Fyrirlestur á símenntunardögum 2017

Helgihaldið - sunnudagsmessan. Hvernig eflum við helgihaldið?

Samræður

 

Góðir tilheyrendur.

Ég vil byrja á því að fagna því að símenntunardagar eins og þessir skuli loksins, loksins vera orðnir að veruleika , og þakka þeim Þorvaldi Karli og Halldóri fyrir forgönguna.  Vonandi verður þetta fastur árlegur viðburður.
Eins og ykkur er kunnugt sem hér komið saman þá hefur sá sem hér stendur eina kirkju í reglulegri þjónustu. Það er Þingvallakirkja. Einu sinni töldust þar 55 sæti. Það var árið 1859.  Hún hefur ekki skroppið saman, en núna teljast samt bara 40 sæti í kirkjunni. Þessi sæti eru sjaldan full nýtt á venjulegum sunnudegi og raunar aðeins á hátíðum. Í sókninni búa rúmlega þrjátíu manns, þar af koma milli fimm og tíu til kirkju á stórhátíðum .Til vikulegrar messu yfir sumartímann kemur enginn úr söfnuðinum, þessir tuttugu til þrjátíu sem koma  þá, þeir koma úr bænum, eða úr sumarbústöðum eða eru erlendir ferðamenn. Suma daga, einkum þegar veður er mjög gott koma ennþá færri, jafnvel ekki nema þrír til fimm.  Stundum er messað úti þegar gott er veður, 2004 þegar ég byrjaði að messa á Þingvöllum komu oft margir  eða 30 -50, en í seinni tíð fáir.  Kannski tíu.

Spurningin sem liggur til grundvallar þessu erindi:  Hvernig eflum við  helgihald sunnudagsmessunnar,  er ein af þeim spurningum sem glímt hefur verið við í tilefni af hinni margvíslegu starfsemi evangeliskra kirkna  á siðbótarafmælinu 2017.
Raunar er þessi spurning búin að vera miklu lengur á dagskrá, og ekki einungis meðal evangeliskra kirkna heldur kristinna kirkna almennt.  Til dæmis var hún ofarlega  á baugi  þegar  heimsráð kirkna kom saman í Uppsala 1968.  En eitt af því sem olli nokkurri furðu þá sem svar við því hvar karlmenn væru á messutíma frekar en að fara í kirkju, var að þeir væru annaðhvort að þvo bílinn, eða eigin líkama. Það er að segja hið fyrra vakti enga furðu, heldur hið síðara.

Vestur-Evrópubúar sóttu kirkju á sunnudögum vel, allan fyrri hluta síðustu aldar og vel fram yfir stríðslok. Þegar kom fram yfir 1960 fór kirkjusókn að dvína. Um þetta eru til margar kannanir og einnig um þær tilraunir til að að auka kirkjusókn með margvíslegum tillögum til breytinga á helgihaldinu sérstaklega á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar. Áhrifa Vatican II kirkjuþingsins gætti ekki aðeins innan kaþólsku kirkjunnar heldur hleypti nýju lífi í liturgiskar hreyfingar meðal evangeliskra kirkna.  Samtal kirkjudeildanna um sameiginlegan skilning þeirra á skírn, kvöldmáltíð og embætti á áttunda og níunda áratugnum virtist í fyrstu myndi bera árangur,  margir muna t.d. eftir Limaliturgíunni, en núna árið 2017 erum við enn föst á sama stað  og þá vegna ágreinings um embætti prestsins, og hina postullegu vígsluröð.  Kaþólska kirkjan hvikar hvergi frá því og sameiginlegur skilningur á eðli kristinnar kirkju milli orthodox kirknanna og hinna evangelisku er einfaldlega  ekki í sjónmáli.

 Eitt það gleðilegasta sem ekki aðeins styrkti öfluga samvinnu, kristinna manna óháð kirkjudeildum heldur hafði margvísleg áhrif til góðs í helgihaldinu var uppbyggingin í Taize í Frakklandi og starf og persóna  bróður Roger sem kom upphaflega úr evangelisk -reformertu kirkjunni. Þar mættist kristnin á grasrótarforsendum.  Nú er fegursti tími þessarar samvinnu  því miður liðinn. Og lauk á vissan hátt með morðinu á bróður Roger 16.ágúst 2005, en einnig með því að kaþólska kirkjan hefur tekið staðinn og hugmyndafræðina yfir. Þó er aðgangur gesta að sakramentinu ekki skilinn þröngt.

