Bent hefur verið á að reglur um það hvenær söfnuður rís úr sætum í guðsþjónustunni séu ekki nægilega kunnar, né heldur nægilega kynntar.
Venjur og siðir eru annars mjög með ýmsu sniði hvað þetta varðar meðal kirknanna heiminum. Þannig standa sumir söfnuðir ævinlega við bæn meðan aðrir sitja eða krjúpa. Sumir sitja undir lestri en standa við söng, eða öfugt. Fyrir eina tíð voru engin sæti í kirkjum og kom þá af sjálfu sér að söfnuðurinn stóð allan tímann.
Að standa frammi fyrir hinu heilaga tók kristin kirkja í arf frá gyðingum. Þegar Guð talar, stendur sá sem heyrir. Þegar Abraham gekk fram fyrir Guð þá stóð hann. (1.Móse 18.22). Í Esekiel 2.1 segir Drottinn: ,,Þú mannsson, statt á fætur, að ég megi tala við þig.”
Í það minnsta allt frá 4.öld eru til frásagnir um að söfnuðurinn hafi staðið meðan guðspjallið var lesið, og byggir það á fyrrnefndri hefð.
Að standa við bænagjörð var sömuleiðis hið venjulega, nema þar sem sú venja skapaðist að söfnuður skyldi krjúpa. Þegar farið var að setja bekki í kirkjur voru þeir snemma með þeim hætti að þar mætti einnig krjúpa. Þegar kirkjubekkir buðu ekki lengur upp á þann möguleika, var tekinn upp sá siður að sitja þar sem áður var kropið og sumstaðar lagðist sá siður af að standa undir bænagjörð.
Í söfnuðum þjóðkirkjunnar hefur verið fylgt ákveðinni hefð um langan aldur og ætti kannski ekki að vera þörf á því að ræða siði og venjur hennar í sérstakri grein, en bæði er að margir fara sjaldan í kirkju og eru óöruggir um þessar venjur, og einnig er ekki alltaf einhlítt hvernig skilja skal leiðbeiningar í messuskrám.
Eins og í svo mörgu öðru má hér tala um meginreglu og möguleg frávik. Þannig var það meginregla hérlendis að söfnuðurinn stóð upp, ekki aðeins undir guðspjalli heldur í hvert sinn sem lesið var úr heilagri ritningu. Auk þess meðtók hann blessunina standandi.
Þegar síðast kom út handbók (helgisiðabók) kirkjunnar (1981) var tekinn upp sá siður að auk pistils og guðspjalls skyldi einnig lesa lexíu úr ritum gamla testamentisins. Þá var jafnframt ákveðið að gera þann greinarmun á guðspjallslestrinum og öðrum lestrum, að söfnuðurinn skyldi aðeins standa undir guðspjalli, eins og verið hafði forðum, vegna þess að það væru orð Jesú Krists. Þau orð skildi greina sérstaklega frá öðrum orðum (lestrum) úr ritningunni.
Við útkomu sömu helgisiðabókar voru aftur teknir upp nokkrir fastir liðir messunnar sem venja var að flytja standandi, en höfðu horfið um tíma nema í hátíðamessunni þegar sunginn var Hátíðasöngur sr. Bjarna Þorsteinssonar.
Dæmi um þetta eru Dýrðarsöngur, trúarjátning og Heilagur.
Eitt megin einkenni á sameiginlegum samkomum safnaðarins er að þar fer fram samtal. Orð Guðs sem boðað er kallar á andsvar. Í víxlsöng eða víxlestri ræðast við presturinn og þau önnur sem flytja Orð Guðs, og söfnuðurinn svarar því. Dæmi þar um er : ,,Drottinn sé með yður / og með þínum anda.”
Drottinn Jesús Kristur kallar söfnuðinn saman til guðsþjónustu og sendir hann síðan út til þjónustunnar við náungann. Þetta undirstrika einnig sakramentin tvö: skírn og kvöldmáltíð.
Innsetningarorð skírnarinnar senda út, en innsetningarorð kvöldmáltíðarinnar kalla söfnuðinn saman.
