Predikun á Skálholtshátíð 2017
Kirkja vors Guðs er gamalt hús,
Guðs mun þó bygging ei hrynja.
Guð er til hjálpar henni fús,
hvernig sem stormarnir dynja.
Mannvirki rammgjörst féllu fljótt,
finnur enn skjólið kristin drótt
Herrans í húsinu forna. (Sálmur sb. 285)
Grundtvig/Helgi Hálfdánarson
Drottinn sagði við Elía: „Far út og gakk fram fyrir auglit Drottins uppi á fjallinu.“ Þá gekk Drottinn þar hjá. Gífurlegur stormur fór fyrir Drottni, svo öflugur að hann molaði fjöll og klauf kletta. En Drottinn var ekki í storminum. Eftir storminn varð jarðskjálfti. En Drottinn var ekki í jarðskjálftanum. 12Eftir jarðskjálftann kom eldur. En Drottinn var ekki í eldinum. Eftir eldinn kom þytur af þýðum blæ. 13Þegar Elía heyrði hann huldi hann andlit sitt með skikkju sinni, gekk út og tók sér stöðu við hellismunnann. Þá barst honum rödd sem spurði: „Hvað ert þú að gera hér, Elía?“ (1. Kon. 19.11-13)
Náð sé með yður og friður, frá Guði Föður og Drottni vorum Jesú Kristi. Amen
Kæri söfnuður á Skálholtshátíð. Marteinn Lúter sem við minnumst marvíslega á þessu afmælisári siðbótarinnar bað þannig og við biðjum með honum:
Lieber Gott und Vatter, ich weyß gewiß, das du mich lieb hast; dan ich hab deinen Sohn und meinen Erlöser Jesum Christum lieb; inn solchem vertrauen und zuversicht will ich dich jetzund tröstlich bitten, du wöllest mich erhören und mir geben was ich bitt, nicht das ich so heilig oder fromm sei, sondern das ich weyß,das du umb deines Sons Jesu Christi willen gern alles geben und schencken wilt,inn desselben Namen trette ich jetzt für dich und bitte und zweifel gar nich, mein Gebett (ich sei meiner Person halben, wie ich wölle) sei gewiß erhöret.
Kæri Guð og faðir, ég veit með vissu að þér þykir vænt um mig, því að mér þykir vænt um frelsara minn Jesum Krist, í þvi trausti og öryggi vil ég nú biðja þig þess að þú viljir heyra mig og gefa mér það sem ég bið um, ekki af því að ég sé svo heilagur eða guðhræddur, heldur af því að ég veit að þú vilt vegna sonar þíns Jesú Krists gjarna gefa og afhenda allt, i því nafni geng ég nú fram fyrir þig og bið og efa alls ekki að bæn mín, (hver svo sem ég er) sé sannarlega heyrð. Amen
Marteinn Luther var í senn grafalvarlegur, djúpspakur og einlægur guðfræðingur og prestur, oft argur og ruddalegur, en líka fyndinn og skemmtilegur. Hann var sonur sinnar samtíðar.
Að sjálfsögðu. Og þegar við nú minnumst þess að 500 ár eru liðin frá því að siðbótin, eða siðbreytingin, fór af stað í Wittenberg þá þurfum við að gæta þess að greina hismið frá kjarnanum. Lúter sagði margt sem við getum ekki samþykkt að sé enn í gildi, en hann sagði líka margt, og ennþá fleira, sem er í fullu gildi enn í dag og rúmlega það. Og það skiptir máli. Það skiptir til dæmis máli alveg án trúarlegra pælinga að áhersla hans á að Biblían og messan skyldu vera á þeirri tungu sem allir skildu hafði þau áhrif að Oddur Gottskálksson skyldi þýða Nýja Testamentið á Íslensku hér í Skálholti og þannig leggja nýjan grunn að því að við skulum tala íslensku. Og eins og Lúther þurfti að finna upp mörg ný orð og hugtök í þýðingarvinnunni, þurfti Oddur það einnig. Það er í raun alveg stórkostleg afurð siðbótarinnar.
Kæri söfnuður.
Við heyrum í guðspjallinu eina af dæmisögum Jesú um himnaríki. Guðspjallið um mustarðskornið er í senn stutt og einfalt, en um leið er merking þess löng og margbrotin og bæði djúp og breið.
Sumir spekingar vilja meina að guðspjallsfrásögnin bendi til þess að Jesús og postularnir hafi ekki verið góðir í grasafræði, vegna þess að sinnepskorn séu alls ekki svo smávaxin. Þá er því til að svara að ekki flöskuðu þeir á fræðunum. Sinneps- sáðkornin sem þeir þekktu eru svo smávaxin að þú þarft hundrað stykki hið minnsta til að fá eitt gramm af fræi. Skiptir það máli? Nei alls ekki.
Skiptir það máli að Oddur Gottskálksson valdi að kalla fræið mustarðskorn en ekki sinnepskorn, rétt eins og hann hefði verið búinn að lesa ensku Biblíuna frá 1539 en ekki hina þýsku þýðingu Lúthers 1522 eða 1534, eða danska Nýja testamentið frá 1524.
Nei, það skiptir ekki máli, en það er gaman að velta því fyrir sér hvernig hann nálgaðist það verkefni að færa Guðs orð heim til fólksins. Þar með er kominn kjarninn í öllu siðbótar og siðbreytingar starfi. Við verðum að tala það mál sem allir skilja. Guðs orð, á tungutaki sem allir skilja, nálægð Guðs í orði hans sem kallar okkur til trúar og þjónustu og leiðir okkur um síðir inn í himinn sinn, inn til eilífðarinnar.
