Símenntunardagar 2019 um helgihaldið

Helgihaldið - sunnudagsmessan. Hvernig eflum við helgihaldið?

Fyrirlestur á símenntunardögum í Skálholti 2019

 

I

Í Jesú nafni.

Ég er ekki viss um að þó að þið séuð örugglega góðir tilheyrendur, og  það orðalag sé í sjálfu sér í fullu gildi, þá sé það endilega nothæft árið 2019, svo mikið hefur íslensk tunga breyst og týnst að undanförnu. 
Það er jafnvel ekki heldur víst að hægt sé lengur að heilsa með því að segja:  Góð systkin. 
Venja er/ var að þegar páfi kom/kemur  land þar sem enginn páfi hafði áður komið þá krýpur hann niður og kyssir jörðina. Það er að vísu alls ekki lengur þannig, heldur kyssir hann á dúk eða disk, vegna þess að það er t.d. ekki víst að hann hafi verið bólusettur gegn stífkrampa eða meðtaki með kossi sínum aðra óværu.
Þegar sagt er að páfinn geri þetta til að sýna landinu og fólkinu í landinu virðingu þá er það ekki rétt. Hann er að eigna sér landið. [1]

Ef ég segi við ykkur:  góð systkin, þá gætu, alla vega fræðilega séð, sum ykkar tekið því illa,  vegna þess að með því væri ég í raun að  eigna mér ykkur eins og páfinn framandi land, og taka ykkur inn í minn systkinahóp.  Það er hreint ekki sjálfgefið að nokkur vilji vera þar sem ekki er þar nú þegar vegna fjölskyldubanda.
Þegar systkinahugtakið er notað í trúarlegu samhengi er ekki auðheyrt bara af hljómfallinu að það sé raunin, og ekki heldur þó að sá eða sú sem notar það sé sérlegur fulltrúi trúarinnar. Það ræðst af heyrn og skilningi áheyrendanna hvað þeir skilja og meðtaka.  Þeim fjölgar ört sem eiga ekki trúarlegt samhengi eða skilja hvað trúarlegt samhengi felur í sér.
Auðvitað er frekar líklegt að þið, þátttakendur á þessu endurmenntunarnámskeiði,   mynduð heyra í þessu orðalagi hið sama og sagt er í sumum ávörpum kirkjunnar, eins og  þegar sagt er : Góð systkin! Þið eruð vottar þess að þetta barn er nú skírt í nafni, föður og sonar og heilags anda. En það er ekki víst að meira að segja þið fagfólk og starfsfólk kirkjunnar  mynduð heyra það sem í orðalaginu felst, og hvað þá heldur söfnuðurinn sem er til staðar í kirkjunni á þeirri stundu:  Nefnilega þetta: Þið, hinn kristni söfnuður eruð hið innra eftirlit kirkjunnar með prestinum og eigið ef þarf að staðfesta að presturinn hafi skírt barnið í samræmi við okkar þjóðkirkjufólks gildandi trú og sið!

 Í gamla daga var það regla að þegar presturinn steig í stólinn byrjaði hann á að segja : Í Jesú nafni.  Það gerði hann til að minna sjálfan sig á að hann  (á þeim árum var bara til hann – presturinn)  átti ekki að segja neitt nema það sem sem hann gæti ekki sagt beint við hann, það er Jesú sjálfan, og einnig líkama hans á jörðu, sem er söfnuðurinn, og að söfnuðurinn átti að vita að hið innra eftirlit með predikuninni  fólst í Jesú nafni. Í, með og undir því nafni lifir og starfar söfnuðurinn.

Góð systkin. Sífellt meira af því samtali sem helgihald kirkjunnar byggir á skilst ekki nema í litlum hópi innvígðra sérfræðinga og nokkrra trúfastra kirkjugesta í hópi aldraðra.
Það var mikil lán yfir okkur í þjóðkirkjunni þegar það var ákveðið árið 2007 að við skyldum einbeita okkur að því að endurnýja sálmasafn kirkjunnar og gefa út nýja sálmabók, en láta frekari vinnu við endurskoðun handbókarinnar með það markmið að gefa út nýja handbók fara sér hægt.  Það væri hvort sem er  meira óskað ,,þá”  (innan gæsalappa)  eftir nýjum sálmum og söngvum til að nota í helgihaldinu, og mun frekar en nýjum formum helgihalds umfram það sem mjatlað hefði verið inn á kirkjuvefinn smám saman, en það var aðallega efni sem ekki er í Handbókinni og óskað hafði verið eftir af prestum og safnaðarfólki.
Engu að síður lá fyrir að mikil þörf væri á endurskoðun handbókarinnar vegna málfars hennar. En ef við hefðum gefið út nýja handbók árið 2010 eins og vissulega hafði verið rætt um , þá hefði hún að mínu viti verið úrelt núna, tíu árum síðar, einmitt vegna málfarsins. Svo mikið hefur breyst.