Eins og þegar söfnuðurinn rís úr sætum í lok messu og heldur heim, tjáir hann í hvert sinn sem hann rís úr sætum, vilja sinn til að láta senda sig út og verða gjörandi Orðsins en ekki aðeins heyrandi.
Meginreglan er því sú að söfnuðurinn undirstriki þátttöku sína og samþykki við því sem honum er boðað, með því að rísa úr sætum. Það þýðir að hann stendur ekki upp meðan verið er að ávarpa hann, þ.e. undir ávarpi prests eða á undan því, heldur rís söfnuður úr sætum um leið og hann svarar.
Gott dæmi um þetta er þegar prestur kynnir guðspjallið. Prestur tónar (eða mælir) Guðspjallið skrifar guðspjallamaðurinn Markús,- söfnuður rís úr sætum og syngur (eða mælir): Guði sé lof og dýrð fyrir sinn gleðilega boðskap.
Þessi regla, að söfnuður rísi úr sætum um leið og hann svarar er þó ekki einhlýt. Það er mjög miður, vegna þess að það veldur ruglingi og óvissu. Þannig svarar söfnuður nokkrum sinnum með orðunum: og með þínum anda, án þess að rísa úr sætum.
Þetta gerist þegar prestur tónar Drottinn sé með yður á undan bæn dagsins (kollektunni), og sömuleiðis þegar hann flytur Friðarkveðjuna sem svarað er með sama hætti.
Hver á að stjórna því hvenær standa skal eða sitja ? Það er ekki gott að prestur þurfi með bendingum að segja til um það. Það er betra að hann þá segi það beinlínis þegar það á við og er mögulegt, eins og t.d. : ,,Rísið úr sætum og meðtakið blessun Drottins.”
Best er þó að fela meðhjálpara þetta hlutverk.
Nauðsynlegt er að meðhjálpari sitji fremst í kirkju og leiði atferli safnaðarins í guðsþjónustunni. Alveg sérstaklega er þetta brýnt þegar margir koma til kirkju sem eru óvanir kirkjugöngu og sitja framarlega, eins og til dæmis aðstandendur skírnarbarna. Það gefur þeim öryggi og vellíðan að hafa vanan mann sér til halds og trausts, því varla langar nokkurn til að sýna það sérstaklega að kirkjusiðir séu honum ókunnir.
Meginreglur um það hvenær söfnuður stendur og situr eru þessar: Söfnuður getur risið úr sætum við messuupphaf þegar prestur og þau önnur sem aðstoða í messunni ganga inn, meðan sunginn er inngöngusálmur eða leikið á orgel. Þá tekur söfnuðurinn þátt í inngöngunni með sýnilegum hætti og tjáir þannig eftirvæntingu kirkjunnar sem gengur inn til fundar við hinn lifandi Drottin.
Þegar prestur er kominn að altari eða til sætis, sest söfnuðurinn. Ef ekki er skírn (sjá hér á eftir) þá situr söfnuðurinn þar til kemur að Dýrðarsöng.
Prestur tónar: Dýrð sé Guði í upphæðum. Þá rís söfnuður úr sætum og syngur: Og friður á jörðu og velþóknun yfir mönnunum. Síðan stendur hann áfram og syngur sálminn sem fylgir, eða framhald dýrðarsöngsins.
Hið sama gildir einnig þegar kór syngur dýrðarsönginn og söfnuðurinn hlustar.
Þegar sálmversi lýkur eða dýrðarsöng, sest söfnuðurinn, og hlýðir á heilsan, (Drottinn sé með yður/og með þínum anda), bæn dagsins, (kollektu) og lexíu og pistil sitjandi.
Þegar kemur að guðspjallskynningu rís söfnuður úr sætum, eins og fyrr segir, þegar prestur hefur tónað: Guðspjallið skrifar guðspjallamaðurinn .... Þá syngur söfnuðurinn standandi: Guði sé lof og dýrð fyrir sinn gleðilega boðskap. Söfnuður hlýðir á guðspjallið standandi og stendur áfram meðan hann fer með trúarjátninguna og sest að henni lokinni.
Hafi verið skírn fyrr í messunni var trúarjátning lesin þar og er þá ekki flutt eftir guðspjall. Í því tilfelli mælir prestur að loknum lestri guðspjalls: Vér höfum þegar játað trúna – eða annað þessu líkt, og sest þá söfnuður.
