Fyrir ekki alllöngu birtist grein í Fréttablaðinu þar sem gerð var tillaga um að breyta hinum tómu ríkisreknu kirkjum landsins í félagsmiðstöðvar þar sem fram færi ýmisleg iðja. Nokkrir hafa brugðist við þessari tillögu á þann veg að benda á að í fyrsta lagi séu kirkjur landsins ekki ríkisreknar og í öðru lagi standi þær ekki tómar, allavega ekki þar sem nokkurt þéttbýli er í kringum þær. Þetta er alveg laukrétt og auðvelt að staðfesta það með gildum rökum. Þessi grein fjallar ekki um það. Hún fjallar um kirkjur sem standa tómar, þegar þær standa tómar, og hlutverk þeirra líka þegar þær standa tómar.
En af því að maður gæti haldið að allar kirkjur stæðu tómar allavega yfir nóttina, er sérstök ánægja að minnast þess að það gera þær einmitt ekki alltaf , eins og til dæmis þær nætur þegar ungdómurinn í kirkjunni vakir allan sólarhringinn í kirkjunni sinni í þjónustu einhvers góðs málefnis.
Eitt hið merkasta, dýrmætasta og ánægjulegasta hlutverk biskupsþjónustunnar er að heimsækja söfnuði og presta með reglulegu millibili. Biskupar og prófastar vísitera, eins og það er kallað, samkvæmt gamalli hefð. Á síðastliðnu ári vísiteraði ég Vestfjarðaprófastdæmi ásamt prófastinum, séra Magnúsi Erlingssyni. Við heimsóttum allar kirkjur og kirkjugarða í prófastdæminu og hittum sóknarnefndir og kirkjuhaldara. Hið sama gildir um Vestfjarðaprófasdæmi eins og sérhvert prófastdæmi landsins að þar eru margar kirkjur. Raunin er sú að þær kirkjur sem eru utan þéttbýlis standa tómar lengstan hluta ársins. Þar er messað einu sinni, fjórum sinnum eða tíu sinnum á ári, þar er kannski ein jarðarför, kannski fimm jarðarfarir á ári og ein eða engin skírn eða hjónavígsla eða í besta falli fáeinar. Hið rekstrarlega bakland hverrar kirkju, söfnuðurinn sjálfur, er víða orðinn svo smár að sóknargjöldin duga engan vegin fyrir rekstrinum jafnvel þótt útgjöldin séu engin nema rafmagn og hiti og tryggingargjöld. En kirkjan stendur samt á sínum stað, og er vel við haldið, og eins er með kirkjugarðinn.
Í Vestfjarðaprófastdæmi, eins og í mörgum öðrum prófastdæmum á landinu, eru kirkjusóknir þar sem gjaldendur eru innan við tuttugu. Sóknargjaldið á mann á ári er um það bil tíuþúsund krónur. Í minnstu sókninni í Vestfjarðaprófstdæmi, Sæbólssókn í Önundarfirði, er einn gjaldandi. Samt er kirkjunni mjög vel við haldið, og kirkjugarðinum líka.
Í mörgum litlum sóknum er innkoma sóknargjalds svo lág að gjaldkeri sóknarnefndar eða einhver annar í sókninni greiðir rafmagnsreikninginn, eða önnur gjöld úr eigin vasa.
Í mörgum byggðarlögum hefur Húsafriðunarsjóður stutt myndarlega við viðhald kirkna, enda er stærstur hluti þessara kirkna undir friðunarlögum. Allar kirkjur sem reistar eru fyrir 1918 eru friðaðar. Þessar kirkjur eru í raun gersemar í eigu þjóðarinnar, þó að þær séu um leið tilbeiðslustaður þeirra sem játa kristna trú.
En hversvegna standa þær þarna og horfa yfir byggðina þó að fáir vitji þeirra. Það er af því að kirkjan er lifandi í hugum og hjörtum safnaðarins. Hið þögla kirkjuhús er ekki andvana hús. Augun sem horfa yfir byggðina eru ekki brostin augu. Kannski er byggðinni að blæða út. Kannski verða bráðum næstum allir farnir, en kirkjan stendur enn sína vakt. Við vígslu hennar hefur þess verið minnst sem Drottinn sagði við Salomon: (1.Kon. 9. 3)
„Ég hef heyrt ákall þitt og bæn sem þú fluttir fyrir augliti mínu. Ég hef helgað þetta hús sem þú hefur reist til þess að nafn mitt búi þar ævinlega. Augu mín og hjarta munu ætíð vera þar.
Og einhver daginn koma afkomendur þeirra sem fluttu burt og vitja sinnar gömlu móður, kirkjunnar í byggðinni, og þeir gera henni vel til, dusta rykið og fegra viðina, strjúka nærfærnum höndum um veggi og þil, af því að hjarta landsins slær áfram, og hjarta kirkjunnar slær í börnun hennar.
Í Sæbólssókn þar sem er einn gjaldandi, í Selárdal, þar sem er enginn, og í Aðalvík og Grunnavík, þar sem er engin föst byggð lengur. Ekkert nema trúfesti fólksins.
Kirkja er annarskonar hús en önnur hús. Kirkja er aldrei tómt hús vegna þess að þar býr auglit Guðs sem vakir yfir byggðinni og fólkinu, og bíður þess að það komi aftur þegar það er farið. Auglit Guðs er ekki hverfult, það vakir og bíður til eilífðar, ef þarf. Kirkja er annarskonar hús.
Fáir hafa túlkað það betur en Patreksfirðingurinn Jón úr Vör í ljóðinu: Ég vil hafa kirkju. (Úr bókinni Regnbogastígur).
Þökk fyrir ljóð þín,
segirðu,
þótt ég skilji þau ekki.
Ég vil hafa kirkju
í miðju plássinu,
segirðu.
Þegar ég kem að
með bát minn hlaðinn
að kvöldi
horfi ég fyrst heim
að húsinu mínu,
en ég sé líka það hús
sem ég veit
að enginn hefur valið sér
náttstað í
nema hátíðleg orð
sem er öðruvísi
en hin húsin -
og ég veit,
að ég á líka
erindi þangað.