 Auðvitað hafa prestar, margir hverjir, ekki staðið aðgerðalausir þessi tíu ár heldur nýtt sér þá möguleika til breytinga og valkosta sem Handbókin býður upp á, og hafa umskrifað og umsamið ýmsa formála helgihaldsins og sérstklega bænirnar, eins og hina almennu kirkjubæn. Það er jú augljóst að hin almenna kirkjubæn rís ekki undir nafni nema söfnuðurinn allur geti samsamað sig efni hennar vegna þess að hann skilji það sem sagt er. Ég kem aftur síðar að hinni almennu kirkjubæn.

II.
Samkvæmt minni hjartans sannfæringu hefur spurningin sem borin er fram í heiti þessa fyrirlestrar:  Hvernig eflum við helgihaldið,  eitt afdráttarlaust svar. Það hljóðar svo:
Við tölum of mikið en gerum of lítið.

Þegar það verður hræðilegt slys í okkar sóknum þá eru það ekki orðin sem skipta mestu, hversu falleg og huggunarrík sem þau eru, heldur það að ganga með bænaljós í þögulli bæn að bænastjakanum eða bænaljósakrossinum og að faðmast.
Á allsherjarþingi samtaka evangeliskra kirkna í Evrópu í september í fyrra var margt sagt og margt gert í helgihaldi og tengt því.   Eftirminnilegast fannst mér það sem Rosangela Jarjour frá Sýrlandi sagði í því samhengi, þegar henni var falið að bera þinginu kveðjur síns kirknasambands.   Hún er aðalritari Sambands Evangeliskra kirkna í Miðausturlöndum,   (Fellowship of Evangelical Churches in the Middle East.)
Ég tek það fram að þessi tilvitnun er eftir minni og þeim tilfinningum sem við ræðu hennar vöknuðu hjá mér. Hún sagði eitthvað á þessa leið:

Þegar þið gangið syngjandi ykkar fögru liturgiu uppi í fjallshlíðunum og haldið að með því getið þið glatt okkur sem erum niðri í dölunum  og heyrum til ykkar, þá er það ekki rétt. Sá söngur hljómar eins og háð í okkar eyrum.  Söngur ykkar vekur enga gleði fyrr en þið komið niður til okkar og syngið þar.

 Fyrir hverja erum við að syngja?  Fyrir himininn og englana?
Ég vendi kvæði mínu í kross og bið ykkur að hugleiða með mér  hvað átt er við þegar við tölum um trú og trúariðkun í helgihaldi eða utan þess.

 Í fyrsta lagi.
Trúin er í senn tilfinning fyrir nærveru Guðs og þörfin fyrir hana.
Hún er sannfæring um nálægð Guðs og vernd hans.
Ég , í merkingunni ég safnaðarins, eða ég söfnuðurinn, leita til Guðs vegna þess að hann getur það sem ég get ekki.
Hann getur framkvæmt hið ómögulega.
Hann gengur með mér í gegnum þá erfiðleika sem mæta mér.  Hann getur bjargað mér frá þeim og gerir það líka oft , en þegar hann lætur mig mæta þeim gengur hann með  mér. Hann gekk í gegnum dauðann til upprisunnar. Þegar ég þarf að ganga veg dauðans kemur hann á móti mér og fylgir mér í gegn.
Jesús tók á móti mér í skírninni þar sem ég varð Guðs barn  og systir hans og bróðir.  Í hvert sinn sem ég signi mig minni ég mig á það.
Þess vegna signi ég mig oft. Þegar ég heilsa nýjum degi, og þegar ég leggst til svefns signi ég mig, í inngangi bæna minna.

 Stærsti hluti trúariðkunar minnar er einkamál  milli mín og Guðs í Jesú nafni. Hið sameiginlega bænahald og helgihald með mörgum í kirkjunni eða annarsstaðar er annarsskonar vegna þess að það er ekki einkasamtal heldur opinbert samtal. Það á ekki aðeins að styrkja mitt  samtal eða annarra einstaklinga við Guð, heldur samkennd og samábyrgð í hópnum sem kemur saman til sameiginlegrar bænagjörðar og tilbeiðslu hins eina Guðs.
En ég veit að margir finna sig  samt ekki heima í því nema að litlu leyti.

 Ritað er í  Post. 2. 44-47
Allir þeir sem trúðu héldu hópinn og höfðu allt sameiginlegt. Menn seldu eigur sínar og muni og skiptu meðal allra eftir því sem hver hafði þörf á.  Daglega komu menn saman með einum huga í helgidóminum, brutu brauð í heimahúsum, neyttu fæðu saman í fögnuði og einlægni hjartans. Þeir lofuðu Guð og höfðu vinsældir af öllum.
Góð systkin. Með öðrum orðum: Þau leituðu styrks hvert hjá öðru. Þau gáfu með sér, þau deildu gæðum sínum og tilfinningum. 

Í öðru lagi

Helgihald kristinnar kirkju er í kreppu, hér á Íslandi og  víðast hvar  sérstaklega í hinum vestræna heimi. Ástæðan liggur í kreppu trúarinnar, minnkandi þörf fyrir kirkjulegt samfélag og samábyrgð kristins safnaðar og minnkandi þörf fyrir trú. Styrkur helgihaldsins nærist af styrk trúarlífsins. Styrkur trúarlífsins  minnkar mest hjá evangeliskum kirkjum, lútherskum og reformertum og öðrum, og hjá kaþólsku kirkjunni í Evrópu og Norður Ameríku. Einnig á síðustu árum í Suður Amenríku. Hann stendur nokkuð í stað hjá rétttrúnaðarkirkjunum, en vex í hvítasunnukirkjunum.  Hann vex  mest í Afríku og virðist vaxa í Kína í neðanjarðarkirkjunum.  Hann virðist ekki minnka á þeim svæðum þar sem kristnin mætir mestu ofsóknunum  nema helst í Norður Kóreu.

