Tillaga að nýju skírnarrítuali

SKÍRNIN

 

Tillaga um nýtt og breytt skírnarform.

Tillaga sú sem hér fylgir víkur frá gildandi skírnarformi handbókar Þjóðkirkjunnar á eftirfarandi hátt:

1. Skírnarskipunin sjálf er aðgreind frá öðrum ritningarstöðum og kemur alveg í upphafi. 

2. Krosstáknið fylgir inngöngunni og er því alveg fyrst í athöfninni og er aðskilin frá spurningunni um nafn og hinni eiginlegu skírnarathöfn. Ástæðan er meðal annars sú að vænta má að oftar þurfi að grípa til prímsigningar í framtíðinni vegna hjónabanda einstaklinga af mismunandi þjóðernum og trúarskoðunum.

3. Í stað hins hefðbundna og fyrirskrifaða ávarps í upphafi getur prestur haft hugleiðingu um skírnina, eða predikað út frá skírninni ef skírt er í almennri guðsþjónustu. Eftir sem áður fylgir ávarp í upphafi sem prestur getur notað ef svo ber undir.

4. Vatnið í skírninni fær sérstaka áherslu með því að einhverjum úr hópi skírnarfólksins er falið að koma með vatnið og hella því í skírnarfontinn.

5. Hér er gert ráð fyrir því að foreldrar og guðforeldrar svari því til hvort þau vilja ala barnið upp í kristinni trú.

6. Barnaguðspjallið fær sérstakt vægi með því að vera lesið eftir að foreldrar og guðforeldrar hafa lýst því yfir að barnið verði alið upp í kristinni trú.

7. Þegar Barnaguðspjallið hefur verið lesið biður skírnarfólkið með prestinum Faðir vor og allir leggja hönd á höfuð barnsins um leið.

8. Að loknum skírnarsálmi fara allir með Trúarjátninguna. Á undan fylgir inngangur þar sem lögð er áhersla á tenginguna milli trúar og skírnar þar sem barnið sem enn getur ekki játað trúna er skírt á grundvelli þeirrar trúar sem forsjárfólk barnsins játar.

9. Eftir trúarjátninguna fylgir skírnarathöfnin sjálf með hefðbundnum hætti þar sem spurt er að nafni. Í undirbúningi skírnarathafnarinnar er sjálfsagt og eðlilegt að gefa foreldrum kost á því að þau á þessum stað í athöfninni geri grein fyrir því hvernig þau völdu nafnið.

10. Eftir skírnarathöfnina og kerti hefur verið afhent (ef vill) fylgir fyrirbæn fyrir barninu. Þar er gert ráð fyrir því að í undirbúningi skírnarinnar hafi verið lögð áhersla á að skírnarvottar eða aðstandendar geti borið fram bæn fyrir barninu og aðstandendum þeirra frá eigin brjósti. Þá fylgir sú bæn fyrirbæn prestsins.

 

     I.         UPPHAF OG INNGANGA

Prestur tekur á móti skírnarfólkinu við kirkjudyr. Prestur býður fólkið velkomið og gengur síðan með því inn kirkjuna. Þegar það er mögulegt, eins og til dæmis þegar skírt er í messu, er leikið á orgelið og síðan fylgir fyrsti sálmur sem þá er skírnarsálmur.

Ávarp

Prestur: Friður Guðs sé með ykkur öllum.

Allir:  Amen ( eða : Og með anda þínum)

Presturinn flytur ávarp frá eigin brjósti eða það ávarp sem hér fylgir, orðrétt eða með eigin orðum: (Hér fylgi tillaga um orðalag ávarps!)

Skírnarskipunin

Prestur: Góð systkin. Þið eruð hingað komin til þess að barnið ykkar verði skírt. Kristin kirkja skírir í samræmi við vilja Drottins og frelsara okkar Jesú Krists og í trausti til fyrirheita hans. Þessi vilji Drottins kemur fram í þeim orðum hans sem kallast Skírnarskipunin.


Ritað er í guðspjalli Mattheusar:

Jesús sagði: „Allt vald er mér gefið á himni og jörðu. Farið því og gerið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður og sonar og heilags anda og kennið þeim að halda allt það sem ég hef boðið yður. Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar.“ (Matt. 28. 18-20)

Enn fremur er ritað í guðspjalli Jóhannesar:

Því svo elskaði Guð heiminn að hann gaf einkason sinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf. (Jóh. 3.16)

Krosstáknið

Prestur snýr að skírnarbarninu

Jesús Kristur tekur þetta barn að sér. Þess vegna signum við það með tákni krossins:

Presturinn gerir tákn krossins á enni og brjóst barnsins og segir.

