Tákn biskupsembættisins

Erindi á vegum Reykjavíkurprófasdæmis eystra
í Breiðholtskirkju miðvikudaginn 15. nóvember 2023

 

Góðir tilheyrendur.

Ég hef það hlutverk hér í kvöld að tala um  hin ytri sýnilegu tákn biskupsembættisins. Þau eru tvö í samhengi þjóðkirkjunnar : biskupskrossinn og biskupskápan. Þetta eru hin liturgisku tákn.
Svarta hempan með silki og flaueli og kraginn sem henni fylgir eru  á mörkum þess að vera liturgisk tákn og ígangsklæði. Hin rauðbleika, eða purpurarauða skyrta og hvíti hringflibbinn teljast ekki til líturgiskra tákna samkvæmt hinn fornu hefð, en eru þó í samhengi yngri hefða sannarlega einnig hluti hinna ytri tákna biskupsembættisins, einfaldlega vegna þess að einungis biskupar klæðast prestsskyrtu í þessum lit.
Þessi flík kom ekki fram fyrr en á 19. öldinni einkum meðal kaþólskra og anglikana og hringflibbinn einnig. Ég kem síðar að þessu.

Munur er á liturgiskum klæðum og ígangsklæðum sem notuð  eru innan undir hinum liturgisku.Þar með talin er hempan sem síðar verður minnst á.

Árið 1215 samþykkti fjórða Lateranþingið að klerkar skyldu vera snyrtilegir til fara og að þeir ættu að klæðast þannig að sjá mætti á löngu færi að þar færi prestur. Meiningin með því  var að vegna þess að enginn trúuð sál (og þær voru margar á þeim dögum)  átti að þurfa að deyja án þess að geta fengið prestlega þjónustu; heilagt sakramenti kvöldmáltíðarinnar og  eða smurningu, eða í það minnsta fyrirbæn prests. Vegna þessarar skyldugu þjónustu þyrfti að vera fljótlegt að sjá og finna prest, einnig í mannþrönginni á götum úti.

Ég geri ráð fyrir að við getum öll sem á annað borð klæðumst skyrtum með prestaflibba borið vitni um að við fáum annarskonar spurningar frá vegfarendum þannig klædd en ekki, þó að það sé ekki endilega til að biðja okkur að vitja deyjandi fólks. Í tvisvar sinnum sjö ár var ég starfandi í Skálholti og væri ég í prestaskyrtu þar á hlöðunum kom alltaf til mín fólk með óskir sínar og spurningar, en væri ég það ekki sá mig aldrei nokkur maður nema sveitungarnir.
Það eru sem sagt fyrst og fremst krossinn og kápan sem eru tákn okkar biskupa. Engu að síður tel ég nauðsynlegt að nefna nokkur fleiri tákn  sem tengjast okkar sögu og hefðum, eins og mítur og bagal og jafnvel biskupshringinn.  Það er  ekki vegna þess að hann sé á dagskrá sem innsiglishringur eins og hann var, eða vegna þess að hann var hugsaður sem giftingarhringur í þeim kirkjum þar sem biskup mátti bara vera í hjúskap með kirkjunni sinni og þar með öllum söfnuðinum. Mér þykir rétt að nefna þetta vegna þess að sumir okkar biskupa hafa borið sérstakan biskupshring sem þeim hefur verið gefinn eða þeir hafa látið gera. Og ekki meira um það.

En áður en kemur að því að fjalla um hin hefðbundnu ytri liturgisku tákn, er nauðsynlegt að hafa smá millikafla um hempuna.

HEMPAN

Í kirkjusögu okkar varð eðlilega nokkur breyting á táknum biskupsembættisins þegar við skildum við hina kaþólsku kirkju og stofnuðum hina evangelisk-lúthersku. Það var einkum vegna þess að sum táknin voru fyrst og fremst  og mjög sterklega tengd hinum kaþólska sið, eins og mítrið,  stafurinn og hringurinn.