Í þriðja lagi
Hversvegna er helgihald,  hver er tilgangur helgihalds, hvar er helgihald í lífi fólks og hversvegna?
Almenningur i söfnuðum kirkjunnar mætir ekki til kirkju á venjulegum sunnudegi og hefur ekki gert, raunar aldrei gert í ríkum mæli á Íslandi.  Samt er trúin ekki týnd, og skráning í kirkjuna er enn hærri en svo að við getum sagt að hún sé lítil, þó að við höfum misst marga.  Of marga. Og úrsagnir eru of margar og koma of hratt. Nú erum við 67 % íbúanna í landinu og höfum minnkað um 20 % á tuttugu árum.
Ólíklegt er að þau sem segja sig úr kirkjunni séu oft til kirkju, en það virðist þó ekki vera samband þarna á milli.   Dæmi eru um að fólk í sóknarnefnd segi sig úr kirkjunni en fari ekki fyrr en næst er kosið.
Staða kirkjunnar í samfélaginu hefur verið rannsóknarefni nemenda við ýmsar  deildir Háskólans, umfram Guðfræði- og trúarbragðafræðideild, m.a. ein nýleg  í mannfræði. Hlusta verður eftir þessum röddum.[2]
 Þegar kirkjan og trúin og þar með helgihaldið, skiptir minna máli en áður færist það út á jaðarinn í daglegu lífi samfélagsins.

Staða trúar og kirkju 2019  minnir á stöðuna 1968. Niðurstaða evrópskra rannsókna þá var að   trúin væri í krísu, og þessvegna væri guðsþjónustan og helgihaldið í krísu.
Svarið  við þessari krísu/kreppu var þá og er enn  aukin fagmennska þeirra sem leiða kirkjuna og söfnuðinn.  Ef það er niðurstaðan að helgihaldið og guðsþjónustan séu fjarri fólkinu  er eina svarið að það þarf að færa  það nær fólkinu. 
Hvernig gerum við það?  Hvaða hindranir eru á milli helgihalds kirkjunnar (í þessu tilviki þjóðkirkjunnar)  og fólksins? (í þessu tilviki einnig þess fólks sem tilheyrir þjóðkirkjunni og er ekki á leiðinni frá henni).
Algengasta svarið er:  Ég finn ekki það sem ég er að leita að. Mér finnst að það sem sagt er og gert í guðsþjónustu sunnudagsins sé miðað við einhvern annan en mig. Ég finn ekki samhljóm milli mín og þess sem er sagt og gert.
Sömu viðbrögð gilda ekki sjálfkrafa um annað helgihald, eins og skírn og fermingu, hjónavígslu og útför, eða hinar fjölbreyttu stundir helgihalds sem tengjast sálgæslu kirkjunnar frekar en opinberri þjónustu hennar.
Fólk vill að það sem mætir því á helgum stundum í kirkjunni veiti svör við því sem það er að leita að. Fólk vill fá skýra leiðsögn.  Fólk vill að talað sé við það á eigin tungu sem það skilur.
Trúarlega séð er hinn almenni vandi sá að þeim fjölgar sem vilja einungis þiggja en ekki veita. Hinn þiggjandi neytandi hefur sest að.  Allsstaðar. Líka í kirkjunni. Þá er það sem er í boði yfirleitt alltaf of lítið og of lélegt.
Markmið kirkjustarfs hlýtur því að vera að breyta þiggjendum í þátttakendur.

 Í fjórða lagi

Hver  er stærsti vandi helgihalds kristinnar kirkju á Íslandi 2019?
Ég veit það ekki.  En ég veit að samtal í stórum hópum og smáum þar sem allir eru jafnir til þátttöku í samtalinu mun leiða okkur að svarinu. Það samtal verður því að fara fram.
Það sem ég hinsvegar  þykist vita er þetta:
Of fáa langar til kirkju þegar klukkur kalla.
Hversvegna langar þau ekki?
Þau finna ekki samhljóm við eigið sjálf í því sem þau mæta í helgihaldinu.

Hversvegna ekki? 
Þetta er allt framandi. Það er talað við þau á tungumáli sem þau skilja aðeins að litlu leyti.  Margt sem gert er virkar þunglamalegt og dauflegt af því að það er óskiljanlegt.
Það sem vanir kirkjugestir telja hátíðlegt og trúverðugt í samhengi trúarinnar, telja óvanir  oft leiðinlegt, stíft og gleðilaust.  Sumum dettur jafnvel í hug að spyrja í því samhengi:  Er ekki erindi kirkjunnar við heiminn  kallað fagnaðarerindi?

