Fræðsla um messuna fyrir söfnuðinn

Messuskýringar

Þessar messuskýringar eru bæði hugsaðar til að lesa og íhuga fyrir kirkjugöngu, en einnig má flytja þær í áföngum í messunni sjálfri eins og hugleiðingu. Þá er gert ráð fyrir því að predikun dagsins taki mið af þessu og sé stytt að sama skapi.   Kaflaskifting skýringanna tekur mið af því á hvaða stað messunnar hver hluti er lesinn.


I. (Á eftir forspili)
Sérhver guðsþjónusta hefur þrjá megin  hluta: 

Við komum saman til fundar við Guð, 
við látum uppbyggjast í samfélaginu við hann,
við erum send út til þjónustu við Guð og náungann.

Fyrsti hlutinn, þegar  við komum saman í kirkjunni,  er kallaður  inngönguhluti guðsþjónustunnar.  Áður en við komum að því sem kallað er  messuupphaf  í messuskránni,  hefur þó þrennt gerst. 

Hið fyrsta  er þetta:  Við ákváðum að fara til kirkju.  Skemmtilegt væri að reyna að útskýra hversvegna - en um það atriði er það eitt víst að Guð  hefur kallað og við höfum hlýtt því  kalli.   Forsenda hverrar samkomu í nafni hans er þessi: Guð talar,  maðurinn svarar.
Þetta má kalla einkenni hverrar guðsþjónustu: Ávarp og andsvar. 
Allt  ferli guðsþjónustunnar hefur þetta einkenni:
Presturinn tónar - söfnuðurinn svarar, forsöngvari syngur - kórinn svarar.
Lesari les  ritningarlesturinn - söfnuðurinn svarar - og syngur sálm.
Guð kallar - söfnuðurinn kemur til fundar við hann.

Annað  er þetta: Klukkum er hringt, - klukkur kalla söfnuðinn saman til guðsþjónustu:  -  Eins og Stefán frá Hvítadal yrkir í sálminum: ,,Kirkjan ómar öll”, Sb. 74:  ,,Inn er helgi hringd  ... -  þessi klukknaköll,  boða ljós og líf. ... -  Heyrið málmsins mál..."
Og þegar klukkurnar þagna tekur orgelið við,  -drottning allra hljóðfæra tekur við að lofa Guð, sem kemur. Guð vor kemur og þegir ekki, - segir í Saltaranum (í  sálmum Davíðs) Sl. 50.3.  Söfnuðurinn  á stefnumót við Guð sem kemur.  Jesús Kristur, konungurinn konunganna,  kemur nú til sinna manna. (Sjá Sb.57)
Við göngum til fundar við hann og stefnum að altarinu, og horfum til altarisins, sem er hið eilífa  tákn um nálægð Guðs.
Við göngum til fundar við Guð og gerum vart við okkur, tilkynnum  honum að við séum komin á hans fund með því að signa okkur, og um leið minnum við okkur á  að allt það sem
á eftir  kemur gerist í Jesú nafni.

Altarið stendur hæst. Það er helgasti staður kirkjuhússins, og þangað snýr  einnig presturinn, hann sem valinn er til að leiða tilbeiðslu  safnaðarins, og frá því snýr hann svo til þess að flytja söfnuðinum Orð Guðs, því að til  þess er hann einnig valinn.
Með einföldum hætti er hægt að segja, að presturinn snýr að altari þegar hann  kemur fram fyrir Guð sem fulltrúi  safnaðarins, og hann snýr að söfnuðinum  þegar hann kemur fram fyrir fólkið  sem fulltrúi Guðs orðs.  Prestur er sendur af hinni almennu kirkju og prestur er valinn af heimasöfnuði. Þessi tvennskonar sending prests kemur vel fram í þessu atferli hans.
Enda þótt við  snúum að altari  við bæn, þá er algengur siður á Íslandi að meðhjálparinn snúi að söfnuði ef hann leiðir kórbænina, eða meðhjálparabænina, í upphafi messu.
Þetta  á þá skýringu að hinir fyrstu meðhjálparar á þessu landi áttu sæti sitt við hlið altaris og snéru því  að söfnuði.  Þegar þeir fluttu  bænina gerðu þeir ekki annað en að standa upp, stíga eitt skref fram og lesa bænina.  Í litlum kirkjum fyrri tíma  höðfu þeir heldur  ekki marga aðra möguleika. 
Eftir bænina fylgir  fyrsti sálmur þessarar guðsþjónustu.

