Stefnumót Guðs og manns

Guðsþjónustan: Stefnumót Guðs og manns.

Þessi orð sem eftirfylgja hefi ég sett undir yfirskriftina: Guðsþjónustan: Stefnumót Guðs og manns.

Hér á eftir munum við hugleiða guðsþjónustuna sjálfa, hina almennu, vikulegu samkomu safnaðarins, hvernig hún er og hvað hún er, og hinsvegar munum við reyna að sjá hvaða sess þessi sameiginlega guðsþjónusta skipar í lífi safnaðarins og hvernig hún lifir áfram í þjónustu safnaðarins innbyrðis.

Við getum velt fyrir okkur spurningum eins og þessum: Hvað gerist í guðsþjónustu safnaðarins, hver er ávöxtur hennar í lífi safnaðarins , hvert er markmið kirkjulegs starfs og hvaða tilgang hefur skipulagt starf til safnaðaruppbyggingar?

I. Guðsþjónustan - himnesk og jarðnesk.

Eins og það er í eðli mannsins að næra sig og hvílast, er það í eðli kristins manns að hafa samfélag við Guð og koma saman, fleiri og færri til sameiginlegrar tilbeiðslu. "Því að hvar sem tveir eða þrír eru samankomnir í mínu nafni, þar er ég mitt á meðal þeirra".(Matt.18.20).

Eitt höfuðeinkenni kristinnar trúar (og trúariðkunar) er að hún er hvorttveggja í senn: félag milli manna og milli manns og Guðs. Að trúin er félagsskapur milli manna kemur vel í ljós í því að við biðjum ekki: "Faðir minn, þú sem ert á himnum", heldur "Faðir vor", - hvort sem við biðjum sem hópur eða við biðjum ein.

Eins og blómið leitar næringar moldar og ljóss, leitar trúin næringar á jörðu og á himni. Hún leitar samfélagsins við Guð og samfélagsins "meðal vor innbyrðis", - eins og það er kallað á fornu bænamáli.

Hin "jarðneska" næring og hið "jarðneska" samfélag er guðsþjónusta safnaðarins. Hún er jarðnesk vegna þess að hún gerist á jörðu. Og vegna hins jarðneska getur okkur greint á t.d. um form og aðferðir. Einungis jarðnesk getur guðsþjónustan þó aldrei verið. Hún er einnig himnesk. Guð lítur hana með velþóknun. Það gerir hann vegna þess að hún er samkoma safnaðarins í nafni Jesú Krists. Sú er ein gild skýring á því hvað hún er.

Um það atriði er ekki ágreiningur meðal kristinna manna. Ágreiningur verður raunar aðeins þegar einhver, hópur eða einstaklingur, telur sig hafa fundið hið eina rétta og fullkomna guðsþjónustuform.

Frammi fyrir hástól Guðs á himnum syngja englarnir og vegsama Drottin án afláts. Hin fullkomna guðsþjónusta, hin fullkomna guðsdýrkun er ekki á jörðu heldur á himni. Þú gengur til hinnar fullkomnu guðsþjónustu þá fyrst, þegar þú slæst í hóp englanna sem lofsyngja nafni Drottins á himnum.

II. Guðsþjónustan og heimilið.

Við hverfum nú frá hinum himneska veruleika til hins jarðneska.
Á staðnum x er á sama sunnudegi messa klukkan 11.00 og knattspyrnukappleikur kl.15.00.
Við þurfum ekkert að velta fyrir okkur hvor atburðurinn nýtur meiri eftirtektar, eða aðsóknar. Það er augljóst. Flest annað það sem fram fer á helgum degi nýtur meiri eftirsóknar en sameiginlegt helgihald safnaðarins.