Fólk fer á skemmtanir og heyrir uppistandara flytja sprenghlægilegt efni sem þó er oft með mjög krefjandi undirtón.
Fólk fer í leikhús og heyrir frábæra leikara flytja leikverk fyrir einn leikara og fer heim stundum glatt,  stundum mjög hugsandi, stundum  hvorutveggja.
Sama fólk fer í kirkju. Þar er ein manneskja að sinna sínum skyldum við að leiða helgihald og hinn samansafnaða söfnuð inn í helgihaldið og í því.  Það ber saman og presturinn kemur langoftast út í afgerandi mínus.
Að sjálfsögðu. Hann er ekki uppistandari og ekki leikari í einleik. Hann er hluti þeirrar heildar sem gagnrýnir hann, en ekki sig. Prestur ætti þá ekki heldur að reyna að vera það sem hann er ekki.
Það er hjálp í því að presturinn sé ekki einn í fókus allan tímann í hinu opinbera helgihaldi, heldur hafi með sér  fleiri.  En að taka með sér annan prest er ekki nóg. Jafnvel ekki heldur djákna.

 Guðsþjónusta er samkoma safnaðar í nafni Jesú Krists. Kirkjan sem líkami Jesú Krists á jörðu verður sýnileg þegar hún kemur saman um orð Guðs og útleggingu þess í samfélagi bænarinnar og sakramentanna, þar sem er sungið og tilbeðið undir leiðsögn einstaklinga sem söfnuðurin hefur valið til þess og treystir til þjónustu í Jesú nafni.  Í raun er það ekki í þeim tilgangi að láta hann eða hana gera allt ein og fría söfnuðinn ábyrgð, en þó stundum einmitt og algjörlega í þeim tilgangi!
Ef við berum fram spurningar um helgihaldið í alvöru og ætlum að beina þeim spurningum eingöngu að þeim sem leiða helgihaldið þá erum við á villigötum.
Við verðum einnig  að beina spurningum okkar að þeim sem eru viðtakendur og þátttakendur í helgihaldinu, nefnilega að söfnuðinum sjálfum. Hver er ábyrgð safnaðarins um velgengni og framgang guðsþjónustuhalds safnaðarins?   En jafnframt verðum við að beina spurningum okkar  einnig að þeim sem standa að helgihaldinu með presti og djákna og  tilheyra leiðtogum og leiðbeinendum safnaðarins eins og organista kirkjunnar og kórsöngvurum, meðhjálpara  hennar og kirkjuverði.

Samkvæmt tilvitnuninni í Postulasöguna kom fólk saman vegna Jesú Krists í heilögum anda.  Sannarlega skipti fólk með sér verkum en það var ekki kominn sama skipting á milli leikra og lærðra sem síðar varð, eða klerka og leikmanna.  Eina sérstaðan var að það var ekki hver sem var sem predikaði. 

 

Hið annað er þetta. Engar grundvallar breytingar hafa verið gerðar á eðli og inntaki kristinnar guðsþjónustu í siðbótarkirkjunum  og hinum  stóru kirkjunum frá siðbótartímanum.  Grundvallarrit Marteins Lúther Formula missae og Deutsche Messe, sem og Heilög messa að hætti kaþólsku kirkjunnar og hin guðdómlega Liturgía rétttrúnaðarkirknanna eru enn grundvallandi fyrir helgihaldið og messuna í kristnum sið. Jafnvel hinar frjálsu kirkjur hvítasunnuandans taka mið af hinum hefðbundna sið.
Nýungar í guðsþjónustuhaldi vegna möguleika hinna nýju samskiptamiðla, hafa ekki haft sömu áhrif á inntakið og miðlunina.
Í raun hefur þetta ekki skilað því sem ætlað var að efla, nefnilega markvissari samskiptum trúsystkina í helgihaldi  þeirra og tilbeiðslu.
Við vitum frá Jesú sjálfum að maður setur ekki nýtt vín á gamla belgi.
Hversvegna?  Þeir springa. Hefur það merkingu gagnvart þeirri spurningu sem hér liggur til grundvallar ?
Hvernig hleypum við nýju lífi í hina almennu messu safnaðarins?
Undanfari þeirrar spurningar hlýtur að vera í fyrsta lagi önnur spurning:
Koma fáir til kirkju?  Og ef já,  hversvegna koma fáir til kirkju?
Svar: þau finna ekki hjá sér neina þörf til þess að fara til kirkju.
Hversvegna?
Hér eru nokkur svör: [3]
Ég trúi ekki / eða, ég trúi ekki lengur.
Ég hef enga trúarþörf.
Ég trúi, en ég tengi ekki trú mína við trú annarra.
Ég trúi en ég finn enga tengingu við messu eða guðsþjónustu í kirkjunni,
Ég trúi og ég bið reglulega, en ég vil ekki hafa neitt saman við kirkjuna að sælda, mér finnst hún vonlaus stofnun.
Ég bið til Guðs, en ég vil frekar gera það í einrúmi.
Ég bið aldrei með öðrum.
Ég tengi ekki við almenna bænagjörð í kirkjunni. Það er bara svona prestaþula.
Ég skil lítið af því sem lesið er úr Biblíunni. Ég les ekki í Biblíunni sjálf/ur.
Ég hef gaman af fallegum söng en er ekki alinn upp við að syngja sjálf/ur.  Mér finnst mest af því sem sungið er í kirkjunni drungalegt og leiðinlegt.
Hvenær ferð þú í kirkju?  Svar: Við jarðarfarir. Þegar er skírn eða ferming í fjölskyldunni. Við kirkjubrúðkaup.
Hvað gæti þetta verið oft á ári ?

