Tíu (Til)boð kirkjunnar

Meðan ég enn var við kennslu í guðfræðideild vann ég eftirfarandi texta upp úr texta sama efnis frá evangelisku kirkjunum í Þýskalandi. Textinn er einskonar bréf til þeirra sem eru að hugleiða samband sitt við söfnuðinn.  Mér sýnist að hann hafi enn mikið gildi, og geti jafnvel gagnast í umræðum um þjóðkirkjuna, stöðu hennar og framtíð.


1. (Til)Boð:
Finndu trú þinni farveg í félagsskap með öðrum.
Kirkjan er afar stór félagsskapur og margbreytilegur. Hún er vettvangur þar sem fólk tjáir trú sína og tjáir sig um trú sína. Þannig finnur það leiðir og hvatningu til að fást við spurningar um upphaf, tilgang og takmark lífsins og einnig þær sem varða eigin hag og líf.
Kirkjan býður til samveru í margskonar kirkjustarfi fyrir eldri og yngri. Hún býður til messu sunnudagsins og til guðsþjónustu með ýmsu sniði á helgum dögum og virkum og á ýmsum tímum dags.
Kirkjan er ekki lokaður klúbbur sem býður bara fastagestum. Hún býður einnig þeim að koma sem eru ókunnug, ekki hafa komið áður eða komu síðast fyrir mörgum árum.
Samfélagið í kirkjunni krefst engrar færni á félagsmálasviði heldur er það allt að einu fyrir þau sem hafa enga reynslu í félagsstarfi og finna jafnvel til einmanaleika jafnt í margmenni sem ein saman.
Þátttaka í kirkjustarfi auðveldar skrefið út úr einsemdinni inn í samfélag þar sem hægt er að gleðjast með öðrum og fagna því að vera hluti heildar og með í hóp.
Kirkja er samfélag um trúna. Þetta samfélag á sér heimili í kirkjunni í nágrenni þínu, en það leitar lengra og er miklu stærra. Þjóðkirkjan er lítil systir í stóru samfélagi, stórri fjölskyldu kirknanna. Kirknasamfélagið er eins og ættartré. Einnig þar eru sumir ættingjarnir fjarskyldir og sumir þekkjast lítið og aðrir talast varla við. Nánustu ættingjarnir eru þau sem tilheyra hinni lúthersku kirkju, eins og kirkjum Norðurlandanna og lútherskum kirkjum í Þýskalandi og í Bandaríkjum Norður-Ameríku eða í Afríku. Næstum allsstaðar í heiminum getur þú þessvegna fundið samstarfsfólk og fulltrúa kirkjunnar þinnar.

2. (Til)Boð :
Taktu á móti skilaboðum Guðs um kærleika og von.
Boðskapur biblíunnar sem kallaður er fagnaðarerindið (evangelium) þýðir í raun: góðar fréttir. Þessar góðu fréttir heyrast einkum í guðsþjónustunni þar sem söfnuðurinn kemur saman.
Hinar góðu fréttir fjalla um það hversu vænt Guði þykir um okkur og um allar manneskjur og um alla sköpun sína; náttúruna, fjöll og dali, skóg og gras, fugla og fénað, fiska og fiðrildi. 
Við heyrum þessar góðu fréttir í orði Biblíunnar og útleggingu þess, sjáum þær í hreyfingu og atferli skírnarinnar og megum bragða á þeim í heilagri kvöldmáltíð. Þrá mannsins eftir blessun er heyrð og uppfyllt.
Þannig er kirkjuganga sunnudagsins blessunarríkur grundvöllur hversdagsins hina virku daga. Þú færð kraft og kjark til þess að missa ekki móðinn og glata ekki voninni í erfiðum aðstæðum.