Það er nú einu sinni svo hér á meðal okkar, að ótrúlega fáir sækja kirkju. Það má segja sem svo að meðal almennings í þessu landi séu einungis fjórar viðurkenndar ástæður til kirkjugöngu: - Dauðinn, - skírn í fjölskyldunni eða - ferming, og kannski jólin.
Alvaran sem hér leynist að baki er ógnvænlega djúp. Spurningin um helgihaldið er í raun spurningin um það, hvort þessi þjóð ætlar að vera kristin áfram, eða trúa bara á mátt sinn og megin. Svo mikils virði er helgihaldið,- guðsþjónustan í lífi kristins manns.
Spurningin um form helgihaldsins og framkvæmd þess er í því samhengi hreint aukaatriði.
Það sem skiptir máli er helgihaldið sjálft: Að söfnuðurinn komi saman til guðsþjónustu, þar sem hlýtt er á orð Guðs og útleggingu þess, þar sem hann er lofaður í söngvum kirkjunnar, þar sem honum er þakkað fyrir velgjörðir hans, þar sem honum eru falin öll áhyggjuefnin og þar sem við tökum á móti blessun hans í brauði og víni.
Hið sameiginlega helgihald safnaðarins er stefnumark alls kristnilífs í söfnuðinum. En það hefst ekki klukkan 11 eða 14 á sunnudegi, heldur á vissu augnabliki ævinnar, - venjulega utan kirkjuhússins. Og þar erum við líka komin að tengslum guðsþjónustu og safnaðaruppbyggingar.

Hvar er lagður grunnur helgihalds kirkjunnar, - grunnur guðsþjónustulífs kirkjunnar? Hver hann er vitum við: "Annan grundvöll getur enginn lagt en þann, sem lagður er, sem er Jesús Kristur." 1.Kor.3.11.
Jesús Kristur sendir lærisveina sína, og þar með einnig okkur og segir: "Farið út um allan heim og predikið fagnaðarerindið öllu mannkyni" (Mark. 16.15)
Jesús Kristur kallar lærisveina sína, og þar með einnig okkur, til máltíðar sinnar og segir "Gjörið þetta í mína minningu" . (Lk. 22.19b). Þau sem höndluð hafa verið af þessum boðskap eru kölluð til þess að koma á fyrsta stefnumóti Guðs og manns í lífi nýs einstaklings.
Í grundvelli helgihalds kristinnar kirkju er bæn og signing móður og föður yfir vöggu barns síns.

Þýski guðfræðingurinn Edmund Schlink segir eitthvað á þessa leið í riti sínu Ökumenische Dogmatik (S.558)
1. Kirkjan er lýður Guðs, sem boðskapur Jesú Krists hefur kallað út úr heiminum.
2. Kirkjan er lýður Guðs, sem sendur er inn í heiminn til að flytja honum boðskap
Jesú Krists.
3. Vegna lifandi nærveru Krists sem gefur sjálfan sig og fyrir áhrif heilags anda er
hin sameiginlega guðsþjónusta miðja þessarar tvöföldu hreyfingar kirkjunnar sem kölluð er út úr heiminum og send inn í hann."

Þessar tvær grundvallareigindir kirkjunnar, að hún er kölluð saman og send út, heyra saman og verða ekki aðskildar. Þannig starfaði einnig Jesús sjálfur. Annarsvegar sjáum við hann að starfi, hinsvegar einan við bæn og íhugun.

Um þetta atriði segir Schlink: (bls 571) "Aðeins þá megnar kirkjan að starfa í heiminum og inn í heiminn til líknar og lausnar ef hún lætur kalla sig aftur og aftur úr heiminum, út til uppruna síns, og aðeins þá er hún laus úr fjötrum þessa heims þegar hún lætur senda sig inn í hann. Ef hún lætur ekki kalla sig aftur og aftur að uppruna sínum, sem ekki er af þessum heimi þá hefur hún um síðir ekkert að segja heiminum sem hann ekki áður vissi, og hún verður að magnara fyrir raddir þessa heims. Hún verður aftur að einum hluta þeirrar mennsku sem gleymir Guði, og vingsast til og frá milli útópíu og vonleysis."

