Hjónavígsla nýtt ritual

Hjónavígsla
Form í samræmi við ný hjúskaparlög. Til reynslu

Forspil

Undir forspili ganga hjónaefni inn kirkjugólf og taka sér sæti í kór, eða annað hjónaefna situr í kór ásamt sínum svaramanni meðan hitt gengur inn kirkjugólf með sínum svaramanni.

Upphaf

P Í nafni Guðs, föður og sonar og heilags anda. A Amen.
P Hjálp vor kemur frá Drottni.
A Skapara himins og jarðar.

P Undursamleg eru verk þín Drottinn Guð vor. Undursamlega skapaðir þú manninn í þinni mynd, þú skapaðir hann í Guðs mynd. (Þú skapaðir hann karl og konu). Af elsku þinni er lífið runnið og til þín er því stefnt. Fyrir lífið og ástina lofum við þig.

Almáttugi eilífi Guð, lít í náð þinni þessi hjónaefni, sem biðja um blessun þína yfir hjúskap sinn. Heyr bænir þeirra og hjálpa þeim að lifa saman samkvæmt orði þínu. Fyrir Jesú Krist, Drottin vorn. Amen.

Sálmur Ávarp

Í stað þessa ávarps eða auk þess getur prestur flutt hjónavígslupredikun.

P Frammi fyrir Guðs augliti komum við saman þegar þið NN og NN játist ævitryggðum og eruð gefin/ gefnar/ gefnir/ saman í hjónaband. Við erum hér til að biðja um blessun Guðs yfir ykkur og til að deila gleðinni með ykkur.

Hjónabandið er heilagur sáttmáli, sem Guð, skapari himins og jarðar hefur stofnað til og blessar. Hjónabandinu er ætlað að nærast af kærleikanum sem er frá Guði kominn og gefa hann áfram. Þess vegna er það hlutverk ykkar að elska og virða hvort annað/ hvor aðra/ hvor annan. Allt sem þið eruð og eigið verður héðan í frá sameign ykkar til að eiga saman, takast á við, njóta og sigra saman, eitt í vilja og verki. Sameiginlega berið þið ábyrgð á heimilinu (og á kristnu uppeldi barnanna). Saman eigið þið að standa við hlið hvort annars / hvor annarar / hvor annars / í tryggð og trúfesti, í gleði og sorg, á björtum dögum og dimmum. Í bæn og guðsþjónustu, í orði Guðs og sakramenti megið þið þiggja kraft til þess.

Í hjónabandinu eru fólgin mikil auðævi. Þegar hjón lifa saman í fyrirgefningu Guðs þiggja þau hjálp hans til skilnings og fyrirgefningar. Og vilji Guðs verður í lífi þeirra.

1

Ritningarlestrar

Lesa má tvo eða fleiri lestra. Sjá tillögur að viðbótarlestrum síðar.

P (eða annar lesari)
Heyrum nú hvað frelsari vor og Drottinn Jesús Kristur segir um hjónabandið og samfélag lærisveina sinna:

P Hafið þér eigi lesið, að skaparinn gjörði þau frá upphafi karl og konu og sagði: Fyrir því skal maður yfirgefa föður og móður og búa með konu sinni, og þau tvö skulu verða einn maður. Þannig eru þau ekki framar tvö heldur einn maður. Það sem Guð hefur tengt saman, má eigi maðurinn sundur skilja.“ (Matt. 19. 4-6).

Nýtt boðorð gef ég yður, að þér elskið hvert annað. Eins og ég hef elskað yður, skuluð þér einnig elska hvert annað. Á því munu allir þekkja, að þér eruð mínir lærisveinar, ef þér berið elsku hver til annars.“ (Jóh. 13. 34-35).

Heyrum ennfremur orð Páls postula:
Berið hvert annars byrðar og uppfyllið þannig lögmál Krists.“ (Gal. 6. 2).

Íklæðist því eins og Guðs útvalin, heilög og elskuð börn hjartagróinni meðaumkun, góðvild, auðmýkt, hógværð og langlyndi. Umberið hvert annað og fyrirgefið hvert öðru, ef einhver hefur sök á hendur öðrum. Eins og Drottinn hefur fyrirgefið ykkur, svo skuluð þér og gjöra. En íklæðist yfir allt þetta elskunni, sem er bindur allt saman og fullkomnar allt. Látið frið Krists ríkja í hjörtum ykkar, því að til friðar voruð þið kölluð sem limi í einum líkama. Verðið þakklát. (Kól. 3. 12-15).