Lesi prestur af stóli sérstakt guðspjall sem hann leggur út af, rís söfnuður úr sætum þegar hann kynnir það og sest að því loknu.
Þegar predikun er lokið og prestur kynnir postullega blessun (postullega kveðju) rís söfnuður úr sætum og sest að henni lokinni.
Eins og í messunni yfirleitt, einkennist altarisgangan af víxlsöng eða víxllestri. Það er ávarp og andsvar sem kemur fram í beinu samtali prests og safnaðar (eins og í Drottinn sé með yður – og með þínum anda) en bygging þakkargjörðarinnar í inngangi altarisgöngunnar er með sama hætti.
Þar lýkur ávarpi prests í upphafi þakkargjörðar með söngnum ,,Heilagur, heilagur” og síðari hluta þakkargjörðar með söngnum ,,Ó, þú Guðs lamb.”
Venja er orðin að söfnuður rís úr sætum strax í upphafi þakkargjörðarinnar þegar sálminum fyrir altarisgöngu er lokið. Prestur tónar: Drottinn sé með yður. Söfnuður rís úr sætum og syngur: Og með þínum anda.
Söfnuðurinn stendur meðan framhaldið er sungið: P: Lyftum hjörtum vorum til himins.
S: Vér hefjum þau til Drottins. P: Látum oss þakka Drottni Guði vorum. S. Það er maklegt og rétt. Prestur tónar forgildið: ,,Sannlega er það maklegt og réttvíst ... “. Forsöngvari og söfnuður syngja: Heilagur, heilagur, heilagur ...
Þegar þessi söngur er sunginn til enda sest söfnuðurinn og rís ekki úr sætum aftur fyrr en hann gengur til altaris þegar sungið er: Ó þú Guðs lamb.
Þegar prestur syngur messulok: P: Þökkum Drottni og vegsömum hann, rís söfnuður úr sætum þegar þessi orð hafa verið tónuð og svarar: Drottni sé vegsemd og þakkargjörð. Prestur blessar og söfnuður stendur. Síðan sest hann og syngur lokasálm, nema hann hafi verið beðinn að standa meðan hann syngur síðasta sálminn.
Þegar prestur gengur til dyra rís söfnuður úr sætum og tjáir þannig vilja sinn til þess að fara út og þjóna Drottni.
Vert er að minnast þess að hin gömlu messulok á latínu: Ite, missa est, táknar í raun ekkert annað en þetta: Farið, þið eruð send.
Í Jesaja 6, heyrir spámaðurinn raust Drottins: Hann sagði: ,,Hvern skal ég senda? Hver vill vera erindreki vor?” Og ég sagði: ,,Hér er ég, send þú mig”.
Við aðrar athafnir kirkjunnar gilda þessar meginreglur:
Söfnuður stendur meðan barn er skírt. Venja er að rísa úr sætum þegar trúarjátningin er kynnt og standa síðan þar til hinni eiginlegu skírnarathöfn er lokið og prestur snýr sér til safnaðar og ávarpar hann: ,,Góð systkin, þér eruð vottar þess að þetta barn er nú skírt ...”.
Söfnuður rís úr sætum þegar brúður gengur inn kirkjugólf með sínum svaramanni, og sest þegar hún sest. Söfnuður situr eftir það nema að prestur flytji blessun í lok athafnar. Ef prestur flytur blessunarorðin yfir brúðhjónum einum með handayfirlagningu í lok bænar eftir hjónavígslu, rís söfnuðurinn ekki úr sætum fyrr en brúðhjónin ganga út.
Við útför situr söfnuður allt til moldunar, nema að staðið er undir guðspjalli eins og í messu. Þegar guðspjallið er kynnt, rís söfnuður úr sætum þótt hann svari ekki með sama hætti og í messunni. Sé moldað í kirkju rís söfnuður úr sætum þegar prestur gengur að kistunni til moldunar.
Sé ekki moldað í kirkju, heldur í garði, rís söfnuður úr sætum þegar kemur að blessuninni. Síðan stendur hann meðan sungið er og kistan borin út.