Bæn í skarkala

Í frásögnum afkristnu fólki á Írlandi og Skotlandi á fyrstu öldum kristni þar, ber mikið á lönguninni til að hverfa frá skarkala heimsins og vera ein(n) með Guði. Margir tóku sér bólfestu á litlum eyjum skammt frá landi. Oft voru þessar eyjar tengdar landi á fjöru en einangruðust á flóði.

Heilagur Aidan sem uppi var á sjöundu öld, eða í þann mund sem talið er að fyrstu keltnesku kristnu einsetumennirnir gætu hafa komið  til Íslands, setti þessa hugsun fram í bæn sem búa má í íslenskan búning með þessum hætti með góðum kveðjum til allra sem vilja leita skjóls frá skarkalanum:

Ég vil vera ein(n)með Guði mínum
eins mikið og ég get.
Líkt og þegar flóðið kemur
og fellur að fjörusandinum
lát mig vera eins og eyjan
sem afmarkast þá og greinir sig frá.

Alein(n) með þér, Guð, 
sem helgar mig,
og ég helga mig þér.

Þegar fjarar aftur
þá bú mig út
til að sinna hlutverki mínu
hinumegin, 
á fasta landinu,
í ys og þys mannlífsins í heiminum.

Þessi heimur steypist yfir mig,
og dynur allt í kringum mig,
þangað til flæðir aftur að 
og ég er aftur ein(n) með þér.