Svar: Svona tvisvar- þrisvar.  Sum árin eru fleiri jarðarfarir.
Við ályktum út í loftið, alveg án sannana, að tvö til þrjú prósent kristinna einstaklinga á Íslandi fari reglulega, það er að segja  að jafnaði vikulega í messu.  Hið sama gildir almennt í Norður og Vestur Evrópu.Við höfum ekki tölur um hversu margi íslendingar fara til kirkju einu sinni eða oftar á ári.
Í Þýskalandi fóru árið 2015  60% einu sinni eða oftar í kirkju á ári. 6% þeirra sem ekki eru skráð í neitt trúfélag fara þar oftar en einu sinni á ári í almenna guðsþjónustu. Kirkjuganga á jólum nær langt út fyrir raðir þeirra sem iðka trú sína að öðru leyti. Væntanlega einnig hér hjá okkur.

Hvað er þá til ráða?  Eða er þetta ef til vill ásættanleg niðurstaða?
Algengt er að svara því til þegar rætt er um litla kirkjusókn á sunnudögum að segja að það sé starfsemi hvern einasta dag í kirkjunni.  Ekki bara á sunnudögum eina og einu sinni var.  Það er alveg laukrétt.  En laukrétt er einnig, að það eru aðeins fáir sem mæta líka þar.  Það er líka sameiginlegt vandamál í öllum kirkjum norður og vestur Evrópu.
Eftir sem áður eru lykilatriði helgihalds mjög einföld.
Að koma saman í Jesú nafni.
Að byggjast upp saman
Að vera send út saman.
Áhersluþættirnir eru enn óbreyttir: Orðið – bænin – útleggingin – samfélagið við borðið.

 Hvaða ráð eru góð til þess að styrkja helgihaldið?
Svörin við þessari spurningu eru hjá þeim sem spyrja. Ekki hjá mér.
Hinsvegar má lesa úr reynslu safnaða víða um lönd og kirkjur nokkur svör, eins og þessi:
Að fjölga starfandi þáttakendum í hverri  messu og breyta reglulega til þess að söfnuðurinn með þeim hætti skynji betur ábyrgð sína á iðkun trúarinnar meðal einstaklinga og safnaðarins í heild.
Að  hvetja til þess að  börn séu skírð í messu og láta skírnarathöfnina  sjálfa móta guðsþjónustuferlið.
Að virkja fermingarbörnin  og fela þeim að hafa áhrif á messuferlið meðan þau eru í fræðslunni.
Að gera meira úr almennu kirkjubænininni  og nýta til þess messuhópa þar sem þeir eru starfandi og djáknana í þeim söfnuðum sem eru svo heppnir að hafa starfandi djákna.  Það er frá upphafi hlutverk djáknans sem er sístarfandi úti á akrinum og heyrir áhyggjuefni og þakkarefni fólksins  að bera þau fram fyrir Guð á samkomum safnaðarins.
Sá sem fer til kirkju þarf að heyra þar að hans og hennar málefni, og áhyggjuefni og þakkarefni eigi pláss á samkomum safnaðarins, líka þótt engin nöfn séu nefnd þegar það þykir óviðeigandi eða óþægilegt.
Að styrkja litlu hópana í safnaðarstarfinu  og leyfa þeim að verða meiri áhrifavaldar í helgihaldi sunnudagsins.
Að auka sönginn. Ekkert tengir fólkið betur saman er söngurinn.
Við höfum lært að hlusta á raddir og  rythma fjarlægra þjóða og kirkna, og söngva þeirra. Við getum líka lært að syngja þá.
En fyrst og fremst þurfum við  að læra að heyra þær  raddir sem tala máli þeirra sem hafa enga rödd nema okkar rödd og tala þeirra máli þegar við komum saman til guðsþjónustu.
Við þurfum að lifa guðsþjónustuna í okkur sjálfum jafnt í kirkjunni sem samkomustað trúarinnar  og í kirkjunni meðal fólksins á akrinum og í önn og amstri daglegs lífs,  með Jesú, - fyrir hann, með honum og í honum.
Og hvað svo?
Hverju þyrfti að breyta strax?
Helgihaldið er margskonar og fjölbreytilegt, en ég tala hér bara um messuna. Það er ekki tími fyrir meira.
Svar.
a)Ég hef lengi haldið því fram að við þurfum að horfast í augu við að tón messunnar sem á sínum tíma hafði bæði  forsendur og fúnksjón muni smám saman hverfa, nema þegar  við viljum leggja sérstaka áherslu á messuna sem tónlistargjörning. Ég tek fram að söngmálastjórinn er mér ekki sammála um þetta efni.
Finna þarf leiðir til að gera þessa breytingu auðveldari nú þegar fyrir þá presta sem vilja hætta að tóna , eða eru hættir því,  svo að þeir liggi ekki undir ámæli fyrir það að vera latir eða laglausir.
Samtal og víxllestur  milli prests og safnaðar er ekki tónlistargjörningur í sjálfu sér.
Þetta þýðir þó að sjálfsögðu ekki að þeir prestar sem unun er á að hlýða þegar þeir tóna eigi að hætta því!  Síður en svo.!
Þess verður einnig að geta að ólíklegt er að nokkur breyting verði á Hátíðasöngvum séra  Bjarna Þorsteinssonar, nema helst að oftar verði forsöngvarar fengnir til að syngja það sem hægt er að fela þeim í stað prestsins.
b) Með  Handbókinni frá 1981 var ákveðið að taka upp aftur sömu aðferð við að syngja messu eins og verið hafði á siðbótartímanum og tvær aldir eftir það, nefnilega með hinum fasta, gamla og miklu eldri stúktúr með kyrie, gloria, credo, sanctus og angnus dei.