Sú hempa sem varð einkennisbúningur klerkdómsins á siðbótartímanum var afbrigði af eldri hempum kirkjunnar. Lúther og fleiri siðbótarmenn töldu að til þess að aðgreina sig frá kaþóslku kirkjunni væri best að leggja alveg af allan skrúða en nota í staðinn samskonar hempur og aðrir lærðir menn, einkum háskólakennarar og svo reyndar einnig munkakuflinn ef viðkomandi kom úr þeirri stétt eins og Lúther sjálfur. Lúther var enginn andstæðingur messuskrúðans og notaði hann sjálfur, en lét hafa eftir sér eitthvað á þá leið að það væri óþarfi að henda honum meðan hann væri til, en líka óþarfi að endurnýja hann. Skrúði væri aukaatriði og þjónaði  ekki boðun orðsins beinlínis.

Þessi afstaða merkti eins og kunnugt er að lítil breyting varð á notkun skrúða hér á landi og í hinum skandinavisku kirkjum almennt, nema að í ríki og löndum Kristjáns þriðja var ákveðið að leggja ætti af notkun stólunnar, en hafa messuserk og hökul einan. Ástæðan var sú að stólan var lögð yfir axlir prests í kaþólskri prestsvígslu sem tákn um embætti þeirra. Hin breytta áhersla á prestsembættið í lútherskum sið leiddi af sér að stólan var lögð til hliðar og prestur skrýddist yfir hempu sína einungis rykkilíni eða messuserk og hökli. Þess vegna var stóla ekki notuð í okkar kirkju fyrr en 1936 þegar frú Stefanía í Hraungerði saumaði með aðstoð vinkonu sinnar stólu handa séra Sigurði manni sínum. Stólur urðu þó ekki algengar fyrr en upp úr 1960 vegna þess að þær fylgdu með höklum keyptum frá Vanpoulles á Englandi.  Brynjólfur biskup í Skálholti átti þó og notaði stólu sem enn eru til hlutar af á Þjóðminjasafninu. Þar er einnig til gagnmerkt stólubrot frá Hólum en ekki er vitað hvort hún var í brúki eftir 1550. Umræða um að taka aftur upp stólu á hinum kirkjulega vettvangi um miðja síðustu öld fór aldrei fram, né heldur var því mótmælt af nokkrum svo vitað sé.

Íslenskar hempur voru frá upphafi siðbótartímans einfaldar að allri gerð og líkari poka en þeim hempum sem við þekkjum og breyttust ekki fyrr en venja varð að bera pípukraga. Hinar íslensku hempur  voru alls ekki endilega svartar,  gátu til dæmis verið brúnar. Allt eftir efnum. Um þróun hempunnar þarf ekki að ræða sérstaklega nema að það voru einmitt biskuparnir sem fluttu þann sið inn frá Danmörku að bera pípukraga eins og líka biskupshempurnar sem urðu íburðarmeiri og gerðar úr silki og flaueli og svo er enn.

Þannig varð silkihempan embættisklæði biskups og skilin á milli hinna liturgisku klæða og embættisklæða urðu óskýrari.

Varðandi notkun biskupshempunnar einnar þá gildir sú regla að þegar biskupar eru boðnir til veraldlegs samkomuhalds embættis sins vegna séu þeir í sínum silkihempum með kross og pípukraga. Þetta á (jafnvel einungis ) við í samtímanum þegar forseti Íslands er settur í embætti í Alþingishúsinu.

Hér lýkur hempuþættinum.

KROSSINN

Um biskupskrossinn (Pektorale) þarf ekki að fara mörgum orðum. Alveg frá frumkristni var algengt að hin kristnu bæru medalíur og armbönd sér til skrauts og helga dóma sér til verndar. Með tímanum þróaðist þessi venja yfir í sérstaka krossa sem voru holir að innan og geymdu til dæmis að sögn flís úr krossi Krists eða aðra helga dóma. Á 5.öld eru slíkir krossar orðnir hluti af táknum biskupsembættisins, en fyrst í stað báru biskuparnir þessa krossa innan klæða. Það er ekki fyrr en á 12.öld sem algengt varð að biskuparnir bæru krossinn yfir ölbunni. Með tilskipun 1570 varð það skylda í kaþólsku kirkjunni að krossinn væri sýnilegur.