II.  (Eftir inngöngusálm.)
Einu sinni var venja að syngja  í  inngangshluta guðsþjónustunnar Davíðssálma. Víxlsöngurinn sem oft fylgir  á eftir er fyrsta sálmi þegar sungið er messutónið kennt við Sigfús Einarsson, eða tónlag Bjarna Þorsteinssonar, það er beint  framhald af þeim sið.  Víxlsöngur  er ekkert annað en að prestur eða forsvöngvari og kór syngja til skiptis. Á eftir  vixlsöngnum, sem er breytilegur eftir því hvaða tími kirkjuárs er, - hvort er jólatíminn, föstutíminn, páskatíminn  eða trinitatistíminn,  kemur  Miskunnarbænin  (Kyrie).  Hún er  einnig víxlsöngur.
Miskunnarbænin  undirstrikar inngönguþáttinn enn frekar.  Hún er ekki bara sett þarna til  að minna okkur á að við þörfnumst miskunnar Guðs, heldur til að segja: 
Nú kemur sá sem miskunnar.
Því að upphaf  þessarar miskunnarbænar  er í frásögninni um blindu mennina við veginn sem biðu komu Jesú  og kölluðu og báðu hann um miskunn. (Sjá Mt. 10.27-31)
Að baki hljóma einnig orð Krists við þá (og nú við okkur): ,,Verði ykkur að trú ykkar.” (Mt.10.29b.) 
Yfirleitt nema á föstutímanum  fylgir beint á eftir miskunnarbæninni Dýrðarsöngurinn.  (Gloria).  Dýrðarsöngurinn er englasöngur. Við  tökum undir  söng englanna yfir Betlehemsvöllum á jólanótt.  Þessi englasöngur er  gleðisöngur. Fastan  er tími  til að minnast  þjáninga og písla Drottins   og því var enginn gleðisöngur  sunginn, hvorki dýrðarsöngurinn né heldur Hallelújasöngur.
Framhald dýrðarsöngsins er í flestum tilfellum sálmurinn: Þig lofar faðir líf og önd (Sb.223) eða annar sálmur.Í hátíðasöngvunum er að finna hið upphaflega framhald, lofgjörðina: ,,Vér lofum þig, vér tilbiðjum þig ...”  Þessi söngur er einn hinn allra elsti söngur kristinnar kirkju.
Eftir dýrðarsöng fylgir bæn dagsins, sem líka  er kölluð kollekta.
Kollektubænin er breytileg, og er sérstök bæn fyrir hvern helgan dag. Þessi  bæn safnar saman í eitt meginhugsun helgidagsins  eins og hana er að finna í lestrum dagsins úr  Biblíunni.
Á undan kollektunni snýr presturinn sér að fólkinu og tónar eða segir :
Drottinn sé með yður, og söfnuðurinn svarar: Og með þínum anda.
Að baki þessum sið er ávarp Gabríels erkiengils þegar hann heimsótti Maríu til að bera henni boðin um að hún myndi fæða soninn Jesú. "Heil vert þú sem nýtur náðar Guðs. Drottinn er með þér."  (Lk.1.26).
Þetta er því engin venjuleg kveðja og heldur ekkert venjulegt svar. Um leið og söfnuðurinn svarar :  og með þínum anda,  biður söfnuðurinn  fyrir prestinum  og ber  honum einnig þessa sömu kveðju.