Tak á móti tákni krossins á enni þitt + og brjóst + til vitnisburðar um að hugur þinn og hjarta á að helgast fyrir trúna á hinn krossfesta og upprisna Drottin Jesú Krist sem hefur endurleyst þig. Nú tilheyrir þú Kristi.

Bæn

Drottinn Jesús Kristur, þú sem ert frelsari okkar og lausnari við biðjum þig. Gjör rúm í hjarta þessa barns fyrir þig að þú megir ævinlega dvelja hjá því. Þú opnaðir augu hinna blindu og leystir tungu hinna mállausu. Opna augu þessa barns svo það megi sjá gæsku þína og opna munn þess að það megi lofa þig og leggja gott til með þeim orðum sem það mun mæla. Lát það læra að þekkja þig og lifa í gleði í söfnuði þeirra sem á þig trúa, ásamt öllum þeim sem þér tilheyra um alla veröld. Þess biðjum við þig í trausti til þíns eilífa kærleika.

A. Amen.

Prestur: Drottinn varðveiti inngöngu þína og útgöngu héðan í frá og að eilífu. 

A: Amen.[1]

   II.         BOÐUN ORÐSINS

Skírnarsálmur

Skírnarpredikun eða hugleiðing [2]

Skírnarsálmur, eða önnur tónlist [3]

Á meðan skírnarsálmurinn er sunginn ganga prestur, foreldrar og guðforeldrar ásamt systkinum barnsins með barnið að skírnarfontinum. Meðhjálpari kirkjunnar eða einhver úr hópi aðstandenda eða guðforeldra heldur á könnu með vatni og þegar komið er að skírnarfontinum hellir hann vatninu í fontinn og mælir, (eða einhver annar úr hópnum):

Drottinn Guð, við biðjum þig að blessa þetta vatn. Auk okkur trú og traust á kraft og blessun skírnarinnar sem við höfum þegið að gjöf frá þér. Amen.

Bæn

Prestur: Drottinn Guð, skapari heimsins og gjafari lífsins. Þú vökvar jörðina og gefur öllu mannkyni líf og heilsu. Við vatnslindir veitir þú næði og svölun þreyttum og þyrstum. Þökk sé þér fyrir vatnið, sem gefur heiminum líf.


Þökk sé þér að þú hefur tengt fyrirheit þitt vatni skírnarinnar: að hver sem trúir og tekur skírn mun verða hólpinn. 

Í upphafi sveif þinn heilagi andi yfir vötnunum, hann kom yfir son þinn Jesú Krist í skírn hans og með honum endurfæðir þú börn þín í skírninni.

Hversu dýrlegt er nafn þitt um alla jörð, eilífi Guð. Send anda þinn yfir þessa skírnarlaug svo sem í upphafi, er þú skapaðir ljósið og lífið með orði þínu og andi þinn sveif yfir vötnunum. Fyrir Jesú Krist sé þér, heilagi faðir, + í einingu heilags anda, heiður og dýrð um aldir alda. (Presturinn gerir krossmark yfir skírnarvatninu)

Spurningar til foreldra og guðforeldra (skírnarvotta)

Prestur: Í skírninni tekur Guð barnið að sér sem sitt barn. Hann frelsar það frá öllum mætti hins illa og gefur því eilíflega hjálp. Hann vill að við tökum við þeirri skírnargjöf í trú og varðveitum hana. Til þess að svo megi verða þarf barnið aðstoð frá foreldrum sínum og guðforeldrum.

Kæru foreldrar, (kæru NN og NN)

Við höfum öll þegið líf okkar úr hendi Guðs. Þegar þið tókuð á móti barninu ykkar þá var það skaparans til ykkar. Í kærleika ykkar til barnsins mun það finna traust og öryggi sem það getur síðar tengt við nafn Guðs og gæsku hans. Kærleikur Jesú Krists er stærri en okkar. Þess vegna er ykkur með skírninni falið það hlutverk að leiða barnið ykkar til trúar á hann og að kenna því að biðja.

Kæru guðforeldrar!

Þið eruð fulltrúar hins kristna safnaðar fyrir þetta barn. Þess vegna spyr ég ykkur: Eruð þið tilbúin til þess að taka að ykkur skyldur guðforeldra við barnið, að biðja fyrir því, að styrkja það í erfiðum aðstæðum og hjálpa því til að verða lifandi grein á meiði kirkju Jesú Krists?