Biskupskrossinn er vitnisburður um kærleika  Guðs  sem birtist í dauða Jesú á krossinum. Þegar hann er lagður yfir biskupinn í vígslunni skuldbindur hann biskupinn til að helga lif sitt eftirfylgdinni við Jesú Krist  sem gaf lif sitt fyrir okkur og alla.
Krossinn ber vitni um hin nánu tengsl þess sem ber krossinn við Krist og kirkju hans. Hann játar Krist sem frelsara  og merkir trúfesti og vilja til eftirfylgdar þess sem ber hann. Í kjarna sínum er því enginn munur í sjálfu sér á biskupskrossinum  og á litla krossinum sem margir bera innan klæða, annar en sá að biskupskrossinn staðfestir umsjónarhlutverk og tilsjónarskyldu biskupsembættisins

Venjan er sú að biskupskrossinn gangi frá einum biskupi til annars, en fráfarandi fái annan kross af einfaldari gerð. Biskup ber biskupskross alla tíð vegna þess að biskup er biskup meðan hann lifir, rétt eins og prestur er alltaf prestur nema hann hafi vegna afbrota misst hempuna með dómi. (Þó að það sé ekki viðfangsefni þessa erindis þá er rétt að taka fram hér að hið sama gildir um hina vígðu þjónustu í heild, djákna, prest og biskup. Vígslan er sending til æviloka og er óháð ráðningunni til starfa sem oftast lýkur við sjötiu ára aldur.)

Hvenær biskupar á Íslandi fóru að bera biskupskross utan yfir hempunni eða rykkilíninu hefur ekki verið rannsakað svo vitað sé.  Myndir og teikningar eru til af biskupum 19.aldar en enginn þeirra sýnir kross yfir hempu.

Fyrstur biskupa til að þiggja vígslu á Íslandi á síðari árum var Þórhallur Bjarnarson árið 1908. (Áður var sr. Jón Vigfússon vígður í Skálholti til Hólabiskupsdæmis af sr. Brynjólfi Sveinssyni 1674 og Geir biskup Vídalín fyrsti biskup Íslands eftir sameiningu Hólastiftis og Skálholtsstiftis var vígður á Hólum 1797 af síðasta biskupi Hólabiskupsdæmis sr. Sigurði Stefánssyni)
sr. Þórhallur var vígður í biskupskápu Jóns Arasonar, en fékk  ekki kross afhentan í vígslu sinni, enda varð það ekki fastur liður í ritúali biskupsvígslunnar fyrr en með Handbókinni 1981.

Myndir sýna að Jón Helgason biskup (1917 – 1939) bar sannarlega kross en óvíst er um biskupana á undan honum eins og fyrr segir. Biskupar 19. aldar sem vígðir voru í Kaupmannahöfn báru allir danskar orður eins og Dannebrogsorðuna á hempum sínum, en orða þessi er kross, eins og kunnugt er.
Allir biskupar Íslands eftir Jón Helgason hafa borið biskupskross. Hvort það er alltaf sami krossinn er ekki vitað.

Sr. Sigurður Sívertsen var vígður vígslubiskup í Skálholtsstifti 1931 og fékk þá gullkross sem gengið hefur á milli vígslubiskupa í Skálholti síðan þá. Af myndum að dæma hefur forveri hans í embætti séra Valdimar Briem ekki borið kross.

Sr. Friðrik J Rafnar var vígður vígslubiskup í Hólastifti árið 1937. Hann bar biskupskross, en forveri hans sr. Hálfdán Guðjónsson ekki.

Mítur

Það er hægt að fara hratt yfir sögu míturs í okkar samhengi.  Hugsanlegt er að fyrsti lútherski biskupinn á Íslandi Gissur Einarsson hafi borið mítur og bagal.  Allavega er það haft eftir Gísla Jónssyni, síðar Skálholtsbiskupi þegar  velja átti biskup eftir lát Gissurar að hann hafi sagt að hann vildi engan þann til biskups kjósa, sem ekki legði af mítur og bagal.

Mitur er einskonar hattur, samsettur úr tveim spjöldum sem tengd eru saman með klæðisbút og mynda efst tvö horn. Aftan til hanga niður tvö bönd. Mitur getur verið til í ýmsum litum, og þarf ekki að vera neitt samræmi milli litarins á mítrinu og á kápu eða hökli biskupsins. Hefð er fyrir því að líta svo á að virðing þeirra sem bera mitur sé meiri eftir því sem spjöldin eru hærri. Þess vegna eru þessir hattar ekki til skjóls heldur til virðingar.
Biskupar kaþólsku kirkjunnar hafa borið mítur síðan á 11.öld. Um miðja 12.öld er það í almennri notkun biskupanna.