Síðan fylgja  ritningarlestrar dagsins þrír að tölu. Hinn fyrsti  er Lexían úr  Gamlatestamentinu, annar  er pistill dagsins og þriðji er guðspjallið. 
Allir lestrarnir eru valdir samkvæmt  fast ákveðinni röð sem byggir á sameiginlegri hefð  allra kristinna kirkna. 
Þegar pistilslestri lýkur er sunginn sálmur, lofgjörðarvers, nema á föstunni, þá er sungið föstuvers.
Þegar  barn er borið til skírnar  í kirkjunni  getur það verið gert hér og þá syngjum við í staðinn  skírnarsálm. Staður skírnarinnar í guðsþjónustunni er oftast eftir  lestur pistils, en hann getur líka verið alveg í upphafi messunnar, strax  að lokinni meðhjálparabæn, eða  eftir sálminn eftir predikun. Áður fyrri þegar sjáldan var altarisganga   var oftast skírt eftir predikun. 

III. (Á undan guðspjallskynningu.)
Nú fylgir kynning guðspjallsins og lestur þess og síðan játning trúarinnar. Ef við höfum játað trúna nú þegar  vegna þess að  barn er borið til skírnar  er játningin ekki endurtekin þótt hlutverk hennar sé annað þegar hún er flutt  við skírn.  Þá er hún til útskýringar þess  til hvaða trúar barnið er  skírt, - en þegar hún er flutt eftir guðspjallið , þá er hún lofsöngur, - svar safnaðarins við  boðskapnum - fagnaðarerindinu í guðspjalli dagsins. 
Guð talar, maðurinn svarar.

Eftir játningu trúarinnar fylgir svo sálmurinn sem er kallaður guðspjallssálmur af því að hann tekur upp og útskýrir guðspjallið, eða  meginefni þess.
Síðan kemur predikunin,  sem er útlegging og heimfærsla  þess sem við höfum heyrt í guðsjallinu, þe.  boðskapurinn  er færður inn í  okkar heim og okkar kringumstæður.
Predikun sem er útskýring guðspjallsins  hefur þess vegna  vægi  eins og orð Guðs, og  til þess er  presturinn valinn og kallaður að flytja það. Predikunin  og kraftur hennar er þó ekki á valdi prestsins, heldur er hún verk heilags  anda.
Ef prestur  felur öðrum að  predika, þá yfirfærir hann predikunarumboð sitt á annan, en embætti predikunarinnar afhendir hann ekki öðrum. 
Okkur leyfist að trúa  því að Guð kemur orði sínu til skila, og  að það snýr ekki til baka  fyrir en það hefur unnið það verk  sem hann fól því að framkvæma.  (Jes.55.11)

IV. (Eftir sálm eftir predikun.)
Nú fylgir á eftir bænin sem er kölluð almenn kirkjubæn. Þessi bæn hefur ákveðið form sem endurtekur sig sunnudag eftir sunnudag, þ.e.  bænarefnin  eru  alltaf hin sömu.   Hinsvegar má segja að þessi bæn sé í raun eins og  uppskrift sem er eftir að baka úr.  Við nefnum bænarefnin með nafni, en svo  er það safnaðarins að fylla í eyðurnar.  Við biðjum um frið, - og nefnum  í
hljóði  eða upphátt staðina þar sem ófriður er. Við biðjum fyrir sjúkum og nefnum nöfn þeirra í hljóði  frammi fyrir augliti Guðs,  og svo  framvegis.
En allar bænir okkar felum við í bæn Drottins Faðir vor. Engin bæn er eins og hún, ekki bara vegna þess hvernig hún er heldur vegna þess að þetta eru orð og hugsun Jesú sjálfs og hann er sjálfur í orði sínu mitt á meðal okkar.  Það hefur verið orðað á þennan hátt: Hann krýpur með mér og heldur utan um mig þegar ég bið  bænina hans og hvert sinn sem ég bið í hans nafni.
Hann biður með mér.
Trúarjátninguna  lesum við bara einu sinni í hverrri messu, en Faðir vor getur komið fyrir oft, ef þurfa þykir.  Þegar ekki er altarisganga lýkur almennu bæninni á Faðir vor, þótt áður hafi verið skírt.  Í skírninni er það bænin sem við, söfnuðurinn biðjum með barninu í  fyrstu guðsþjónustu þess, í almennu  bæninni er það sameiginlegt niðurlag allra  annarra bæna, og  í
kvöldmáltíðinni er það borðbæn.