Þótt ég talaði tungum manna og engla
en hefði ekki kærleika
væri ég hljómandi málmur eða hvellandi bjalla.
Og þótt ég hefði spádómsgáfu
og vissi alla leyndardóma og ætti alla þekking
og þótt ég hefði svo takmarkalausa trú að færa mætti fjöll úr stað
en hefði ekki kærleika,
væri ég ekki neitt.
Og þótt ég deildi út öllum eigum mínum
og þótt ég framseldi líkama minn til þess að verða brenndur
en hefði ekki kærleika,
væri ég engu bættari.
Kærleikurinn er langlyndur, hann er góðviljaður. Kærleikurinn öfundar ekki. Kærleikurinn er ekki raupsamur, hreykir sér ekki upp.
Hann hegðar sér ekki ósæmilega, leitar ekki síns eigin,
hann reiðist ekki, er ekki langrækinn.
Hann gleðst ekki yfir óréttvísinni en samgleðst sannleikanum.
Hann breiðir yfir allt, trúir öllu, vonar allt, umber allt.

2

Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi.
En spádómsgáfur, þær munu líða undir lok,
og tungur, þær munu þagna, og þekking, hún mun líða undir lok. Því að þekking vor er í molum og spádómur vor er í molum.
En þegar hið fullkomna kemur líður það undir lok sem er í molum. Þegar ég var barn talaði ég eins og barn,
hugsaði eins og barn og ályktaði eins og barn.
En þegar ég var orðinn fulltíða lagði ég niður barnaskapinn.
Nú sjáum vér svo sem í skuggsjá, í ráðgátu,
en þá munum vér sjá augliti til auglitis.
Nú er þekking mín í molum
en þá mun ég gjörþekkja eins og ég er sjálfur gjörþekktur orðinn. En nú varir trú, von og kærleikur, þetta þrennt,
en þeirra er kærleikurinn mestur.
Keppið eftir kærleikanum. (1.Kor.13.-14.1a)

Ritað er í Rutarbók:
En Rut sagði: „Leggðu eigi að mér um það að yfirgefa þig og hverfa aftur, en fara eigi með þér, því að hvert sem þú ferð þangað fer ég, og hvar sem þú náttar þar nátta ég. Þitt fólk er mitt fólk og þinn guð er minn guð. Hvar sem þú deyrð þar dey ég og þar vil ég verða grafin. Hvað sem Drottinn lætur fram við mig koma, þá skal dauðinn einn aðskilja mig og þig.“ (Rut. 1. 16-17)

Sálmur (eða önnur tónlist)
Spurningar og handsal
Hjónaefni ganga að altarisgráðum og standa þar. Svaramenn standa sinn hvoru megin.

P Nú spyr ég þig NN. Er það einlægur ásetningur þinn að ganga að eiga NN sem hjá þér stendur.
Svar: Já

Vilt þú með Guðs hjálp reynast henni/ honum trú(r), elska hann/ hana og virða í hverjum þeim kjörum sem Guð lætur ykkur að höndum bera?
Svar: Já

Sömuleiðis spyr ég þig NN: Er það einlægur ásetningur þinn að ganga að eiga NN, sem hjá þér stendur?
Svar: Já

Vilt þú með Guðs hjálp reynast honum/ henni trú(r), elska hann/ hana og virða í hverjum þeim kjörum sem Guð lætur ykkur
að höndum bera?
Svar: Já

3

Valkostur um síðari spurninguna:

P Takist í hendur og lýsið yfir ásetningi ykkar um tryggð og trúfesti með því að hafa yfir eftirfarandi orð: (Prestur les fyrir eftirfarandi texta, með hvoru hjónaefna í senn, eina setningu í einu).

Ég NN nefni nafnið þitt NN í kærleika og gleði, frammi fyrir augliti Guðs og þessara votta (þessa safnaðar).
Ég heiti því að deila þínu lífi með mínu um alla framtíð.
Ég heiti þér tryggð og trúfesti.

Ég vil standa með þér alla daga í blíðu og stríðu.
Ég vil leitast við að ganga með þér á vegum Guðs, í Jesú nafni.

Sé skipst á hringum við athöfnina,snýr prestur að altari og biður eftirfarandi bænar yfir hringunum:
Algóði Guð, kærleikans faðir, blessa þessa hringa og gef að þeir verði þeim sem hér gefast hvort öðru/hvor annarri/hvor öðrum/ ævarandi tákn ástar og trúfesti í Jesú nafni. Amen.

Prestur réttir hjónunum hringana með þessum orðum:

Dragið hring á hönd hvort öðru/ hvor annarri / hvor öðrum.