Strangar reglur gilda um notkun miturs, hvenær það er sett upp og tekið niður. Tengsl eru á milli miturs og bagals þannig að biskup sem ber mítur tekur ekki staf sinn án þess.

Fyrir utan Gissur biskup Einarsson (ef það er þá satt) hafa þrír biskupar þjóðkirkjunnar borið mítur.

Séra Sigurbjörn Einarsson biskup bar mítur við  allar vígslur, prestsvígslur, biskupsvigslur, djáknavígslur  og kirkjuvígslur.

Séra Sigurður Pálsson í  Hraungerði, síðar á Selfossi bar mítur eftir að hann varð vígslubiskup við sérstök tækifæri.

Séra Pétur Sigurgeirsson bar mítur við vígslur. Biskupar eftir hans dag  ekki.
Álykta má að þar með hafi þessum kafla lokið í okkar kirkjusögu.

 

BISKUPSKÁPAN

Biskupskápan er upphaflega ekki liturgiskt fat heldur regnkápa og hét þá pluviale upp á latínu. Sem kápa í helgiþjónustunni heitir hún einnig kantarakápa, kórkápa og eða Vesperkápa vegna þess að hún var (og er) borin við helgar tíðir af þeim sem leiddu tíðagjörðina og sungu fyrir. Vegna þess að í aftansöngnum, vesper var og er borið inn reykelsi í þeim kirkjum sem nota það, samanber:

Bæn mín berist sem reykelsi fyrir auglit þitt og upplyfting handa minna sem kvöldfórn. (Sálm 141.2), er stundum talið að heitið reykjarkápa (Rauchmantel) sé vegna reykelsisins, en svo er ekki.
Sem sérstök kápa biskupanna varð kápan nokkuð seint. Hún hefur fyrst og fremst  fengið sérstakan sess hjá mótmælendum umfram þann sem hún hefur haft í kaþólsku kirkjunni, einkum anglikönum, skandinavisku kirkjunum og í kirkjunum Canada og Norður-Ameríku.

Biskupskápa Jóns Arasonar er vel þekkt og var lengi sú eina hér í landi, enda báru biskuparnir í lutherskum sið ekki kápu fyrr en kom fram á 19. öld. Elsta kápan sem enn er til auk kápu Jóns Arasonar kom með sr. Hallgrími Sveinssyni (1889 -1908) frá Kaupmannahöfn. Hún er sjaldan eða ekki notuð í seinni tíð og er varðveitt í Dómkirkjunni í Reykjavík eins og fleiri kápur, þar á meðal purpurakápan sem dætur Jóns Helgasonar biskups saumuðu fyrir hann kringum 1920.

Biskup ber kápu við allar vígslur og þegar hann eða hún sinnir allri liturgiskri þjónustu.  Löngum var það þó þannig að biskup lagði af kápuna fyrir predikun sína í venjulegri messu en skrýddist henni að nýju eftir predikun ef predikunin var flutt af predikunarstóli. Prediki biskup standandi fyrir framan altari afskrýðist hann ekki.

Forsendu kápunnar sem biskupskápu er að finna í frásögn Jóhannesarguðspjalls í 19.kaflanum. (1-3) Í tilraunarituali sem nota má þegar biskupskápa er tekin í notkun er ritað:

Við viljum einnig minnast þess  að Drottinn vor og frelsari Jesús Kristur var á jarðvistardögum sínum aðeins einu sinni skrýddur. Það var honum til háðungar.

Ritað er:  Þá lét Pílatus taka Jesú og húðstrýkja hann. Hermennirnir fléttuðu kórónu úr þyrnum og settu á höfuð honum og lögðu yfir hann purpurakápu. Þeir gengu hver af öðrum fyrir hann og sögðu: „Sæll þú, konungur Gyðinga,“ og slógu hann í andlitið

Þegar kápa er  biskupskápa  er hún tákn auðmýktarinnar. Það er vegna þess að hún er tákn niðurlægingar Jesú Krists okkar vegna. Biskup  ber háðung Krists.