Og enn skrifar Schlink: (bls 572) "Kirkjan er lýður Guðs, kallaður úr úr heiminum og sendur inn í hann og á miðju lífs síns í sameiginlegri guðsþjónustu sinni. Inn í hana er manneskjan kölluð með fagnaðarerindinu og út úr henni er hún síðan send inn í heiminn".

Grunnurinn sem við byggjum á og mótaður er í guðfræðilega hugsun eins og hér var greint, er lagður með því að það sem við höfum tekið í arf gefum við börnum okkar. Um leið og við þökkum Guði fyrir lífgjöf hans þegar við tökum á móti barni, þá hefst guðsþjónustan sem aldrei lýkur. Undanfari hennar er sú þökk sem stígur upp úr hjarta foreldris þegar líf hefur kviknað í móðurkviði og hin fyrsta bæn fyrir lífi og framtíð hins nýja einstaklings. Það er fyrsta helgihaldið í lífi barns. Svo fylgir signingin yfir vögguna, og bænarorð fyrir nótt og fyrir nýjan dag.
Allt sem síðar gerist, bænirnar og versin sem þau læra, kirkjugangan, kristinfræðikennslan, fermingarfræðslan, miðar að sameiginlegu helgihaldi, frá hinni fyrstu signingu yfir vöggu, til hinnar síðustu signingar yfir gröf.
Þannig lifir og nærist helgihaldið í kirkjunni af helgihaldi heimilisins.
Þessi setning hljómar vel, - en henni fylgir spurning:
Hvar er þetta helgihald heimilisins, sem stefnir til kirkju?

Í umræðunni um helgihaldið kemur skýrt fram að sameiginleg guðsþjón-usta safnaðarins er næsta einangraður atburður í lífi fólks. Hún getur jafnvel verið einangraður atburður í lífi þeirra sem þó sækja guðsþjónustu reglulega, - svo einangraður að henni er frekar sleppt ef gestir koma á messutíma heldur en að taka þá með til kirkju.

Ef þessi eina klukkustund hinnar sameiginlegu guðsþjónustu á sunnudegi er ekki hápunktur í daglegu helgihaldi safnaðar og einstaklings, heldur fer ekkert annað helgihald fram í lífi hans, þá er ekki von til þess að guðsþjónustan lifi, og sé sótt og rækt.

Bænin í kirkjunni verður óskiljanleg ef aldrei er beðið bænar utan kirkju. Og hvernig getur nokkur fylgst með lestrum úr ritningunni þegar tungutak hennar er framandi af því að heyrandinn hefir aldrei lagt sig eftir því að læra það. Og hvernig getur nokkur ratað að máltíð Drottins, ef það er gleymt að sérhver málsverður á jörðu er þeginn úr hendi Guðs.

Það hlutverk sem okkur er falið á hendur, um leið og við tökum á móti barni í þennan heim, það hlutverk sem við erum minnt á í skírninni, hlutverk foreldra og guðforeldra jafnt, er líka fólgið í því að kenna börnunum að rata leiðina til kirkju.

Þetta hlutverk foreldra og guðforeldra virðist víða gleymt. Þessvegna er svo dýrmætt að kirkjan á staðnum taki frumkvæðið og annist sjálf helgihald fyrir börn og skipuleggi barnastarf. Því það er auðvitað tilgangslaust að kenna börnunum að rata til kirkju, ef hún stendur bara og þegir, og þar fer ekkert fram.

III. Guðsþjónustan. Upphaf og forsenda.

Það er eðli kristins safnaðar að koma saman til guðsþjónustu. Þannig verður kirkja Krists á jörðu sýnileg. Form samkomuhaldsins getur að sjálfsögðu verið mismunandi, þótt yfirleitt sé fylgt nokkurn vegin einni meginreglu um aðal guðsþjónustu sunnudagsins, eins og rakið verður hér á eftir. Þó er rétt að árétta það sem fyrr var sagt, að hið eiginlega form, eða "ritual" er ekki meginatriðið á samkomum safnaðarins, heldur að "helgihald í húsi Guðs" (Liturgía-sjá síðar) fari fram.Messugjörðin þarf að vera staðurinn þar sem þér líður vel, nema þegar þér verður heilsusamlega órótt vegna þess sem Guð segir við þig.