 Afmælisárið 2000 hér á Íslandi leiddi í ljós með ótvíræðum hætti, að staða kirkjunnar í samfélaginu og ef til vill einnig staða trúarinnar reyndist mun veikari en ráð hafði verið fyrir gert. Fyrir því eru örugglega margvíslegar ástæður.
Aðalatriðið er að staða kirkjunnar og trúarinnar á forsendum þjóðkirkjunnar, hefur ekki styrkst síðan og hlutfallsleg þátttaka í helgihaldi sunnudagsins hefur veikst, annarsvegar vegna hlutfallslegrar fækkunar í þjóðkirkjunni en einnig einfaldlega vegna minnkandi áhuga á því að sinna reglubundinni trúariðkun í samfélagi við trúsystkin.
Viðbrögð þjóðkirkjunnar voru þau eins og þið munið, að setja upp 10 ára prógram, til safnaðar- og kirkju uppbyggingar með einu lykilstefi fyrir hvert ár. Af því starfi varð margvíslegur árangur, einkum í aukinni ábyrgð sóknarnefnda og leiðtoga kirkjunnar, og vilja þeirra til að axla ábyrgð,  en samábyrgð þeirra sem mynda söfnuðinn á hverjum stað óx ekki að sama skapi.
Þetta er reyndar sameiginlegt vandamál allra kirkna og kirkjudeilda hér í Vestur- og Norður – Evrópu.
Ég sat synódus luthersku kirknanna í Magdeburg í Þýskalandi í lok október 2016, og ráðstefnu luthersku biskupanna  í Goslar í Þýskalandi um miðjan mars, sl. og átti fundi með kirkjuleiðtogum í evangelisku kirkjunni í Rheinland í byrjun apríl.
Fyrri samkomurnar eru alltaf haldnar með þátttöku biskupa skandinavisku kirknanna og þar gefst tími  til samtals og samanburðar.Ef ég myndi reyna að draga saman í eina setningu markverðustu fréttina í öllum samtölum sem fóra fram þá er hún þessi. Á sama tíma og bænalíf innan kristnanna dvínar, sýna kannanir að bænalíf meðal þeirra sem ekki eru skráð í kristna söfnuði  vex. Þetta  merkir að við stöndum frammi fyrir gríðarlega stórum og merkilegum áskorunum og tækifærum. Við öll, sem viljum vinna að heill kristinnar kirkju, með Jesú Kristi.
Margt er annars sameiginlegt í öllum kristnum kirkjum og kirkjudeildum árið 2017.
Hið fyrsta er þetta.  Guðsþjónusta er samkoma safnaðar í nafni Jesú Krists. Kirkjan sem líkami Jesú Krists á jörðu verður sýnileg þegar hún kemur saman um orð Guðs og útleggingu þess í samfelagi bænarinnar og sakramentanna, þar sem er sungið og tilbeðið undir leiðsögn einstaklinga sem söfnuðurin hefur valið til þess og treystir til þjónustu í Jesú nafni.

Hið annað er þetta.
 Engar grundvallar breytingar hafa verið gerðar á eðli og inntaki kristinnar guðsþjónustu frá siðbótartímanum.  Grundvallarrit Marteins Luther Formula missae og Deutsche Messe, sem og Heilög messa að hætti kaþólsku kirkjunnar, og hin guðdómlega Liturgía rétttrúnaðarkirknanna eru enn grundvallandi fyrir helgihaldið og messuna.
Nýungar í guðsþjónustuhaldi vegna möguleika hinna nýju samskiptamiðla, einkum frá árinu 2009 til dagsins í dag, hafa ekki haft áhrif á inntakið heldur miðlunina, og í raun ekki skilað því sem ætlað var að efla nefnilega markvissari samskipti trúsystkina í helgihaldi og tilbeiðslu.
Við vitum frá Jesú sjálfum að maður setur ekki nýtt vín á gamla belgi.
Hversvegna?  Þeir springa.
Hefur þetta merkingu gagnvart þeirri spurningu sem hér liggur til grundvallar ‘

 Hvernig hleypum við nýju lífi í hina almennu messu safnaðarins?
Undanfari þeirrar spurningar hlýtur að vera í fyrsta lagi önnur spurning:
Koma fáir til kirkju?  Og ef já,  hversvegna koma fáir til kirkju?