Því næst mælir presturinn:

Gefið nú hvort öðru / hvor annarri / hvor öðrum/ hægri hönd ykkar þessum sáttmála til staðfestu.

Prestur leggur hægri hönd yfir hendur hjónanna og segir:

Með því að þið hafið heitið hvort öðru /hvor annarri / hvor öðrum ást, virðingu og tryggð í hjónabandi og játað þetta opinberlega í áheyrn þessara votta (þessa safnaðar) og gefið hvort öðru hvor annarri / hvor öðrum hönd ykkar því til staðfestu, lýsi ég því yfir að þið eruð hjón. Í nafni Guðs + föður og sonar og heilags anda. Amen.

Þá krjúpa hjónin á gráðurnar, en presturinn snýr sér að altarinu og biður einhverrar eftirfarandi bæna..

Látum oss biðja.

P Vér biðjum þig Guð fyrir N og N. Varðveit þau / þær/ þá í kærleika þínum og lát skilning þeirra og trúfesti vaxa á samleið þeirra í hjónabandi. Vak yfir lífsgæfu þeirra, varðveit með þeim gleði góðvild og umhyggju gagnvart þeim sem tilheyra lífi þeirra. Fylg þeim með blessun þinni alla daga sem þú gefur þeim. Blessa heimili þeirra og ástvini alla. Hjálpa oss öllum til að taka hvert annað að oss eins og Kristur hefur tekið oss að sér.

Svar: Amen.

4

Eða: Algóði Guð, himneski faðir, blessa N og N og þau helgu heit sem þau/þeir/ þær unnu fyrir augliti þínu. Vak yfir þeim og vernda þau/þær/þá. Hjálpa þeim að halda heit sín og vera hvort öðru/ hvor annarri / hvor öðrum sú gæfa og blessun sem þau/þeir/þær þrá og þú ætlast til. Blessa heimili þeirra og ástvini og gef að allt sem þú lætur þeim að höndum bera verði þeim til góðs og til vitnisburðar um blessun þína sem engum bregst sem á þig vona, í Jesú nafni.

Svar: Amen.

Eða: Drottinn Guð, himneski faðir, þú sem hefur skapað karl og konu og ákvarðað þau til hjúskapar og hefur viðhaldið þessari skipan þinni og blessun allt til þessa, vér biðjum þig að varðveita og blessa þessi brúðhjón, svo að allt, sem þú lætur þeim að höndum bera, verði þeim til góðs og þínu heilaga nafni til lofs og dýrðar. Fyrir son þinn Jesú Krist, Drottin vorn, sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.

Svar: Amen.

Faðir vor og blessun – með handayfirlagningu

Prestur leggur hendur á höfuð hjónanna og segir:

P Biðjum saman bæn Drottins. A Faðir vor...

P Takið blessun Drottins. Drottinn blessi þig....

A Amen

(Eða þessi blessunarorð ef hin drottinlega blessun er flutt síðar í athöfninni.

Almáttugur Guð, Faðir og Sonur og Heilagur Andi blessi og varðveiti hjúskap ykkar. Amen.

Sálmur (eða önnur tónlist )

Útganga og eftirspil

Ef vill geta hjónin tekið sér sæti eftir Faðir vor og hlýtt á sálm eða aðra tónlist við hæfi. Að henni lokinni lýsir prestur drottinlegri blessun og hjónin ganga út.

_______________________________________________________________________

5

Aðrir ritningarlestrar að vali

Ljóðaljóðin 8. 6-7

Settu mig sem innsigli á hjarta þitt, eins og innsigli á arm þinn,
því að ástin er sterk eins og dauðinn hún er brennandi bál,

skíðlogandi eldur.
Vatnsflaumur fær ekki slökkt ástina, stórfljót ekki drekkt henni.

Sálmur 100

Öll veröldin fagni fyrir Drottni.
Þjónið Drottni með gleði,
komið fyrir auglit hans með fagnaðarsöng. Játið að Drottinn er Guð,
hann hefur skapað oss og hans erum vér, lýður hans og gæsluhjörð.
Gangið inn um hlið hans með þakkargjörð, í forgarða hans með lofsöng.
Lofið hann, tignið nafn hans,
því að Drottinn er góður,
miskunn hans varir að eilífu
og trúfesti hans frá kyni til kyns.

Sálmur 108. 1-5

Hjarta mitt er stöðugt, ó Guð, ég vil syngja og leika.
Vakna þú, sál mín,
vakna þú, harpa og gígja,

ég ætla að vekja morgunroðann.
Ég lofa þig meðal lýðanna, Drottinn, vegsama þig meðal þjóðanna
því að miskunn þín nær til himna
og trúfesti þín til skýjanna.