Þar skiptir miklu máli, að fólkið kunni það sem verið er að gera, og sníði sér stakk eftir vexti.
Þér líður vel, af því að þú veist hvað kemur næst. Þú veist hvað kemur næst, annað hvort af því að svona var þetta líka síðast, eða af því að það er nýbúið að segja þér hvað kemur næst.
Svo einfalt er þetta.
Er þá alveg sama hvernig messað er ?

Nei, svo sannarlega ekki.
Guð gerir sköpun úr óskapnaði. Þannig verður veröld okkar til. Guð kemur á reglu þar sem óreglan er.
Guðsþjónusta er reglubundin þjónusta, af því að hún fer fram reglulega, á reglubundnum tíma og með reglubundnum hætti.
Hin reglubundna uppbygging hinnar sameiginlegu guðsþjónustu eða messu sunnudagsins er í grófum dráttum þessi:
Fyrsti hluti hennar inniheldur syndajátningu, inngöngusálm, annaðhvort Biblíusálm, eða sálm úr sálmabók, miskunnarbæn, dýrðarsöng hinn meiri, Gloria in excelsis og bæn dagsins, kollektuna.
Annar hlutinn er þjónusta orðsins. Hann hefur að geyma ritningarlestra dagsins, trúarjátningu, predikun og almenna kirkjubæn og þá söngva úr sálmabók sem hinu lesna orði fylgja.
Þriðji hlutinn er svo samfélagið um borð Drottins, með þakkargjörð og lofsöng, og fjórði og síðasti hlutinn er blessun til nýrrar þjónustu og lokasálmur.

Hversvegna skyldi uppbyggingin vera með þessum hætti.?

Guðsþjónustan er stefnumót. Hún er stefnumót elskenda. Hún er stefnumót og samtal Guðs og manns.
Við þekkjum það nú kannski úr eigin lífi að samræður á stefnumóti elskenda geta verið dálítið með sérstökum hætti. Aðalatriðið er þó það að serhvert orð fær nýja vídd vegna nærverunnar. Ef ég segi: Ég elska þig, þá sný ég ekki baki að honum eða henni sem ég elska. Öll tilvera mín á því augnabliki er það að ég elska.
Meginhugsun messunnar er, sem fyrr segir, að í henni á sér stað samtal. Guð ávarpar þig. Þú talar við Guð. Hinn upprisni Drottinn er nálægur þér í orði sínu og anda, og í efnum kvöldmáltíðarinnar.
Guð er nálægur í Jesú Kristi sem bróðir þinn, stundum þjáningabróðir þinn, og fæddist þín vegna á jörðu. Hann er hjá þér.
Um leið er hann fjarlægur, sem faðirinn, skaparinn, sá sem býr í ljósi sem enginn fær til komist, sem enginn maður leit, né litið getur. (Sjá 1.Tím.6.16).Þetta hvorutveggja, nálægðina og fjarlægðina, undirstrikar messan, með því að bendir á að í Kristi Jesú eigum við aðgang að hinu fjarlæga og hulda í dýrð Guðs.
Erindi mitt í Guðs hús er undirstrikað í gömlu meðhjálparabæninni: Ég er kominn í hið heilaga hús til að heyra hvað Guð segir við mig og til þess sjálfur eða sjálf að lofa hann og ákalla.
Það er svo ekki messunni sjálfri að kenna sem athöfn, formi hennar, tíma og kringumstæðum, ef ég einangra hana, loka hana inni í sjálfri sér og sjálfum mér svo að sú merking hennar gleymist að ég hefi líka hlutverki að gegna utan messunnar, þ.e að bera honum vitni með lífi mínu og í lífi mínu.
Þátttaka mín í messunni er þrennskonar. Hún er tjáð með orðunum "liturgía", eða þjónustan í húsi Guðs, "diakonia" eða þjónustan við náungann (safnaðarþjónustan) og "martyria" sem er boðunarþjónustan, mitt eigið kristniboð til heimsins og til náungans.
Sérhver guðsþjónusta er þjónusta Guðs við mann. Við okkur. Hún er og þjónusta okkar við hvert annað, í samfélaginu, í Kristi, og á þann veg er hún miðja safnaðarþjónustunnar og þar með miðja alls lífs safnaðarins. Hún er skyldug þjónusta okkar við Guð í formi lofgjörðar og þakkargjörðar að því leyti sem hægt er að kalla tilbeiðsluna þjónustu. Upphaf hennar er Guð.