Þessi uppbygging gerir ráð fyrir því að sérhver guðsþjónusta sé messa með neyslu heilags kvöldmáltíðarsakraments.  En það er jú ekki alltaf raunin. Þess vegna tók okkar kirkja á sínum tíma, að liðnum Grallaratímanum upp hina dönsku aðferð  sem byggir ekki á sama strúktúr heldur leggur fyrst og fremst áherslu á  að hið miðlæga í samkomum safnaðarins sé guðspjall viðkomandi dags samkvæmt skipulagi kirkjuársins og svo predikunin, sem útlegging hins sama guðspjalls. 

Þessi skilningur á samkomum safnaðarins er enn í gildi þó að prestastefnan árið 1981 hafi samþykkt hina endurnýjuðu áherslu.
Með öðrum orðum, þegar guðsþjónusta safnaðarins á venjulegum sunnudegi gerir ekki ráð fyrir neyslu kvöldmáltíðarskramentisins þá er þessi bygging messunnar ekki nauðsynleg, enda væri  þá hvort sem er aðeins helmingur hinna föstu liða til staðar.
Hinsvegar eigum við að mínu viti að halda okkur við hina hefðbundnu messuuppbyggingu þegar er kvöldmáltíð og vera þannig samstiga með hinni almennu kirkju um allan heim.

 c) Staðreyndin er að hin almenna útgáfa af guðsþjónustu safnaðarins innan þjóðkirkjunnar sérhvern sunnudag kirkjuársins, inniheldur ekki endilega neyslu sakramentisins.  Sannarlega eru margar kirkjur, einkum í þéttbýli sem hafa sakramentið um hönd sérhvern helgan dag, en vítt og breitt um landið er það ekki þannig.  

Spyrja má : Hvaða áhrif hefur það á guðsþjónustu sunnudagsins? Eða  ætti að hafa?
Við njótum mikils frelsis þegar kemur að því að móta samkomur safnaðarins og eigum að nota það, en vel að merkja ekki nema í sátt við þann söfnuð sem við þjónum. Sú sátt verður að eiga frumkvæði hjá prestinum sem leiðtoga safnaðarins.

 d) Ef við förum hratt yfir þau atriði sem  æskilegt væri að lagfæra fyrst og fremst út frá breytingum í tungumálinu sjálfu þá er auðséð og auðheyrt að tímabil hinnar fornu fleirtölu er liðið, þó að væntanlega verði Faðir vor óbreytt  enn um sinn eins og ýmsir sálmar.  Hin forna tvítala hefur tekið við sem fleirtala að mestu leyti.
Þetta er hinsvegar ekki alveg einfalt í framkvæmd vegna þess að í mjög mörgum tilvikum er einfaldlega ekki hægt að setja okkur í stað oss, og við í stað vér, heldur þarf að umskrifa textann.  Þetta á sérstaklega við um bænirnar.
Ég tel einnig  að færa eigi núverandi Drottinn sé með yður á undan bæn dagsins (en  innan sviga þarf í öllu falli að gefa annan valkost á þeirri bæn, einkum þegar hún er lesin). 
Þessi heilsan ætti að vera fremst í messunni, í upphafi hennar, en ekki þar sem hún er nú.
Hún er þar sem hún er núna einfaldlega frá þeim tíma þegar Drottinn sé með yður var aldrei sjaldnar er fjórum sinnum í messunni: Á undan kollektu, á undan guðspjallskynningu, á undan kvöldmaltíðinni og á undan blessuninni.