Það gerist ekki með offorsi, stórum yfirlýsingum eða fjöldasamþykktum. Það gerist hægt og hljótt og byrjar smátt. Það er inntak dæmisögunnar um sinnepskornið sem hjá okkur heitir mustarðskorn og er öllum sáðkornum smærra en upp vex samt stærðarinnar jurt. Kálgresi segir Oddur í NT1540. Það segir Lúter líka; kálgresi - og fuglar leita þar skjóls. En frækornið smáa varð feiknastórt tré, segir Valdimar Briem í sálminum, (Sb.302) af því að þannig segir Mattheus þessa dæmisögu. (Matt.13.31-32) Kálgresið verður tré.
Það minnir okkur á fréttina um döðlupálmafræin sem fornleifafræðingar fundu í Ísrael fyrir einum fimmtíu árum og voru samkvæmt aldursgreiningu 2000 ára. Árið 2005 tókst vísindamönnum að vekja lífið í einu fræinu og nú stendur þar kröftugur döðlupálmi og ber ávöxt. Maður skyldi ekki vanmeta þann kraft og þau undur sem Guð setur í eitt lítið fræ. Og við þurfum ekkert að vera óróleg yfir því að það dragist að þau spíri!
Sagan um verk Guðs börnum sínum til blessunar þar sem hið stærsta vex út því smæsta, er staðfesting dæmisögunnar.
Kristur er lagður í jötu í gripahúsi.
Kristur er negldur á kross, hæddur og spjaður, og smáður.
Hópurinn hans flúði út í myrkrið í Getsemane garðinum.
Óttasleginn faldi hann sig bak við lokaðar dyr að kvöldi upprisudagsins. Nú eru þau milljónir og aftur milljónir um allan heim.
Af því að hann er upprisinn!
Einn var Lúter þegar hann lagði af stað knúinn af Guðs orði. Lútherskar kirkjur einar telja 74 milljónir.
Einn sat Oddur í fjósinu og þýddi Nýja testamentið á íslensku. Það væri gaman að reyna að meta áhrif þess!
Við erum kölluð til þess að sjá hið smáa og gæta vel að því. Álykta má út frá dæmisögunni að maður finni ekki himnaríki nema sjá hið smáa. Nema þér verðið eins og börnin, segir Jesús. Gættu að börnunum, gættu að táknum náttúrunnar.
Guð, allur heimur, eins í lágu og háu, er opin bók um þig er fræðir mig.(Sb.20)
Hve margt er það líf sem í moldinni býr það mundu og gæt þar að.(Sb,837)
Mjór er mikils vísir, segir máltækið.
Það er þá nærtækt að spyrja, alla vega í mínu tilviki: Er maður þá ekki mikils vísir ef maður er ekki lengur mjór ? Svar: Í blóminu sem er útsprungið að fullu og á ekkert eftir nema visna og falla, sjáum við oft þessa hárfínu þræði, sem boða framtíð og nýtt líf, og nýjan kraft. Fræin eru Guðs, ávöxturinn einnig.
Í hverjum litlum neista er fólginn kraftur hins mikla elds - eins og þeim sem eyddi sjálfri Rómaborg.
Í hverju litlu bænaandvarpi er fólgið ákall um kraft sem getur breytt heiminum, og kallað fram líf úr dauða.
Lítil og veik og viðkvæm trú sem við gætum haldið að feyktist burt við minniháttar mótvind kann að hafa þær rætur sem enginn slítur.
Lítil bæn, lögð í huga og á varir lítils barns getur verið lykillinn að langri samleið með Jesú Kristi og opnað sjálfan himininn!
Tilvitnunin í frásöguna um Elía á fjallinu hér í upphafi bendir til hins sama. Guð var ekki í storminum og eldinum og jarðskjálftanum. Hann var í blíðum blæ. Í litlu laufi sem svífur til jarðar og lendir kannski á hundstrýni, er Guð að segja söguna um hið stórkostlega undur sem lífið er.
Kirkjan er sannarlega gamalt hús, en Guðs bygging mun ekki hrynja, einfaldlega af því að hún er Guðs bygging. Pétur heitinn Sigurgeirsson biskup, sat hérna inni í matsal skólans og fannst fólkið gera sér óþarfa áhyggjur um framtíð kirkjunnar og sagði: Ekki hafa áhyggjur af kirkjunni. Guð á hana. Þetta sagði hann. Einföld orð og auðskilin, og geyma í sér allt sem máli skiptir, sérstaklega andspænis öllum þeim erfiðu og nánast óyfirstíganlegu hindrunum sem svo víða mæta trú og kristindómi. Guð á kirkjuna.
Óttist ekki. Svo einfaldlega og elskulega bera englarnir boð Guðs til mannanna. Óttist ekki.
Af því að það er Guð sem talar. Hann talar í orði sínu, hann talar í náttúrunni og hann talar í samviskunni. Hvernig veit ég að það er hann sem talar? Óttast ekki. Hlustaðu.
Og kannski heyrum við þá spurninguna sem Guð beindi í Elía: Hvað ertu þú að gera hér?
Mendelsohn sem samdi sína dásamlegu tónlist um spámanninn Elia, tók vers úr Mattheusarguðspjalli, og úr Jesajabókinni til að fullna söguna, af því að saga Guðs og manns stefnir alltaf að þeirri stundu þegar himnaríki er ekki lengur von, eða óljós mynd, eða fræ sem ekki hefur spírað enn, heldur fullkomnun alls:
þegar hinir réttlátu munu lýsa eins og sólin (sbr. Matt.13.43)
Fögnuður og gleði skal fylgja þeim,
en hryggð og andvarpan flýja. (Jesaja 51. 11c)
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er enn og verða mun um aldir alda. Amen