3. (Til) Boð:
Gefðu lífi þínu nýjan tilgang.
Í kristinni trú varðveitir kirkjan sannleika sem enginn maður getur búið sér til. Þetta er sannleikurinn sem Jesús Kristur lifði í og bar vitni um. Hann gefur lífi þínu tilgang og sérstaka ábyrgð.
Í kirkjunni er sérhver manneskja tekin alvarlega sem einstaklingur með styrkleika og veikleika, ólíkar þarfir og sérkenni.
Í því að mega vera maður sjálfur felst hvatning til að taka ábyrgð á gerðum sínum, sérstaklega gagnvart öðrum. Það er jafnframt hvatning til þess að taka þátt í starfi kirkjunnar og styðja hana í störfum sínum. Kirkjan þarfnast aðstoðar þeirra sem vilja starfa sem sjálfboðaliðar í kirkjunni. Með þátttöku í slíku starfi getur þú gefið lífi þínu nýjan tilgang

4. (Til) Boð:
Axlaðu ábyrgð.
Guð sem skapað hefur heiminn vinnur enn að sköpun sinni. Hann er vinur lífsins. Með því setur hann okkur ákveðin viðmið. Þar á meðal eru umburðarlyndi og hugmyndaauðgi, þolinmæði og náungakærleiki og kjarkur til að tjá skoðun sína og standa við hana. Þetta eru gildi sem gefa lífi þínu tilgang og skapa skilyrði til þess að eiga samleið með mörgum í þessum heimi.
Þetta eru gildi sem Jesús Kristur lifði í á undan þér. Og eins og frásagnir Biblíunnar greina frá voru þau ríkjandi einkenni, kynslóð eftir kynslóð.
Ábyrðgarfullt líf þar sem þú hugsar út yfir þín eigin takmörk er frum-kristilegt líf. Í starfi þínu fyrir aðra til dæmis í sjálfboðaliðastarfi í kirkjunni getur þú axlað ábyrgð.

5. (Til) Boð:
Upplifðu fjölbreytni.
Starfsemi kirkjunnar er litrík, fjölbreytileg og tilbreytingarík. Þau sem koma saman í kirkjunni staðfesta það þegur þú horfir yfir hópinn. Þarna eru ungir sem aldnir, þarna eru gamlar hefðir og nýungar, krefjandi viðfangsefni og afslappað andrúmsloft, hátíðlegt og hversdagslegt, venjulegt og óvenjulegt, andlegt og veraldlegt. Semsagt marglit og skrautleg fjölbreytni, sem þú ert hluti af!

6. (Til) Boð:
Fylgstu með farvegi tímans.
Kirkjan helgar árið með hátíðum sínum. Jól, páskar, hvítasunna; þrjár stórhátíðir kirkjunnar móta framvindu ársins. Margar aðrar hátíðir í lífi einstaklings og þjóðar fá nýjan tilgang og grundvöll samkvæmt forsendum Biblíunnar og venjum kirkjunnar. Ef þú tekur á móti þessum hátíðum og heldur þær hátíðlegar í samræmi við hið kristna tilefni þeirra þá getur þú vafalaust borið vitni um að það er það mjög sérstök reynsla. Allir dagar og stundir milli þeirra fá nýjan hljóm sem rís hæst hvern sunnudag, sem er dagur Drottins.

7. (Til) Boð:
Leyfðu öllum skilningarvitunum að taka þátt í skynjun þinni.
Sú þörf mannanna að fela líf sitt vernd æðri máttar er tekin alvarlega í kirkjunni. Í guðsþjónustunni gerist eitthvað óútskýranlegt. Það er. Maður finnur það og skynjar það án þess þó að geta sagt hvað það nákvæmlega er. Þetta hið sérstaka fylgir manneskjunni allt líf hennar, við skírn og fermingu og eins við giftingu eða útför.