Forsenda guðsþjónustunnar er að til er Guð sem hægt er að snúa sér til og eiga samfélag við. Athöfnin sjálf byggir á nærveru hans. Kristur er sjálfur nær og með honum allt það verk sem hann vann okkur og heiminum til hjálpar. Saga hans okkur til hjálpar, hjálpræðissagan, lifandi og virk, er kjarni kristinnar guðsþjónustu.
Þegar hún er rifjuð upp í guðsþjónustunni er hún um leið okkar eigin saga, vegna hinnar lifandi nálægðar Jesú sjálfs. Orð og athöfn messunnar fylgja þessari sögu, og eru á sama tíma sviðsetning hennar og endurlifun.

IV. Guðsþjónustan: Boðskapur og bakgrunnur.

Hvað er þá guðsþjónusta? Hún er samkoma safnaðar í nafni Jesú Krists.
Hvað er messa ? Hún er neysla heilagrar kvöldmáltíðar á þessari samkomu.
Þannig hafa vísir menn skýrt hina opinberu samkomu safnaðarins.
Hversvegna sækjum við messu?
Við göngum til fundar við hinn upprisna Drottin svo að við megum umbreytast æ meir til hans myndar.
Messan í heild er kall til trúar og til þjónustu. Hún safnar saman og sendir svo burt. Miðja hennar er máltíð Drottins, endurnæring, endurnýjun til lífs og sálar, umbreyting til líkingar Drottins í þjónustunni í eftirfylgdinni sérhvern dag.

V. Guðsþjónustan og líf safnaðarins.

Í rauninni væri það eitt ítarleg umfjöllun um þessa millifyrirsögn "Guðsþjónustan í lífi safnaðarins", að taka úr henni tvo bókstafi og setja aðra tvo í staðinn: Guðsþjónustan er líf safnaðarins.
Þá hljótum við að verða að bera fram spurninguna : Hvar eru þau sem lifa guðsþjónustulífi? Ef guðsþjónustan er líf safnaðarins, hversvegna koma þá ekki fleiri til guðsþjónustu ?
Ég veit það ekki. Víst er þó, að það hefur enginn boðið þeim sem ekki komu, með þeim hætti að þau tækju boðið til sín. Það hefur enginn sagt þeim að við sem komum söknuðum þeirra. Það hefur enginn sagt þeim að þau gætu átt frátekið sæti í kirkjunni. Líklega hefur heldur enginn boðið eða veitt þeim aðstoð við eigið helgihald þeirra á heimili og vinnustað.
En það er meira. Sé það hin "jarðneska" samkoma safnaðarins sem boðað er til, þá er ekki meiri ástæða til að sækja hana en t.d. pólitískan fund. Í hinni "jarðnesku" guðsþjónustu greinir okkur á um formið, þar talar presturinn öðruvísi en við vildum og kórinn syngur verr en við vildum og sætin eru harðari en við vildum, - af því að hin "himneska" þátttaka er gleymd.
Skyldi vera hægt að eyða svo miklu af kröftum sínum í að gera við þakið að himininn megni ekki að stíga niður yfir þau sem eru að syngja Guði lof á jörðu?

