Útför að kristnum sið

 

Útför að kristnum sið.

 Þótt líkaminn falli að foldu
og felist sem stráið í moldu,
þá megnar Guðs miskunnarkraftur
af moldum að vekja hann aftur.

Sá andi, sem áður þar gisti
frá eilífum frelsara, Kristi,
mun, leystur úr læðingi, bíða
þess líkams, sem englarnir skrýða.  (Sb 274)

Góðir tilheyrendur.

Biblían veitir okkur ekki innsýn í það sem einkenna skal kristna útför, eða úför að kristnum sið, að því leyti sem ritúalið sjálft varðar.

 

Jesús var tekinn af krossinum og lagður í klettagröf Jósefs frá Arimatheu samkvæmt hinni gyðinglegu hefð að búa lík til grafar og leggja það í steingröf þar sem það lá í eitt ár eða meira. Að liðnum þeim tíma komu aðstandandendur og söfnuðu saman beinum og líkamsleifum og lögðu í litla kistu í fjölskyldugrafreit eða í beinakjallara.

 

En hann var ekki þar þegar að var gáð. Það er svo það sem mótar bæði guðfræði og aðferðafræði kristinnar útfarar.

 

Það ógnarbjarg er oltið frá,
er yfir gröf vors Drottins lá,
og gröfin opnuð aftur.
Ó, hver tók líka burt það bjarg,
á brjósti mér er lá sem farg?
Það gjörði, Guð, þinn kraftur.
Jesús, Jesús,
bjargið trausta, hetjan hrausta,
hjartakæra,
bjarg sem enginn burt skal færa.

 

Guðfræði útfararathafnarinnar hefur nóg efni í heilagri Ritningu. Það hefur líka saga kristninnar.

Kristið fólk skar sig snemma úr andspænis dauðanum með því að það sá til þess að hinir látnu væru jarðsettir, og sérhver sá sem í hlut átti fengi  hvílu en  væri ekki brenndur, eins og heiðingjarnir og glæpamennirnir.  En einnig merktu þeir grafirnar þegar í hlut áttu trúsystkin  sem báru þekkt nöfn.  Þetta var löngum einkenni á kristnum útfararsiðum og andstaðan gegn líkbrennslu í gegnum aldirnar var fyrst og fremst út frá þessari hefð, en ekki guðfræðilegri túlkun, enda hlutfall bálfara síhækkandi hér hjá okkur og orðið víða yfir 80% í borgum í Þýskalandi.

Einkenni kristinnar útfarar kemur fram með tvennum hætti í innihaldi þess sem lesið er og sungið og beðið og í rítualinu sjálfu,

 eða ferli og framkvæmd athafnarinnar.   Ferlið skiptist í fjóra kafla hið minnsta. Það er bænastund við andlát, það er kistulagningin, það er útfararathöfnin í kirkjunni og jarðsetningin í kirkjugarðinum. Þegar þess er kostur er þetta ferli síðan rammað inn með undirbúningi áður en dauðinn kveður dyra, og eftirfylgd þegar útför hefur farið fram.

 

Hinn guðfræðilegi grunnur.

 

Útför birtir kærleika og virðingu andspænis hinum látna og minnir um leið alla á forgengileikann í samhljómi við 90 sálm Saltarans.

 

Drottinn, þú hefur verið oss athvarf 
frá kyni til kyns.
Áður en fjöllin fæddust
og jörðin og heimurinn urðu til,
frá eilífð til eilífðar ert þú, ó Guð.
Þú lætur manninn hverfa aftur til duftsins 
og segir: „Hverfið aftur, þér mannanna börn.“
Því að þúsund ár eru í þínum augum 
sem dagurinn í gær, þegar hann er liðinn,
já, eins og næturvaka.

Ævidagar vorir eru sjötíu ár
og þegar best lætur áttatíu ár,
og dýrasta hnossið er mæða og hégómi, 
því að þeir líða í skyndi og vér fljúgum burt.

Kenn oss að telja daga vora,
að vér megum öðlast viturt hjarta. 

 

 

Í miðju útfararguðspjónustunnar er fagnaðarerindi Jesú Krists. Fyrir hann erum við kölluð til trúar á Guð sem reisti Jesú Krist frá dauðum. 1 Pet 1.21 :  Fyrir hann trúið þið á Guð er vakti hann upp frá dauðum og gaf honum dýrð. Því er trú ykkar einnig von til Guðs.

 

Í fagnaðarerindinu heyrirum við fyrrheit Jesú samkv.  Jóh. 11, 25 -26  Jesús mælti: „Ég er upprisan og lífið. Sá sem trúir á mig mun lifa þótt hann deyi. Og hver sem lifir og trúir á mig mun aldrei að eilífu deyja. Trúir þú þessu?“

Og við vonum að við  séum í lífi og dauða í Guðs hendi:   Róm 14.9 Því að til þess dó Kristur og varð aftur lifandi að hann skyldi drottna bæði yfir dauðum og lifandi. 

 

Svo erum við í dauðanum ekki skilin eftir ein andspænis okkar eigin endanleika, heldur erum við hluttakandi í forgengileika allrar sköpunarinnar:  Róm 8.20-21 Sköpunin er hneppt í ánauð hverfulleikans, ekki sjálfviljug heldur að vilja hans sem bauð svo í þeirri von að sjálf sköpunin verði leyst úr ánauð sinni undir hverfulleikanum og fái frelsið í dýrðinni með börnum Guðs. 