8. (Til) Boð:
Taktu þátt í uppfræðslu um trúna.
Nú á dögum eru fjölmörg tækifæri til að afla sér þekkingar á kristinni trú og vaxa upp sem kristinn maður. Fyrir utan skyldunám grunnskólanna í kristnum fræðum býður kirkjan marga möguleika til aukinnar kristinfræðslu. Mömmumorgnar eða fjölskyldumorgnar kirkjunnar eru fyrsta skrefið. Fermingarfræðslan er nánast eins og sjálfsagður hlutur í langflestum fjölskyldum. Nokkuð stór hópur barna sækir reglulega barnaguðsþjónustur eða annað starf fyrir börn á sunnudögum. Þannig eru kristin gildi og kristið gildismat kynnt fyrir stórum hluta íbúa þessa lands frá fyrstu bernsku. Þar með er lagður grunnur að samfélagi á grundvelli trúarinnar.
Til að viðhalda grunnþekkingu sinni og læra meira eru margar mismunandi leiðir í hverjum söfnuði. Leikmannaskóli Þjóðkirkjunnar er skipulögð fullorðinsfræðsla kirkjunnar. Á hverjum vetri er boðið upp á fjölbreytt námskeið til þjónustu við þau sem vilja dýpka skilning sinn í trúarlegum efnum.

9. (Til)Boð:
Þú getur alltaf fundið opið eyra.
Það er einkenni þeirra tíma sem við lifum, að allt þarf að ganga hratt fyrir sig. Þess vegna fækkar þeim sem eru tilbúin til að hlusta, á sama tíma og þörfin fyrir að einhver vilji hlusta vex.
Í sálgæsluhlutverki sínu mætir kirkjan þér með opnum hug og opnu eyra. Þessu hlutverki sinna fyrst og fremst prestarnir, hver á sínum stað, en einnig djáknar þar sem þeir eru að starfi. Fjölskylduþjónusta kirkjunnar sinnir veigamiklu hlutverki á þessu sviði eins og líka starfsfólk Hjálparstarfs kirkjunnar.
En þegar fagfólkið getur ekki annað verkefnunum af því að það er enn svo fátt þá erum við minnt á að við, kristnar manneskjur, erum öll kölluð til þess að hafa tíma hvert fyrir annað. Tíma til að hlusta. Alveg sama hvert vandamálið er og alveg sama hverjar kringumstæður eru.

10. (Til) Boð:
Komdu til hjálpar.
Ótrúlega margt fólk er að starfi í þjónustu kirkjunnar í heiminum og hér á landi. Þau sem hafa það að aðalstarfi, eru á launaskrá safnaðanna eða kirkjunnar eru aðeins lítið brot þeirra.
Margt fólk hefur valið sér starfsvettvang í því skyni að geta þjónað Jesú Kristi og markmiðum kirkjunnar og trúarinnar annarsstaðar en á beinu starfssvæði Þjóðkirkjunnar. Þar má til dæmis benda á margt hjúkrunarfólk og kennara.
Margt fólk starfar á mörgum mismunandi stöðum við það að gera öðru fólki lífið léttbærara. Það starfar á sjúkrastofnunum og líknarstofnunum, við ráðgjöf og við heimsóknir , á fjölskyldumorgnum og í öldrunarþjónustu. Ekki má gleyma þjónustu prestsheimilisins einkum í hinum dreifðu byggðum.
Á fjöldamörgum stöðum samfélagsins eru karlar og konur sem annast um sína í kærleika.
Þörfin fyrir þessa þjónustu vex sífellt. Kristin kirkja getur aldrei falið einungis opinberum stofnunum að sjá um náungakærleikann, þótt þar séu sannarlega unnin miskunnarverk. Það er eðli hennar að axla þá ábyrgð einnig sjálf.
Verkefnin eru hinsvegar miklu stærri en svo að fastráðnir starfsmenn kirkjunnar fái annað þeim. Ef kirkjan vill vera trúverðug í samfélaginu og vera það sem hún er, kirkja Jesú Krists, líkami hans á jörðu, þá verður að koma til mjög aukin þátttaka sjálfboðaliða í starfi hennar.
Hlutverk hennar er ekki bara í næsta nágrenni á hverjum tíma. Kirkjan hefur alltaf ábyrgð gagnvart öllum heiminum. Við þeirri ábyrgð þarf kirkjan líka að bregðast, ef hún vill vera kirkja.

Það bíða þín næg verkefni!