Jólapredikun í Saurbæ annan jóladag 2024
Náð og friður Guðs sé með ykkur öllum í Jesú nafni.
„Guðs engill flytur ennþá boð
með undurskærri raust
um sálarfrið, um frelsi til
að fagna óttalaust.
Á jólahátíð heilög kyrrð
fær hugann leyst úr þröng
því heimurinn á hljóða stund“
og heyrir englasöng. (sb 40 Hjálmar Jónsson)
„Óttist ekki.“
Yfirskrift jólahátíðarinnar „Óttist ekki.“, kemur vel fram í þessu versi sem er þýðing séra Hjálmars Jónssonar á sálminum „It came upon the Midnight clear“.
Það var árið 1849 sem ameríski skáldpresturinn Edmund H Sears samdi jólasálminn „It Came Upon the Midnight Clear“, með vísun í orð englanna í Lúk.2.14: „Dýrð sé Guði í upphæðum og friður á jörðu og velþóknun Guðs yfir mönnum“.
Þessi sálmur er vel þekktur og sunginn um víða veröld og einkum náttúrulega í hinum enskumælandi heimi en einnig í þýðingum annarsstaðar eins og hér. Hann þykir hafa nokkra sérstöðu meðal jólasálmanna vegna þess að hann fjallar ekki fyrst og fremst um fæðinguna í Betlehem heldur um almennt ástand heimsins hér og nú og á öllum tímum og um það hvernig boðskapur jólanna um frið mætir ófriði heimsins.
Vitað er að höfundurinn var mjög plagaður af fréttum um stríðið sem kallað er Mexíkó-stríðið og stóð árin 1846 - 1848 en var nýlokið þegar sálmurinn varð til. Þetta var striðið þegar bandaríkjamenn gerðu innrás í Mexikó og náðu því á sitt vald. Á sama tíma bárust fréttir frá Evrópu um byltingar og byltingatilraunir sem juku enn á erfiðar fréttir um ofbeldi og upphlaup, andspænis hinni sístæðu fregn um frið jólanna. Edmund Sears var viðkvæm sál, eins og lesa má um í pistlum um sálmasögu heimsins. Það reyndist honum erfitt að berjast á móti því að gleyma sér í erfiðleikum daglegs lífs eða láta vondar fréttir um stríð og manndráp og hverskyns glæpi gleypa sig. Ég tel víst að við getum öll sett okkur í hans spor hér og nú. Boðskapurinn um frið á jörðu sem oft virtist helst mæta daufum eyrum heimsins varð kveikjan að sálminum og gefur huggun og styrk, hvíld og ró í faðmi Guðs þar sem friðurinn, öryggið og kærleikurinn fæðist og er lagt í jötu í litlu barni.
Við erum heppin að eiga íslenska þýðingu séra Hjálmars. Boðskapur engilsins um frelsið til að fagna óttalaust, er eins og í frumtextanum skýr og afgerandi í þýðingunni.
Hlutverk og boðskapur englanna í lífi kynslóðanna og í sjálfu sköpunarverki Guðs er ekki oft nefnt nema helst á jólunum. Meira að segja þegar við minnum hvert annað á hin sameiginlega grundvöll trúarinnar á Guð í hinum fornu játningum vill gleymast að við játum trú á Guð sem skapar hinn sýnilega og ósýnilega heim. Við gætum orðað það þannig að hinn ósýnilegi heimur sé jafn raunverulegur og hinn sýnilegi. „Sæl eru þau sem ekki sáu og trúðu þó“, segir Jesús sem er jafn lifandi og nálægur í hinum hulda veruleika sem hinum sýnilega. Englar eru erindrekar Guðs. Í hinni ósýnilegu veröld eru englarnir og þau öll sem Guð hefur valið og kallað þar til þjónustu við sig. Þar eru hinir þjónustubundnu andar, englarnir og hin heilögu, jafnt þau sem eru þekkt og nefnd og óþekkt , ekki nafnlaus en óháð nafni sínu í helgri þjónustu í anda og í lífi Jesú Krists.