Ef þið, foreldrar og guðforeldrar, eruð tilbúin til þessa þá svarið: Já, með Guðs hjálp.

Allir: Já, með Guðs hjálp.

Prestur:  Guð veri með ykkur og blessi í náð sinni allt það góða sem þið gerið fyrir þetta barn.

Barnaguðspjallið

Prestur: Heyrið nú frásögnina af því hvernig Jesús Kristur kallaði börnin til sín og blessaði þau. Ritað er í Markúsarguðspjalli 10. kafla:

Menn færðu börn til Jesú að hann snerti þau en lærisveinarnir átöldu þá. Þegar Jesús sá það sárnaði honum og hann mælti við þá: „Leyfið börnunum að koma til mín, varnið þeim eigi því að slíkra er Guðs ríki. Sannlega segi ég ykkur: Hver sem tekur ekki við Guðs ríki eins og barn mun aldrei inn í það koma.“ Og Jesús tók þau sér í faðm, lagði hendur yfir þau og blessaði þau. (Mark. 10. 13-16)

Signing með Faðir vor

Prestur:  Samkvæmt þessum orðum viljum við biðja Jesú að blessa einnig þetta barn. Við skulum leggja hönd yfir barnið eða á höfuð þess og biðja eins og Drottinn sjálfur kenndi okkur.

Presturinn, foreldrarnir og skírnarforeldrarnir og einnig yngri og eldri systkini barnsins ef við á leggja hönd sína á höfuð barnsins eða axlir og biðja ásamt öllum viðstöddum : 

Allir: 

Faðir vor, þú, sem ert á himnum.
Helgist þitt nafn, til komi þitt ríki,
verði þinn vilji svo á jörðu sem á himni.
Gef oss í dag vort daglegt brauð.
Og fyrirgef oss vorar skuldir
svo sem vér og fyrirgefum
vorum skuldunautum.
Eigi leið þú oss í freistni,
heldur frelsa oss frá illu.
Því að þitt er ríkið,
mátturinn og dýrðin
að eilífu. Amen.

 III.         SKÍRNARATHÖFNIN

Skírnarsálmur

Hér má syngja skírnarsálm eða barnasálm, en einnig fer vel á því að á þessum stað flytji einhver úr fjölskyldunni eða guðforeldranna sálm eða aðra tónlist hafi það ekki verið gert fyrr í athöfninni.

Trúarjátningin

Prestur: Kæru foreldrar og guðforeldrar.

Í trausti til fyrirheita Drottins Jesú Krists hafið þið komið með barnið ykkar hingað til þess að það verði skírt. Skírn og trú heyra saman. Þess vegna skulum við játa saman þá trú sem kristið fólk á jörð er skírt til. Með því játumst við Guði, sem er einn Guð, í syni og heilögum Anda. Í þeirri trú sem við játum, á þetta barn að vaxa inn í hið kristna samfélag undir leiðsögn ykkar foreldranna og guðforeldranna í samræmi við fordæmi ykkar, borið uppi af fyrirbæn og trú ykkar. Barnið ykkar getur ekki játað enn sína kristnu trú. En Kristur vill gefa því hlutdeild í gjöfum síns eilífa ríkis. 

Þegar við hér og nú játum okkar trú þá gerum við það einnig fyrir hönd þessa barns og segjum:

Ég trúi á Guð, föður almáttugan, skapara himins og jarðar.
Ég trúi á Jesú Krist, hans einkason, Drottinn vorn, sem getinn er af heilögum anda, fæddur af Maríu mey, píndur á dögum Pontíusar Pílatusar, krossfestur, dáinn og grafinn, steig niður til heljar, reis á þriðja degi aftur upp frá dauðum, steig upp til himna, situr við hægri hönd Guðs föður almáttugs og mun þaðan koma að dæma lifendur og dauða.
Ég trúi á heilagan anda, heilaga almenna kirkju, samfélag heilagra, fyrirgefningu syndanna, upprisu mannsins og eilíft líf.

Skírnin

Prestur: Hvað á barnið að heita? Eða: Hvað heitir barnið?

Móðirin eða faðirinn eða einhver annar í hópi guðforeldra eða aðstandenda nefna nafn barnsins ( Ef vill geta foreldrarnir áður en þau nefna barnið sagt frá því hvernig þau völdu nafnið, og eða hvaða merkingu það hefur, eða ef við á hver hefur áður borið það nafn í fjölskyldu- eða vinahópi).

