttir
Sigurjón Árni Eyjólfsson

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

.  

 

 

 

 

 


[1] Á 19. öld  störfuðu á nokkrum landsvæðum Þýskalands hlið við hlið lútherskir eða reformertir  söfnuðir  sem voru sameinaðir í  landskirkjur sem kallast einu nafni uniert, eða sameinaðar kirkjur.