Róm.12. 9-13.
Elskan sé flærðarlaus. Hafið andstyggð á hinu vonda en haldið fast við hið góða. Verið ástúðleg hvert við annað í bróðurlegum kærleika og keppist um að sýna hvert öðru

6

virðingu. Verið ekki hálfvolg í áhuganum, verið brennandi í andanum. Þjónið Drottni. Verið glöð í voninni, þolinmóð í þjáningunni, staðföst í bæninni. Takið þátt í þörfum heilagra. Leggið stund á gestrisni.

Fil 2.1-5
Fyrst Kristur veitir kjark, fyrst kærleikur hans uppörvar, fyrst andi hans skapar samfélag, fyrst þar ríkir hlýja og samúð gerið þá gleði mína fullkomna með því að vera einhuga, hafa sama kærleika, einn hug og eina sál. Gerið ekkert af eigingirni eða hégómagirnd. Verið lítillát og metið hvert annað meira en ykkur sjálf. Lítið ekki aðeins á eigin hag heldur einnig annarra. Verið með sama hugarfari sem Kristur Jesús var.

1.Jóh. 3.18-24,

Börnin mín, elskum ekki með tómum orðum heldur í verki og sannleika.
Af þessu munum við þekkja að við erum sannleikans megin og munum geta friðað hjörtu okkar frammi fyrir honum, hvað sem hjarta okkar kann að dæma okkur fyrir. Því að Guð er meiri en hjarta okkar og þekkir allt. Þið elskuðu, ef hjartað dæmir okkur ekki, þá höfum við djörfung til Guðs. Og hvað sem við biðjum um fáum við hjá honum af því að við höldum boðorð hans og gerum það sem honum er þóknanlegt. Og þetta er hans boðorð, að við skulum trúa á nafn sonar hans Jesú Krists og elska hvert annað, samkvæmt því sem hann hefur gefið okkur boðorð um. Sá sem heldur boðorð Guðs er stöðugur í Guði og Guð í honum. Að hann er stöðugur í okkur þekkjum við af andanum sem hann hefur gefið okkur.

1. Jóh.4.7-21,

Þið elskuðu, elskum hvert annað því að kærleikurinn er frá Guði kominn og hver sem elskar er barn Guðs og þekkir Guð. Sá sem ekki elskar þekkir ekki Guð því að Guð er kærleikur. Í því birtist kærleikur Guðs til okkar að Guð hefur sent einkason sinn í heiminn til þess að hann skyldi veita okkur nýtt líf. Þetta er kærleikurinn: Ekki að við elskuðum Guð heldur að hann elskaði okkur og sendi son sinn til að vera friðþæging fyrir syndir okkar. Þið elskuðu, fyrst Guð hefur elskað okkur svo mikið þá ber okkur einnig að elska hvert annað.

Matt. 5.1-16,

Þegar Jesús sá mannfjöldann gekk hann upp á fjallið. Þar settist hann og lærisveinar hans komu til hans. Þá hóf hann að kenna þeim og sagði:
„Sælir eru fátækir í anda
því að þeirra er himnaríki.

Sælir eru syrgjendur
því að þeir munu huggaðir verða.
Sælir eru hógværir
því að þeir munu jörðina erfa.
Sælir eru þeir sem hungrar og þyrstir eftir réttlætinu

7

því að þeir munu saddir verða.
Sælir eru miskunnsamir
því að þeim mun miskunnað verða.
Sælir eru hjartahreinir
því að þeir munu Guð sjá.
Sælir eru friðflytjendur
því að þeir munu Guðs börn kallaðir verða.
Sælir eru þeir sem ofsóttir eru fyrir réttlætis sakir
því að þeirra er himnaríki.
Sæl eruð þér þá er menn smána yður, ofsækja og ljúga á yður öllu illu mín vegna. Gleðjist og fagnið því að laun yðar eru mikil á himnum. Þannig ofsóttu þeir spámennina sem voru á undan yður.

Þér eruð salt jarðar. Ef saltið dofnar, með hverju á að selta það? Það er þá til einskis nýtt, menn fleygja því og troða undir fótum.
Þér eruð ljós heimsins. Borg, sem á fjalli stendur, fær ekki dulist. Ekki kveikja menn heldur ljós og setja undir mæliker heldur á ljósastiku og þá lýsir það öllum í húsinu. Þannig lýsi ljós yðar meðal mannanna að þeir sjái góð verk yðar og vegsami föður yðar sem er á himnum.

8