Biskupskápan er ermalaus skikkja. Hefð er fyrir því að á framhlið hennar séu ýmis kristin tákn en á bakhlið einskonar skjöldur úr sama efni en með ríkulegri skreytingum en framhliðin. Þessi skjöldur hefur djúpa merkingu. Hann minnir á að biskup sem í embætti sínu er umsjónarmaður hinnar kristnu kenningar sinnar kirkju er þar með einnig vörður trúarinnar.
Hin kirkjulega hefð gengur út frá þeirri meiginreglu að kirkjur snúi austur og vestur.  Austur er helgasta áttin. Upprisuáttin. Sól rís í austri. Jesús reis upp frá dauðum með fyrsta bjarma páskasólarinnar. Þegar Jesús kemur aftur, kemur hann úr austri.
Vestur er átt sólarlagsins, hvíldarinnar, dauðans. Suður er átt hlýjunnar og kærleikans, iðjuseminnar og vonarinnar. Norður er þar á móti erfiðasta áttin. Þaðan kemur kuldinn og myrkrið og þaðan kemur hið illa.  Af þeirri ástæðu er sú hefð vaxin að biskupinn skuli sitja norðanmegin í kirkjunni. Biskupinn, verndari trúarinnar og verndari hinna trúuðu snýr kápuskildi sínum á móti myrkrinu og á móti hinu illa. Biskup tekur við árásum á kirkjuna og trúna og öllum skeytasendingum illviljans og verst þeim í Jesú nafni með kærleiksorðum og blessunum.

 

BISKUPSSTAFURINN

Síðasta atriðið í þessar upptalningu á táknum biskupsembættisins er biskupsstafurinn. Það kann að hljóma einkennilega í ljósi þess að biskupar okkar styðjast ekki við staf en það er samt alveg nauðsynlegt, vegna þess að stafurinn skýrir svo vel eðli og inntak biskupsþjónustunnar. Og eins og síðar verður bent á er það ekki stafurinn einn sem hefur boðskap að færa heldur höndin sem ber hann. (vinstri höndin)

En megin ástæðan er sú að það eru, þrátt fyrir það sem að framan er skráð, biskupsstafir í kirkjunni.  Þá er ekki átt við  biskupsstafinn sem séra Sigurður Sigurðarson fékk að gjöf við vígslu sína 1994  en notaði aldrei og var aldrei sýnilegur í Skálholti. Séra Sigurður vissi vel að umboð og sjálfstæði vígslubiskupanna er ekki hið sama og biskups Íslands sem embættis síns vegna gæti notað biskupsstaf.
Það eru tveir biskupsstafir í notkun í þjóðkirkjunni, þótt þeir hafi ekki til þessa verið kynntir sem slíkir. Krossinn sem borinn er fyrir skrúðfylkingunni sem gengur inn gólf Dómkirkjunnar í Reykjavík til helgrar þjónustu er í raun  biskupsstafur, bagall, með krossi innan í krók. Krossinn sem gegnir sama hlutverki í Hóladómkirkju er einnig bagall með krossi. Það væri því rökrétt að slíkur kross sem í raun er biskupsstafur væri á öllum dómkirkjunum þrem.

Biskupsstafurinn, krókstafurinn, er hirðisstafurinn. Þó að hann sé ekki nefndur í dæmisögu Jesú Krists um góða hirðinn þá er hann þar þótt ónefndur sé. Biskupsstafurinn er stafur hirðisins, stafur með krók til að krækja fyrir erfiða sauði og með broddi til að verjast úlfum og illvirkjum.

Þetta tákn er elsta tákn biskupsembættisins. Krókstafurinn fékk heitið Bagall hér hjá okkur. Það  er íslenskun á hinu latneska heiti  krókstafsins: Baculum pastorale.

Hirðisstafurinn er fyrsta og sterkasta táknið um það hvernig hin forna arfleifð stafsins sem hér verður getið, fékk nýja merkingu.

Þótt það gæti virst langsótt og ruglandi er samt gott og gagnlegt að byrja skýringarnar á biskupsstafnum á köllum Móse og samtali Guðs við hann.

