Um atferli prests og safnaðar

Hér fylgja nokkur orð um atferli prests og safnaðar í messu og við athafnir í kirkju. Ráðandi um atferli prests og safnaðar er m.a þetta:

Kirkjuhús eru byggð utan um helgiathafnir kristins safnaðar. Það er meginregla. Frumforsendur byggingarinnar eru því þarfir helgihaldsins. Atferli prests og safnaðar ræðst að nokkru af byggingunni sjálfri.

Prestur er sendur af hinni almennu kirkju en valinn af heimasöfnuði. Þetta endurspeglast í atferli hans í guðsþjónustunni:
Prestur þjónar sendingu hinnar almennu kirkju með því að hann flytur söfnuði boð Drottins og kenningu kirkjunnar. Prestur snýr að söfnuði.

Prestur þjónar söfuði sem leiðtogi hans með því að hann flytur fram bænir safnaðarins og leiðir bænargjörð hans til Guðs. Prestur snýr að altari.

 

Söfnuður kemur saman til samkomuhalds í nafni Jesú Krists. Það er guðsþjónusta. Atferli safnaðar á samkomum hans í nafni Jesú Krists tekur mið af því. Söfnuður gengur inn til fundar við frelsara sinn, hann hlýðir á orð hans, tilbiður hann, biður til hans og lofar hann í orðum og tónum.

Beinar forsendur atferlis prests og safnaðar eru því ma þessar:
Að sýna lotningu hinum lifandi Drottni og auðmýkt hinu heilaga.
Að aga prestinn.
Að kenna söfnuðinum.

 

Hvert er þá hlutverk atferlis?Atferli prests leiðir athygli safnaðar að kjarna þess sem fram fer samkvæmt hinu trúarlega innihaldi og boðskap.  Atferli sem ekki þjónar innihaldi og boðskap athafnarinnar á ekki við. Ef atferli prests og safnaðar agar prestinn en leiðbeinir söfnuðinum, hvað merkirþað?
Atferlið tjáir nærveru Guðs í Jesú Kristi, það tjáir lotningu og virðingu fyrir hinum ósynilega Guði sem er nærri í orði sínu og sakramentum og því sýnilegur í náðarmeðulunum, en einig í nærveru safnaðarins. 
Líkt og í dæmisögunni um miskunnsama samverjann, þar sem Kristur er í senn veitandi og þiggjandi dæmisögunnar, er þjónusta guðsþjónustunnar á sama tíma þjónusta Krists við söfnuð sinn og þjónusta safnaðarins við Krist. 
Þetta er það sem átt er við þegar sagt er að þjónustan sé í Kristi.

Hin raunverulega nálægð Krists í söfnuðinum mótar fremur en nokkuð annað atferlið á samkomum kristninnar, sem og uppbyggingu og innihald guðsþjónustunnar.