 Ég legg til að messa byrji á signingunni og síðan segi prestur:  Drottinn sé með ykkur öllum. Ekki með okkur öllum !  Það er samræmi milli þessarar kveðju og þegar við heilsumst. Við segjum ekki komum við sæl og blessuð!
Prestur er valinn af söfnuði til ákveðinnar forustu og algjörlega í því að leiða hina almennu messu. Hann er sannarlega hluti safnaðarins, en sem leiðtogi hans heilsar hann söfnuðinum en ekki sjálfum sér.
Í framhaldi af þessum orðum fylgir meðhjálparabænin. Æskilegt er að hún fái að vera einmitt það, meðhjálparabæn,  og sé lesin og leidd af meðhjálpara. En sjálfsagt er en að það komi einnig aðrar nýjar bænir að vali. 
Ennfremur er hægt (og æskilegt) þegar kvöldmáltíðarsakramentið er haft um hönd að þá komi hin almenna syndajátning í upphafi messu en ekki eftir almenna kirkjubæn í tengslum við Friðarkveðjuna.
Friðarkveðju ætti kirkjan að hafa í hverri messu óháð því hvort er gengið til Guðs borðs eða ekki. 
Ef við höfum ekki kvöldmáltið í messunni, þá er athugandi eins og fyrr segir hvort við sleppum miskunnarbæn og dýrðarsöng en veljum í staðinn inngöngusálm sem kemur í stað þessa.
Þá er það spurningin um lestrana og söngva á milli. Ég er ekki viss um að sú aðferð að lesa þrjá texta lexiu, pistil og guðspjall í öllum messum sé nauðsynleg hefð.  Það verður að ræða það.
Um predikunina segi ég ekki neitt, enda er það ekki mín deild á þessu námskeiði!

 En almenna kirkjubænin verður auðvitað að vera almenn bæn,  helst sett saman af söfnuðinum eða messuþjónum undir yfirumsjón djáknans ef söfnuðurinn hefur ráð á einum slíkum.  Auðvitað þurfa að vera til bænir í bók til að grípa til, en þetta er í raun sá liður sem breytist mest frá sunnudegi til sunnudags.  Meginreglan ætti að vera sú að þessar bænir séu stuttar og hnitmiðaðar.  Það er hefð fyrir því að biðja fyrir kristninni í heiminum, fyrir yfirvöldum, fyrir fjölskyldum og heimilum,  fyrir sjúkum og deyjandi. En að sjálfsögðu er ekki skylda að hafa alltaf sömu upptalningu hvern helgan dag.
(Ég fer hratt yfir því tíminn er naumur. )

Eitt af því sem afar nauðsynlegt er að lagfæra eru bænirnar í tengslum við kvöldmáltíðarsakramentið. Reyndar verður líka að minna á að okkar kirkja hefur aldrei hafnað þeirri gömlu venju að það sem algjörlega  verður að vera þegar gengið er til Guðs borðs, sé eingöngu Faðir vor og Innsetningarorðin , brauð og vín, og í það minnsta eina trú sál, og helst ávarp til þeirra sem ganga innar.

Eins og allir vita þá er það afar fátt í helgihaldi okkar sem ekki er hægt að breyta eftir geðþótta.  Reyndar er það einungis  innsetningarorð skírnarinnar, innsetningarorð kvöldmáltíðarinnar, Faðir vor  og trúarjátningin.
Ég legg þó til þrátt fyrir þetta að orðalagi Innsetningarorða kvöldmáltíðarinnar verði breytt lítillega.
Í stað þess að segja : takið og etið verði sagt : takið og neytið. 
Ástæðan er einföld . Einkum yngra fólk þekkir ekki muninn á etið og jetið.  Guðfræðilega er enginn munur á etið og neytið.  En ég játa að þar sem
ómögulegt er að heyra hvort það er einfalt i eða upsilon í orðinu og hætta er á að fólkið þekki bara orðið að neita en ekki neyta, gæti verið að þessari tillögu yrði hafnað. Þetta þarf að skoða vel.
Hitt sem ég legg til að breytist er að  í vínorðinu segjum við eftirleiðis:  Drekkið hér af. En ekki Drekkið allir hér af. 
Ef fólki er sárt um þessa breytingu, eða vilja breyta allir í öll, þá legg ég til, til vara, að sagt verði Drekkið hér af öll, frekar en drekkið öll hér af.  Ef við viljum hafa þessa áherslu á öll, þá hvílir meiri áhersla á orðinu sé það sett aftur fyrir.  Prófið bara, - og ég tel að þið munið komast að  sömu niðurstöðu.
En helst myndi ég vilja að við sammæltumst um : Drekkið hér af  !

 Orðalagið : Gerði þakkir, eða gerði þér þakkir, tel ég vera of fornt orðalag. Sannarlega stendur í ýmsum textum að einhver gerði bæn sína. Ég myndi leggja til að í stað þess að segja gerði þakkir segjum við þakkaði, eða þakkaði Guði, sem er betra vegna þess að þá er augljóst að hann bað þakkarbænar til Guðs, en þakkaði ekki viðstöddum.
Ég tel ennfremur að halda megi hinni fornu fleirtölu í innsetningarorðunum eins og í  Faðir vor sem fylgir á eftir. 
Þá væri textinn þannig:
Drottinn vor Jesús Kristur tók brauðið nóttina  sem hann var svikinn, þakkaði Guði, braut það og gaf lærisveinum sínum og sagði: Takið og neytið, þetta er líkami minn, sem fyrir yður er gefinn. Gerið þetta í mína minningu.
Sömuleiðis eftir kvöldmáltíðina tók hann kaleikinn, þakkaði Guði, gaf þeim hann og sagði: Drekkið hér af,  þetta er kaleikur hins nýja sáttmála í mínu blóði, sem úthelt er fyrir yður til fyrirgefningar syndanna. Gerið þetta svo oft sem þið drekkið, í mína minningu.