Ástæðan  er þessi:  Uppruni hirðisstafsins, biskupsstafsins er í Egyptalandi. Faraóarnir höfðu staf í hendi sem táknaði í senn ábyrgð þeirra, umsjónarskyldu og vald.

Í  annari Mósebók þriðja kaflanum (2M. 3.1-6 ) er sagt frá köllun Móse, þegar Guð ávarpaði hann úr runninum sem logaði en brann þó ekki. Í 4.kaflanum (2M 4.1-5) segir Guð Móse að hann vilji senda hann aftur inn í Egyptaland til að frelsa þjóð sína. En ...

 Móse svaraði og sagði: „En ef þeir trúa mér ekki og hlusta ekki á mig, heldur segja: Drottinn hefur ekki birst þér.“  Þá sagði Drottinn: „Hvað ertu með í hendinni?“ „Staf,“ svaraði hann. Þá sagði Drottinn: „Varpaðu honum til jarðar.“ Móse varpaði stafnum til jarðar og varð hann að eiturslöngu og Móse hörfaði undan henni.  Þá sagði Drottinn við Móse: „Réttu út höndina og gríptu um halann á henni.“ Hann rétti út höndina, tók um hann og varð hún þá aftur að staf í hendi hans.  „Þetta verður til þess að þeir geti trúað því að Drottinn, Guð feðra þeirra, Guð Abrahams, Guð Ísaks og Guð Jakobs, hafi birst þér.“

Og enn segir í 14 kafla annarar Mósebókar (2M.14.-15-16) þegar Móse er kominn í vandræði með Egyptana á hælum sér og hafið framundan:

Drottinn sagði við Móse: „Hvers vegna hrópar þú til mín? Segðu Ísraelsmönnum að halda af stað. En þú skalt reiða upp staf þinn og rétta hönd þína út yfir hafið og kljúfa það svo að Ísraelsmenn geti gengið á þurru í gegnum hafið. 

Þetta merkir að Guð gaf Móse staf sem var tákn um einn meiri kraft og enn víðtækara umboð en það sem Faraó hafði erft og tekið sér, því að hann var tákn Guðs.

Bagallinn, biskupsstafurinn er í kaþólskum sið staðfesting þess umsjónarumboðs biskups sem hann þiggur úr hendi páfa, eða úr hinni óbrotnu röð biskupa frá postulatímanum.
Þess vegna hefur biskupsstafurinn  fylgt biskupum anglikönsku kirkjunnar og þeirri sænsku og finnsku, en einnig lúthersku kirkjunum í Bandaríkjum Norður Ameríku og í Canada. Vera kann að fleiri kirkjur mótmælenda noti staf, en enginn lúthersku kirknanna í Evrópu, nema sú sænska og sú finnska bera biskupsstaf og mitur. 

Niðurlag.

Jesús valdi sér postula, tólf að tölu. Eftir upprisu hans frá dauðum  vann hann í 40 daga með þeim 11  þar til hann steig upp til himna og sendi heilagan anda. Þá varð til skipulag þjónustunnar.  Postularnir afhentu öðrum sitt hluverk umsjónarinnar, þannig urðu biskupar til. Pétur postuli varð sjálfur biskup safnaðarins í Róm eins og  öllum er kunnugt.

Ekki aðeins kjarni fagnaðarerindisins og boðun þess varð hlutskipti postulanna, hin postullega kenning, heldur urðu til hefðir og venjur strax á postulatímanum. Þær eru  ekki hluti af fagnaðarerindinu sjálfu,  en voru látin þjóna því erindi með sínum ytra hætti, eins og til dæmis í klæðaburði. Þess vegna festust ákveðnar flíkur í hefð og siðum kirkjunnar og notkun þeirra varð hluti helgisiðanna. 

Eitt það yngsta og nýjasta í þessum hefðum er biskupsskyrtan. Hún er ekki bara til leiðbeiningar um það hver er biskupinn í hópnum  heldur er hún áminning um þjónustuhlutverkið í eftirfylgdinni við Jesú Krist. Þess vegna ber hún sama purpuralitinn og kápa hins húðstrýkta frelsara.

Þökk fyrir.