Claus Westermann prófessor í biblíufræðum í Heidelberg skrifaði eftirfarandi um englana: „Kæmi enginn engill framar þá myndi veröldin farast. Svo lengi sem Guð ber jörðina uppi í faðmi sínum sendir hann engla sína. Englarnir eru eldri en öll trúarbrögð og koma einnig til þeirra sem vilja ekkert lengur vita af nokkrum trúarbrögðum.“.
Það voru harkmikil hermannastígvél sem virtust ráða taktinum og tónlistinni í Betlehem forðum. Hafi verið tónlist í gistihúsunum þá hefur hún beðið lægri hlut fyrir glaumnum og hávaðanum í fólkinu sem þar hafði um stund flúið aðstæður sínar og þar með sitt eigið sjálf. Hvort fleiri heyrðu englasönginn en nokkrir hirðar, kindurnar þeirra og hundarnir, kann vissulega að vera, þótt Lúkas nefni það ekki og hafi kannski alls ekki grennslast fyrir um það þegar hann ræddi við Maríu og fékk að heyra það sem hún mundi frá þessari nótt og frá aðdragandanum. Þrír englar stíga fram í frásögn guðspjallanna. Sá fyrsti sem boðaði Maríu að Guð myndi gefa henni son, sá sem var forsöngvari á jólanóttina og sá sem velti steinum frá grafarmunnanum. Allir þessir atburðir eru kunngjörðir af sendiboða frá hinum ósýnilega, æðra heimi, með orðunum: „Óttist ekki“.
Ein stærsta gjöf kristinnar trúar er þegar hún tekur frá okkur óttann eða gefur okkur kjarkinn til að mæta honum og horfast í augu við hann. Óttaefnin koma yfirleitt utanfrá en óttinn sjálfur innan frá, nema þegar óttaefnið er eitthvað sem við berum sjálf með okkur og í okkur. Svarið er alltaf traustið til hans sem sagði englum sínum að bera öllum heiminum sömu boð: Óttist ekki. Farið og finnið barnið í jötunni og leyfið því að snerta ykkur með augum sínum og gróðursetja frið og óttaleysi í huga og hjarta.
Friður á jörðu sem boðaður er í jólaguðspjallinu var ekki eins og rigning sem féll jafnt yfir allt og alla, réttláta og rangláta eða geislavirkt ryk undan hjartarótum brjálæðinganna. Sprengjuregnið gefur hvorki grið né frið.
Friður á jörðu var lagður í jötu. „Þið munið finna ungbarn liggjandi í jötu“ söng engillinn. Friður á jörðu verður ekki til með tilskipunum, hann gengur frá einum til annars vegna snertingar við frið Guðs.
Að eiga frið með sjálfum sér og í sjálfum sér til þess að deila með öðrum er stofn heimsfriðar.Þið haldið kannski að þetta sé bull! Litla stúlkan með eldspýturnar reyndi að verma sig á eldi einnar eldspýtu. Það tókst ekki af því að hún brann upp. Svo lítill logi geymir samt í sér kraft hins mikla elds eins og þann sem brýst upp úr jörðinni og breytir landinu. Friðurinn í brjóstinu geymir kraftinn til að stöðva stríð og hindra ófrið. Einnig minnsta og stysta bæn sem beint er til Guðs er lykill að allri Guðs náð og sköpunarkrafti hans. Hin langa hefð í kirkjunni, alveg frá dögum postulanna, að koma saman og heyra hvað Guð segir í heilögum ritningum sínum og hugleiða það, er alveg jafn nauðsynleg nú og þá. Markmiðið er að heyra og hugleiða skilaboð eilífðarinnar svo að bæði hugurinn og hjartað megi gleðjast og fagna, áhyggjur dvína, verkirnir minnka og friðurinn fara um líkamann eins og læknandi kraftur. Það er verk Guðs og erindi hans í og með Jesú Kristi. Við erum minnt á það á hverjum jólum til þess að við gleymum því aldrei.
„Og friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, mun varðveita hjörtu ykkar og hugsanir ykkar í Kristi Jesú.“ (Fil.4.7)