Þegar nafnið hefur verið nefnt eys presturinn barnið vatni þrem sinnum með þeim hætti sem allir viðstaddir mega vel sjá, um leið og hann segir:

Prestur: N, ég skíri þig í nafni föður (eys vatni), sonar (eys vatni) og heilags anda (eys vatni).

Skírnarblessun

Þá leggur presturinn hönd á höfuð barninu og mælir:

Prestur: Almáttugur Guð, faðir Drottins vors Jesú Krist, sem nú hefur endurfætt þig fyrir vatn og heilagan anda, og tekið þig í ríki síns elskaða sonar, þar sem er fyrirgefning syndanna, líf og sáluhjálp, hann styrki þig með náð sinni til eilífs lífs. Friður sé með þér.

Foreldrar og guðfeðgin svara: Amen.

Skírnarkertið

Skírnarkertið er tendrað af Páskakertinu  eða af altariskerti. 
Presturinn mælir (til skírnarbarnsins):
Prestur: Jesús segir:  Ég er ljós heimsins. Hver sem fylgir mér mun ekki ganga í myrkrinu heldur hafa ljós lífsins. NN. Ég afhendi þér þetta logandi ljós til merkis um að Kristur er ljós lífs þíns.
Presturinn réttir einhverjum úr hópi guðforeldranna hið logandi kertaljós.

Skírnarfólkið gengur til sæta sinna (ef við á).

 IV.         LOKABÆN OG BLESSUN

Bæn

Æskilegt er að við undirbúning skírnarinnar og í samtali prests við skírnarfólkið sé rætt um þann möguleika að einhver úr hópi guðforeldra, systkina eða ættingja semji sérstaka bæn fyrir skírnarbarninu og ástvinum þess og biðji þeirrar bænar á þessum stað í athöfninni.
Þegar þeirri bæn lýkur biður presturinn þeirrar bænar sem hér fylgir:

Prestur:: Við skulum biðja.

Almáttugi, miskunnsami Guð, þú sem byggir kirkju þína með Orði þínu og leyndardómum sakramenta skírnar og kvöldmáltíðar og kallar fólk inn í samfélag sonar þíns Jesú Krists. Við þökkum þér að þú hefur endurfætt einnig þetta barn (nafn barnsins) í heilagri skírn til nýs lífs. Við biðjum þig: Varðveit það í þeirri skírnarnáð sem það hefur þegið frá þér. Varðveit okkur og þau öll sem eru skírð í sannri trú og í samfélagi kirkju þinnar. Í Jesú nafni. Amen

Blessun

Prestur: Rísið úr sætum og takið á móti blessun Guðs.

Drottinn blessi þig og varðveiti þig.
Drottinn láti sína ásjónu lýsa yfir þig og sé þér náðugur.
Drottinn upplyfti sínu augliti yfir þig og gefi þér frið. 
Amen.

Útganga (og eftirspil ef við á)

 

SKÍRNIN- Yfirlit

I.        Upphaf og innganga
Ávarp
Skírnarskipunin
Krosstáknið
Bæn

II.      Boðun Orðsins
Skírnarsálmur
Skírnarpredikun eða hugleiðing 
Skírnarsálmur, eða önnur tónlist 
Bæn
Spurningar til foreldra og guðforeldra (skírnarvotta)
Barnaguðspjallið
Signing með Faðir vor

III.          Skírnarathöfnin
Skírnarsálmur
Trúarjátningin
Skírnin
Skírnarblessun
Skírnarkertið

IV.          Lokabæn og blessun

Bæn
Blessun
Útganga (og eftirspil ef við á) 

______________________________________________

[1] Þessi orð getur prestur mælt til barnsins eftir játningu trúarinnar, áður en það er skírt.

[2] Þegar skírt er í messu er eðlilegt að skírnarathöfnin komi í stað alls fyrri hluta messunnar til og með predikuninni. Þá er skírnin meginstef predikunar dagsins, þó svo að predikarinn kjósi að taka einnig til umfjöllunar ritningartexta þess sunnudags. Sé ekki skírt í messu heldur í sjálfstæðri athöfn í kirkju eða heimahúsi hugleiðir presturinn á þessum stað í athöfninni ásamt söfnuðinum það sem honum / henni býr í brjósti að segja um skírnina.

[3] Hér er bæði hægt að syngja sálm sem allir syngja eða systkini barnsins eða aðrir úr hópi fjölskyldu og vina syngja eða leika á hljóðfæri. Einnig má lesa ljóð.