 

Við stöndum líka andspænis okkar eigin synduga eðli og minnum okkur á merkingu skírnarinnar í lífi okkar með því a deyja með Kristi og rísa upp með honum.   Róm 6.3-5 :  Eða vitið þið ekki að við öll, sem skírð erum til Krists Jesú, erum skírð til dauða hans? Við erum því dáin og greftruð með honum í skírninni. Og eins og faðirinn vakti Krist frá dauðum með dýrðarmætti sínum, eins eigum við að lifa nýju lífi.
Fyrst við erum samgróin honum með því að deyja líkt og hann eigum við einnig að vera samgróin honum með því að rísa upp líkt og hann,

 

Í trú á Jesú Krist verður okkar mennska sett undir leiðsögn hans sem vegna vor mannanna varð maður sem birtir okkur Guð hinna lifandi en ekki hinna dauðu  Sbr. Mt 22.31-32 Jesús segir: En um upprisu dauðra ættuð þið að hafa lesið það sem Guð segir við ykkur: Ég er Guð Abrahams, Guð Ísaks og Guð Jakobs. Ekki er hann Guð dauðra heldur lifenda.“ 

 

Í orði og sakramenti  eigi þau sem trúa samfélag við Jesú Krist, þetta samfélag  rofnar ekki við dauðann.  Róm 8. 38-39. : Því að ég er þess fullviss að hvorki dauði né líf, englar né tignir, hvorki hið yfirstandandi né hið ókomna, hvorki kraftar, hæð né dýpt né nokkuð annað skapað muni geta gert okkur viðskila við kærleika Guðs sem birtist í Kristi Jesú, Drottni vorum. 

 

Dauðinn rýfur sannarlega samfélag okkar við þau sem við elskun en samfélagið við Guð rofnar aldrei og í því samfélagi sem við eigum við Guð eigum við samfélag við þau sem við kveðjum.

 

Góðir áheyrendur. Það sem hér hefur verið vitnað til er kristinn grunnur kristinnar útarathafnar í vitnisburði heilagar Ritningar.

 

 

Útfararathöfnin sem guðsþjónusta.

 

Í samfélagi sem mótaðist af kristindómnum var útfararathöfn sem byggði á  Biblíunni og helgisiðunum  skiljanleg og viðeigandi og allra allmannaeign.

Sú tilhneiging samtímans að hverfa burtu  frá kristnum og almennt trúarlegum gildum  á vit tilvistarspurninga hins stundlega og tímanlega lífs í óhelguðu rými gerir nýjar kröfur til mótunar og uppbyggingar kirkjulegarar útfarar  til þess að óbrenglaður og óstyttur boðskapur fagnaðarerindisins frammi fyrir dauða og sorg verði skýr og afdráttarlaus einnig þeim sem eru  kirkjulega ómótuð  og fjarlæg.

Einnig þarf að taka tillit til þess  að dauðinn og sorgin eiga það til hverfa á bak við tabú í samfélaginu, og þarf að koma fram í sálgæslunni í undirbúningi og eftirfylgd.

Í ferli útfararguðsþjónustunnar þarf að hafa í huga uppbyggingu sem er skiljanleg og hæfir í sínu rítuali textum, ljóðum, söngvum og bænum, gerir ráð fyrir  hæfilegri þátttöku viðstaddra og vanmetur ekki túlkunarkraft táknmálsins.

 

Hin kirkjulega eftirfylgd með syrgjendum og með deyjandi í sálgæslu hverskonar styðst við áfanga í prívat athöfnum og opinberum athöfnum  á veginum, á síðasta hluta á vegi samferðamanns og á  sorgarvegi aðstandenda.

Þetta eru eins og fyrr var sagt,: Bænastund við andlát bæði fyrir og eftir andlátið,  opinberar  guðsþjónustur  og minningarathafnir

 

Útfararathöfnin  sjálf er guðsþjónusta  af tilefni dauðsfalls og rítual  sem snertir burtförina af jörðu og inngönguna til hins eilífa.

Orð  og atferli í kirkju eða kapellu og við gröf.

Útförin tekur alltaf mið af þeim sem kveður og aðstæðum syrgendanna.

Þar er val lestra bæna og sálma  miðuð við aðstæður á sorgarstundu

 

En grafarhlutinn, jarðsetningin sjálf er ekki aðeins bundinn persónunni sem kvödd er heldur von kristinna manna á grundvelli biblíulegs vitnisburðar frammi fyrir dauðanum.

 

Útfararhlutinn sjálfur  er ávarp  sem minnir á skírnina og nafn hins látna, og endar með því að moldað er á  fótagafl kistunnar.

Orðin fela hinn látna í hendi Guðs,  skapara og fullkomnara lífsins.

Athöfnin endar á upprisu orði og áminningu um að viðkomandi tilheyrir Kristi og á hlutdeild í dauða og upprisu Jesú Krist og von kristins manns í Kristi sjálfum.

 

Líkpredikun leggur út af hinni sérstöku tengingu fangaðarerindisins við dauða og sorg.  Lífssaga  hins látna og aðstæður syrgjenda og safnaðarins alls  gefa sorginni orð og sýn huggunarinnar á lífið framundan. Hún byggir á vitnisburði ritningarinnar sem tengja má við líf og dauða hins látna. 

Bænir, serstaklega sálmbænir, eru og eiga að vera áberandi hluti kristinnar útfarar, þar sem aðstæður sorgarsafnaðarins  eru settar fram í orðum.

Bæn í upphafi tekur mið af aðstæðum, bænir í lokin hafa tvo meginpunkta : Þau sem syrgja  og á vonina sem við eigum í Guði.
Hlutverk sálma í sorgarguðsþjónustu er að miðla trú og von andspænis dauðanum.

 Í dag eru tengsl hins látna við ákveðin heimsleg kvæði algengari en við trúarljóð og sálma.  Vandi þess sem undirbýr og leiðir útför er að kanna hvernig þeim verður best fyrir komið án þess að sorginni sé þjónað en ekki voninni og hugguninni.

 

 

.