V. (Á undan syndajátningu)
Forsenda syndajátningarinnar sést vel í orðunum : ,,Í ljósi sannleika þíns sé ég og viðurkenni að ég hef syndgað”. Við undirbúum okkur fyrir gönguna til Guðs borðs og leitum fyrirgefningar og sátta. Þessi undirbúningur getur einnig farið fram í upphafi messunnar í stað meðhjálparabænarinnar (kórbænarinnar).

Áður fyrri undirbjó fólk sig heimafyrir áður en það fór til altaris með því að biðja hvern heimilismann fyrirgefningar.
Að baki þessu eru orð Jesú: Mt.5.23-24: ,,Sértu því að færa fórn þína á altarið og minnist þess þar, að bróðir þinn hefur eitthvað á móti þér, þá skaltu skilja gjöf þína eftir fyrir framan altarið, fara fyrst og sættast við bróður þinn, koma síðan og færa fórn þína.”
Friðarkveðjan sem fylgir syndajátningunni undirstrikar sátt og frið. Það skiptir miklu máli að hún sé ekki orðin tóm tjái kirkjugestir ósk sína og bæn um frið með því að rétta þeim sem næst sitja aðra hönd eða báðar og segja: Friður sé með þér.
Þá er sunginn sálmur meðan efni og áhöld til altarisgöngunnar eru tilreidd.

 Altarisgangan sjálf hefst einnig einnig á víxlsöng:
Guð  talar  maðurinn svarar.
Hann kallar okkur til síns borðs  og vill eiga með okkur máltíð, sem er  forsmekkur þess sem verður í  ríki hans á himnum.  Þegar við göngum til  altarisins þá göngum við á táknrænan hátt upp á fjall Guðs. Það er fjallið  þar sem hann afhendir okkur boðorð sín, og það er fjallið -  eða hæðin Golgata  með þremur krossum.
Hversvegna ?  Þegar við berum börnin til skírnar förum við eftir fyrirmælum Jesú: Farið og gjörið allar þjóðir að lærisveinum. Þegar við  förum til altaris þá hlýðum  við öðrum fyrirmælum hans: "Gjörið þetta í mína minningu".  
Þegar við höfum gengið saman til Guðs borðs og máltíðinni er lokið  snýr prestur sér fram og blessar söfnuðinn. Hann sendir okkur  út til þjónustunnar.  
Þetta er blessun Guðs  sem hann afhenti Móse, sem færðist undan og Guð valdi Aron bróður hans til að  blessa. Hina upplyftu hendur tákna það að nú blessar Guð með sinni blessun. Presturinn leggur hendur yfir söfnuðinn. Presturinn, þjónn Guðs flytur blessun hans og við flytjum hana með okkur út  til að þjóna  náunganum og þar með Guði.  (Þegar við heilsum eða kveðjum og segjum : Komdu / Vertu blessuð/blessaður, þá erum við að flytja þessa blessun Guðs úr messunni út til annarra.
Þannig endar Guðsþjónustan aldrei, heldur breytist í þjónustuna  við náungann.

Lokasálmurinn undirstrikar þetta, og orgelleikurinn er framhald hans, og klukkurnar kalla til nýrrar þjónustu  meðal mannanna uns þær kalla næst  til þjónustu.