 Svar: þau finna ekki hjá sér neina þörf til þess að fara til kirkju.

Hversvegna?
Ég hef safnað saman nokkrum svörum sem ég hef mætt að undanförnu.  Þetta að undanförnu nær reyndar alveg til ársins 2000.
Ég nefni nokkur af handahófi ef þau gætu orðið hluti af samtali okkar hér á efir.
Ég trúi ekki / eða, ég trúi ekki lengur.
Ég hef enga trúarþörf.
Ég trúi, en ég tengi ekki trú mína við trú annarra.
Ég trúi en ég finn enga tengingu við messu eða guðsþjónustu í kirkjunni,
Ég bið til Guðs, en ég vil frekar gera það í einrúmi.
Ég bið aldrei með öðrum.
Ég tengi ekki við almenna bænagjörð í kirkjunni. Það er bara svona prestaþula.
Ég skil lítið af því sem lesið er úr Biblíunni. Ég les ekki í Biblíunni sjálf/ur.
Ég hef gaman af fallegum söng en er ekki alinn upp við að syngja sjálf/ur.  Mér finnst mest af því sem sungið er í kirkjunni drungalegt og leiðinlegt.

 Hvenær ferð þú í kirkju?  Svar:
Við jarðarfarir.
Þegar er skírn eða ferming í fjölskyldunni.
Við kirkjubrúðkaup.
Hvað gæti þetta verið oft á ári ?
Svar: Svona tvisvar- þrisvar.  Sum árin eru fleiri jarðarfarir.

Tvö til þrjú prósent kristinna einstaklinga á Íslandi fara reglulega, það er að segja  að jafnaði vikulega í messu.  Hið sama gildir almennt í NORÐUR EVRÓPU.
Hvað er þá til ráða?  Eða er þetta ef til vill ásættanleg niðurstaða.

Algengt að svara því til þegar rætt er um litla kirkjusók á sunnudögum að svara því til að það sé starfsemi hbern einasta dag í kirkjunni.  Ekki bara á sunnudögum eina og einu sinni var.  Það er alveg laukrétt.  En laukrétt er einnig, að það eru aðeins fáir sem mæta líka þar.  Það er líka sameiginlegt vandamál í öllum kirkjum norður og vestur Evrópu.
Eftir sem áður eru lykilmál helgihalds mjög einföld.
Að koma saman í Jesú nafni.
Að byggjast upp saman
Að vera send út saman.
Orðið – bænin – útleggingin – samfélagið við borðið.

Hvaða ráð eru góð til þess að styrkja helgihaldið.
Svar:
Að fjölga starfandi þáttakendum í messunni
Að  fjölga skírnum og láta skírnarathöfnina  sjálfa móta guðsþjónustuferlið
Að gera meira með fermingarbörnum
Að gera meira úr almennu kirkjubænininni Sá sem fer til kirkju þarf að heyra þar að hans og hennar málefni, og áhyggjuefni og þakkarefni eigi pláss á samkomum safnaðarins.
Að styrkja litlu hópana og leyfa þeim að verða meiri áhrifavaldar í helgihaldinu.
Að auka sönginn. Ekkert tengir fólkið betur saman er söngurinn.
Við höfum lært að hlusta á raddir  rythma fjarlægra þjóða og kirkna, og söngva þeirra
Og :  Við þurfum að heyra  raddir sem tala máli þeirra sem hafa enga rödd nema okkar rödd.
Og við þurfum að lifa guðsþjónustuna í okkur sjálfum jafnt í kirkjunni sem samkomustað truarinnar  og í kirkjunni meðal fólksins á akrinum og í önn og amstri daglegs lífs,  með Jesú, - fyrir hann, með honum og í honum.