Þú gengur til guðsþjónustu til að mæta hinum upprisna Drottni. Hann gengur til móts við þig þar, eins og á móti blindu mönnunum við veginn, sem hrópuðu: "Kristur, Drottinn, miskunna þú oss". Hann sem mætir þér, er sá sem miskunnar þegar enga miskunn er að finna á jörðu. Þessari játningu er síðan svarað með því að taka undir lofsöng englanna: "Dýrð sé Guði í upphæðum og friður á jörðu",- hann sem er lausnari þinn, er fædd-ur á jörðu. Þessi lofsöngur endurómar enn í játningu trúarinnar og undir þeim lofsöng megum við biðja hann um allt og fela honum allt og þakka honum allt, og lúta honum síðan við borðið þar sem hann gefur okkur fæðu sína til lífsgöngunnar sem endar við hástól hans. Þar sem guðsþjónustan þín, sem byrjuð var á jörðu, fullkomnast.

Upphaf og grundvöllur tilbeiðslu og guðsdýrkunar kristninnar er að Orðið, sem í upphafi var, það varð hold.

VI. Lokaorð.

Helgihald safnaðanna lifir og nærist af því helgihaldi sem fram fer í lífi hvers og eins. Það hefst við fyrstu signingu barns og finnur fyllingu sína í þátttöku í hinni almennu tilbeiðslu.
Í miðju helgihaldi safnaðarins er guðsþjónustan.
Hún kann að vera með ýmislegu yfirbragði, en innihald hennar er einungis eitt: Jesús er þar sjálfur í miðjum hópi barna sinna.
Í guðsþjónustu safnaðarins tekur þú þér stöðu í hópi þeirra sem tilbiðja hann á himni og á jörðu. Sundrungin er fjarri. Hin fullkomna guðsþjónusta á himnum stígur niður yfir þig.
Söfnuðurinn er hópur fólks á sömu leið, til fundar við Drottin, til hátíðar á himnum. Það stefnumark einkennir líf þess. Samkomur þeirra í nafni Jesú Krists helgast af því.
Hátíðin sjálf, hin komandi hátíð á himni, verður lifandi og virk við borð Drottins, þar sem mætast himinn og jörð. "Sá Guð, sem hæst á himni situr, er hér á jörð oss nær". Jesús Kristur, sá sem situr í hásæti himnanna, er hér á jörð.
Söfnuðurinn kemur saman á helgum stað og syngur Guði lof. Þeirri lofgjörð linnir ekki þótt hringt sé út, heldur breytist hún í þjónustu við meðbræður og systur meðan dagur er. Því að líf kristins manns og kristins safnaðar er guðsþjónusta.
Það er margt líkt með göngu okkar, hins kristna safnaðar, og göngu mannanna tveggja sem forðum héldu frá Jerúsalem til Emmaus, hálfgert í flótta og vonleysi vegna þess að Jesús þeirra var krossfestur.

Jesús gekk til þeirra á leiðinni, augu þeirra voru haldin svo að þeir þekktu hann ekki, en þeir námu staðar, - þeir sendu hann ekki burt, snéru ekki baki við honum, heldur hlustuðu á orð hans og báðu hann síðast að koma inn með sér og neyta með sér kvöldverðar, og þá lukust upp augu þeirra og þeir þekktu hann. Jesús stöðvaði flóttann, Jesús bægði vonleysinu burtu, Jesús styrkti þá með návist sinni.

Í hvert eitt sinn sem við göngum út um kirkjudyr frá því að hafa heyrt orð Drottins og þegið næringu við borð hans erum við send á slíka Emmausgöngu, send upp að hlið náungans með skilaboðin um að hinn upprisni kemur sjálfur til þess að brjóta brauðið við borðið sitt og að við eigum öll að koma. Og ef það eru gild forföll þá eigum við að fara til þeirra með máltíðina, því að þetta er hin mikla kvöldmáltíð á himni og á jörðu, og forsmekkur hinnar himnesku, við endi aldanna.

Jesús kunngjörir lærisveinunum: "Sjá, vér förum upp til Jerúsalem".Förum með honum.