 Hinn möguleikinn væri þessi:
Drottinn Jesús Kristur tók brauðið nóttina  sem hann var svikinn, þakkaði Guði, braut það og gaf lærisveinum sínum og sagði: Takið og neytið, þetta er líkami minn, sem gefinn er fyrir ykkur. Gerið þetta í mína minningu.
Sömuleiðis eftir kvöldmáltíðina tók hann kaleikinn, þakkaði Guði, gaf þeim hann og sagði: Drekkið hér af öll,  þetta er kaleikur hins nýja sáttmála í blóði mínu, sem úthelt er fyrir ykkur  til fyrirgefningar syndanna. Gerið þetta svo oft sem þið drekkið, í mína minningu.

 Og í lokin:
Allt sem í helgihaldinu virkar vélrænt og sjálfsagt,  óútskýranlega hefðbundið með mörgum orðum en týndu innihaldi á ekki heima  þar .Einkunnarorð okkar sem þjónum helgihaldi safnaðarins ættu að vera:
Færri orð en fleiri og stærri tákn.
Mér er ljóst að allt þetta sem ég hef sagt hér, og hversu góðar sem þessar tillögur væru þá virka þær ekki nema í besta falli á þau sem ætla hvort sem er að vera kyrr í kirkjunni.
Ef til vill hafa endurbætur í helgihaldinu áhrif á tíunda hluta allra hinna með þeim hætti að þau vilji koma til baka eða hætta við að fara. 
En það er fyrst og fremst hin almenna nálgun  kirkjunnar við almenning sem gæti leitt til þess að yfirstandandi gliðnun milli trúarinnar og hinnar starfandi kirkju  myndi minnka.
Sannarlega er hægt að miðla þeirri nálgun til dæmis með því helgihaldi kirkjunnar sem gerist á eyktamörkum ævinnar og fjöldi fólks sækir sem er ekki í kirkjunni nú þegar, eða á útleið, umfram þau sem tilheyra trúarsamfélagi safnaðanna. Þar er útförin nærtækasta dæmið.
En fyrst og fremst þarf í þessu sambandi gliðnunarinnar kirkjan að minna á sig á öðrum vettvangi en í eiginlegu helgihaldi sínu  og taka skýra afstöðu til málefna sem varða almanna heill.
Hún á ekki að þegja þótt við hana sé sagt að hún eigi að þegja um þau málefni vegna þess að þau séu af  pólitískum toga,  eða einfaldlega vegna þess að trúarleg sjónarmið eigi ekki heima í samtímanum.
Trúin gerir sér grein fyrir syndinni, og syndin hefur mörg andlit. Þau birtast oftast utan við kirkjumúrana, í náttúrunni, í græðginni, í ofbeldinu, í virðingarleysinu og í helstefnum manna. Engin leið er fyrir kirkjuna að þegja um syndina í sínum mörgu myndum. Ekki heldur sínar eigin.

 Þess vegna eitt enn.
Getur verið að við höfum of oft  vanrækt að  færa fólkinu fyrirgefningu Guðs og gefa því von,  af því að við vorum of upptekin af aukaatriðum?
Áhugi, löngun og þörf fyrir fyrirgefningu hefur ekki minnkað, og fyrirgefningin er elsta dóttir kærleikans!

 

 

 


[1]  Sjá þriðja kafla Emanuele Tesauros "Cannocchiale Aristotelico", Turnin 1654 : "Quinci il baciar la Terra, rimase un Simbolo presago di sicuro possesso."

[2] Hér eru nokkur dæmi um eftirtektarverðar ransóknir: 
1. Glatað gildi kirkjunnar. Hvernig hafa samfélagslegar breytingar haft áhrif á viðhorf Íslendinga til trúar og Þjóðkirkjunnar.  Elva Björt Stefánsdóttir 1992- Mannfræði.

http://hdl.handle.net/1946/27221

2. Samband íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar : lagalegur grundvöllur.

Sunna Axelsdóttir 1986-   Lögfræði.  http://hdl.handle.net/1946/5796

3. Þjóðkirkjan og samskiptin við ríkið : Hvers vegna eru ríki og kirkja ekki aðskilin að fullu á Íslandi?   Trausti Salvar Kristjánsson Nútímafræði. http://hdl.handle.net/1946/5849

4. Endurnýting á kirkjubyggingum  Rósa Þórunn Hannesdóttir 1987-

Arkitektúr http://hdl.handle.net/1946/15438

5. Við þurfum að tala um þjóðkirkjuna. Umfjöllun um hin ýmsu málefni þjóðkirkjunnar á Íslandi Sonja Sif Þórólfsdóttir 1994-

Blaða- og fréttamennska.  http://hdl.handle.net/1946/32735

6. Trúarleg viðhorf og leikskóli : rannsókn á viðhorfi foreldra til trúfærslu í leikskólanum Lundarseli,  Ingibjörg Jóhannsdóttir. Leikskólar, Trúfræði, Siðfræði.

http://hdl.handle.net/1946/1268

[3] Hér er lauslega byggt á könnunum frá Þýskalandi (EKD)  en uppfært til samtals við fólk á förnum vegi á Íslandi.